Hinn 6. janúar 2012 kvartaði A yfir ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um skipun í embætti skólameistara á árinu 2010, en hann var meðal umsækjenda. Kvörtunin laut m.a. að framgöngu skólanefndar í málinu. Þá kvartaði A yfir „seinagangi“ ráðuneytisins og inntaki svara þess „með skírskotun til ófullnægjandi efnistaka og almennra samskipta og kurteisi“, en hann hafði átt í samskiptum ráðuneytið í framhaldi af ákvörðunartökunni.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 13. janúar 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Þar sem ákvörðun um skipun í embættið var tekin utan við ársfrest samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 voru ekki skilyrði til umfjöllunar um kvörtunina. Umboðsmaður benti A þó á að hann hefði nýlega lokið afskiptum sínum af málum sem vörðuðu skipanir í stöður skólameistara í framhaldsskólum, nánar tiltekið í málum nr. 6186/2010 og 6198/2010, og hefði í tilefni af þeim ritað mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem athygli ráðherra var vakin á tilteknum atriðum er vörðuðu aðkomu skólanefnda að skipunum í embætti skólastjóra í framhaldsskólum. Umboðsmaður taldi kvörtunina, að því leyti sem hún varðaði samskipti A við mennta- og menningarmálaráðuneytið, ekki þannig úr garði gerða eða studda nægjanlegum gögnum til að vera tæka til umfjöllunar. Hann tók hins vegar fram að A væri velkomið að senda sér nýja kvörtun þar sem þær ákvarðanir og athafnir væru nánar tilgreindar ásamt viðeigandi gögnum sem vörpuðu ljósi á kvörtunarefnið en minnti í því sambandi á ársfrest 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.