I. Kvörtun.
Hinn 8. nóvember 2006 leitaði til mín B, fyrir hönd eiginkonu sinnar A, og kvartaði yfir innheimtu Umferðarstofu á réttindagjaldi vegna einkamerkis bifreiðar hennar, „[...]“. Lýtur kvörtunin nánar tiltekið að því hvort Umferðarstofa hafi heimild til þess að innheimta á ný gjald, að sömu fjárhæð og greidd var fyrir réttinn til einkamerkis í upphafi, þegar rétturinn til merkisins er endurnýjaður að átta árum liðnum samkvæmt ákvæði í reglugerð.
Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 13. febrúar 2007.
II. Málavextir.
Samkvæmt gögnum málsins fékk A sent bréf frá Umferðarstofu, dags. 22. september 2006, þar sem henni var tilkynnt að samkvæmt reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003 gilti réttur til að nota einkamerki í átta ár og til að endurnýja réttinn þyrfti að óska eftir endurnýjun og greiða réttindagjald að fjárhæð kr. 25.000. Einnig kom fram í bréfinu að hinn 3. október 2006 yrðu liðin átta ár frá því að hún hefði fengið úthlutað einkamerkinu og ef hún ætlaði ekki að endurnýja réttinn að umræddu einkamerki yrði hún að skila merkjunum inn til Umferðarstofu fyrir þann dag. Ef ekki yrði gengið frá endurnýjun á rétti til einkamerkisins fyrir 1. nóvember 2006 yrði litið svo á sem hún hygðist ekki endurnýja réttinn og hann yrði þá felldur niður og merkjunum fargað.
Í tölvupósti B til Umferðarstofu, dags. 7. nóvember 2006, óskaði hann eftir upplýsingum um það á hvaða grunni ofangreind gjaldtaka vegna endurnýjunar á einkamerki væri reist. Umferðarstofa svaraði B með tölvupósti, dags. 8. nóvember s.á., og kemur þar meðal annars fram að „ákvörðun gjalds fyrir rétt til þess að nota einkamerki [byggi] á ákvæði í 64. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987[...] Gjaldið skv. 64. gr. a [sé] í eðli sínu skattur, tekjur fyrir ríkissjóð, en ekki tekjur samkvæmt gjaldskrá stjórnvalds til þess að mæta tilteknum afmörkuðum rekstrarkostnaði“.
Í kjölfar þessa svars leitaði B til mín með framangreinda kvörtun.
III. Athugun umboðsmanns Alþingis.
Í tilefni af erindi B ritaði ég samgönguráðherra bréf, dags. 14. nóvember 2006, þar sem ég lýsti efni kvörtunarinnar. Rakti ég jafnframt ákvæði 64. gr. a í umferðarlögum nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1996. Í bréfinu óskaði ég eftir því að samgönguráðuneytið gerði grein fyrir þeirri lagaheimild sem það teldi innheimtu gjalds vegna endurnýjunar réttar til einkamerkis styðjast við og þá sérstaklega með tilliti til þess að fjárhæð umrædds gjalds væri ákveðin í lögum, sbr. 2. mgr. 64. gr. a umferðarlaga, þar sem segir: „Fyrir rétt til einkamerkis skal greiða 25.000 kr. [...].“
Svar samgönguráðuneytisins barst mér með bréfi, dags. 19. desember 2006. Þar eru rakin ákvæði 64. gr. a umferðarlaga en því var bætt inn í lögin með lögum nr. 37/1996. Vísað er til þess að í lagaákvæðinu komi ekki fram hver gildistími réttinda til einkamerkja skuli vera en bent er á að fram hafi komið í lögskýringargögnum að gert hafi verið ráð fyrir að rétturinn til einkamerkis yrði tímabundin, væntanlega til átta ára. Þá er vikið að ákvæði 21. gr. reglugerðar nr. 78/1997, um skráningu ökutækja, sem sett var af dóms- og kirkjumálaráðherra á þeim tíma sem ráðuneyti hans fór með framkvæmd umferðarlaga. Þar voru ákvæði um að rétturinn til að nota einkamerki gilti í átta ár. Þessi ákvæði voru í gildi þegar A var úthlutað einkamerki sínu. Sama ráðuneyti gaf síðan út núgildandi reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, en ákvæði um einkamerki eru þar í 26. gr. og eru þau rakin í bréfinu auk þeirrar breytingar sem samgönguráðuneytið gerði á umræddu ákvæði með reglugerð nr. 691/2006 þar sem nýjum málslið var bætt við c. lið 4. mgr. 26. gr. þess efnis að fyrir endurnýjun einkamerkis skuli greiða sérstakt gjald, sbr. 1. mgr., þ.e. sama gjald og greitt er fyrir einkamerki samkvæmt 64. gr. a umferðarlaga. Í bréfinu segir síðan orðrétt:
„Ráðuneytið vill leggja áherslu á eftirfarandi sjónarmið sem liggja að baki tímatakmörkun réttinda til að nota einkamerki. Um er að ræða takmörkuð gæði. Sanngirnisrök eru talin mæla með því að orð, nöfn eða stafir sem almennt eru eftirsótt komi til úthlutunar að nýju að ákveðnum tíma liðnum. Reglan miðar að því að rétthafi njóti forgangs til einkamerkis kjósi hann að halda því.
Ráðuneytið leggur í álit umboðsmanns Alþingis mat á því hvort lagaheimildin í umferðarlögum sé fullnægjandi til að standa undir þeirri framkvæmd sem lýst hefur verið hér að ofan fyrir rétt til einkamerkis. Takmörkunin er sett fram í reglugerð sem er samkvæmt efni sínu í samræmi við athugasemdir með lagafrumvarpi því sem innleiddi rétt til einkamerkis í fyrsta sinn.“
Ég sendi B afrit af svarbréfi ráðuneytisins til upplýsingar 20. desember 2006.
IV. Álit umboðsmanns Alþingis.
1.
Álitaefni það sem hér reynir á lýtur að því hvort fullnægjandi lagaheimild sé fyrir þeirri tilhögun sem mælt er fyrir um í c-lið 4. mgr. 26. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með síðari breytingum, að rétturinn til einkamerkis samkvæmt 64. gr. a í umferðarlögum nr. 50/1987 fáist ekki endurnýjaður að átta árum liðnum nema gegn greiðslu gjalds að sömu upphæð og lögum samkvæmt var greitt fyrir merkið í upphafi.
2.
Í 63. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 er mælt fyrir um að áður en bifreið, bifhjól, torfærutæki eða dráttarvél er tekin í notkun skuli ökutækið skráð og skráningarmerki sett á það. Samkvæmt ákvæðum umferðarlaga er skráningarmerki forsenda fyrir notkun ökutækis en skráningarmerki þessi geta verið tvenns konar. Annars vegar hefðbundin skráningarmerki og hins vegar svonefnd einkamerki
Ákvæði um sérstök einkamerki sem skráningarmerki og gjaldtöku vegna þeirra er eins og áður segir að finna í 64. gr. a umferðarlaga en ákvæðið er svohljóðandi:
„Ráðherra getur sett reglur um heimild eiganda ökutækis til að velja tiltekna bókstafi og tölustafi á skráningarmerki ökutækisins (einkamerki).
Fyrir rétt til einkamerkis skal greiða 25.000 kr., auk gjalds fyrir skráningu og skráningarmerki. Fyrir skráningu á flutningi einkamerkis af einu ökutæki á annað í samræmi við reglur sem settar eru skv. 1. mgr. skal greiða sama gjald og fyrir skráningu eigendaskipta að ökutæki.“
Framangreint ákvæði 64. gr. a var upphaflega sett í lög með 1. gr. laga nr. 37/1996, um breyting á umferðarlögum nr. 50 30. mars 1987. Greininni var breytt með 5. gr. laga nr. 83/2002, um breyting á umferðarlögum nr. 50 30. mars 1987, með síðari breytingum, en breytingin fólst í því að felld voru brott fyrirmæli 2. mgr. um að gjald fyrir einkamerki skyldi renna til Umferðarráðs. Samkvæmt d-lið 1. mgr. 114. gr. umferðarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 83/2002, skulu gjöld þessi nú renna til Umferðarstofu.
Í frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/1996 var upphaflega gert ráð fyrir að gjald fyrir einkamerki skyldi vera 50.000 kr. Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að rétt hafi þótt að gjald fyrir einkamerki yrði hærra en gjald fyrir almenn skráningarmerki og væri lagt til að gjaldinu yrði varið til að auka umferðaröryggi í landinu og að það rynni til Umferðarráðs, svo sem væri um umferðaröryggisgjald skv. 115. gr. umferðarlaga. Þá sagði í athugasemdunum:
„Með frumvarpi þessu er lagt til að dómsmálaráðherra verði heimilað að setja reglur um sérstök skráningarmerki (einkamerki) á ökutæki þar sem eiganda ökutækisins verði veitt heimild til að velja samstæðu bókstafa og/eða tölustafa á skráningarmerkið í stað þeirra bókstafa og tölustafa sem skráningarmerkið mundi að öðrum kosti bera í samræmi við almennar reglur um skráningu ökutækja. Slík skráningarmerki á ökutæki hafa verið heimiluð í ýmsum löndum, m.a. í Danmörku og Svíþjóð.
Gert er ráð fyrir að í reglum verði kveðið nánar á um framkvæmdaratriði, svo sem um hámarksfjölda bókstafa og tölustafa á skráningarmerki. Þar verði og ákvæði er tryggi að áletrun á skráningarmerki brjóti ekki í bága við íslenskt málfar né sé hún fallin til að valda hneykslun eða geti haft í för með sér óþægindi fyrir aðra. Þá er gert ráð fyrir að réttur til einkamerkis verði tímabundinn, væntanlega til átta ára, og að eigandinn hafi rétt til að færa einkamerkið á annað ökutæki á þeim tíma.“ (Alþt. 1995–1996, A-deild, bls. 2372.)
Við meðferð frumvarpsins á Alþingi var gerð sú breyting að gjald fyrir einkamerki var lækkað úr 50.000 kr. í 25.000. Var breytingin að tillögu allsherjarnefndar og kom fram í ræðu framsögumanns nefndarinnar við 2. umræðu frumvarpsins að þrátt fyrir framangreinda lækkun væri líklegt að tekjur af gjaldinu yrðu þó nokkrar og „meira að segja nokkrar umfram tilkostnað og þar með rynni meira fé til Umferðarráðs“ en hægt væri að gera ráð fyrir án tilkomu gjaldsins. (Alþt. 1995–1996, B-deild, dálkur 5358.)
Vert er að hafa í huga í þessu sambandi að Umferðarráð fór á þessum tíma ekki á neinn hátt með verkefni er tengdust skráningarmerkjum bifreiða, heldur voru þau falin Bifreiðaeftirliti ríkisins, sbr. 20. gr. reglugerðar nr. 269/1988, um skráningu ökutækja, og síðar Bifreiðaskoðun Íslands og Skráningarstofunni hf., sem stofnuð voru á grundvelli heimilda í 3. gr. laga nr. 62/1988, um breyting á umferðarlögum nr. 50/1987. Eins og fram er komið var með 10. gr. laga nr. 83/2002 sem breytti 114. gr. umferðarlaga mælt fyrir um að gjöld fyrir einkamerki skyldu renna til Umferðarstofu. Er ekki að sjá af lögum nr. 83/2002 né athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að þeim lögum að þar hafi verið uppi ráðagerð um að hverfa frá þeim sjónarmiðum sem lágu til grundvallar upphaflegri gjaldtöku fyrir einkamerki, heldur hafi þær breytingar er þar voru gerðar fyrst og fremst lotið að því að sameina starfsemi og verkefni Skráningarstofunnar hf. annars vegar og Umferðarráðs hins vegar og færa þau, auk tiltekinna verkefna dómsmálaráðuneytisins, til Umferðarstofu, sem stofnuð var með lögunum, sbr. Alþt. 2001–2002, A-deild, bls. 4518–4519.
Af framangreindum lögskýringargögnum verður ráðið að ákvörðun löggjafans um að heimila skrásetningu sérstakra einkamerkja á ökutæki og gjaldtöku fyrir þau hafi meðal annars helgast af sjónarmiðum um aukna tekjuöflun ríkissjóðs, enda er þar bersýnilega gert ráð fyrir að tekjur ríkisins af slíkum merkjum verði umfram kostnað. Í samræmi við þau markmið var farin sú leið við setningu ákvæðis 64. gr. a umferðarlaga að mæla sérstaklega fyrir um fjárhæð gjaldsins í sjálfum lagatextanum. Er sú skipan frábrugðin gjaldtökuheimild g-liðar 64. gr. umferðarlaga sem lýtur að gjaldi fyrir almenna skráningu og skráningarmerki ökutækja. Samkvæmt 3. gr. gjaldskrár Umferðarstofu nr. 681/2002, með síðari breytingum, sem sett er á grundvelli 64. og 114. gr. umferðarlaga er gjald fyrir almennt skráningarnúmer 2.600 kr. Ákvæði 64. og 114. gr. umferðarlaga fela í sér almennar heimildir til töku þjónustugjalda en af því leiðir að gjald sem er innheimt á grundvelli þeirra má ekki vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem almennt hlýst af því að veita þá þjónustu sem gjaldið kemur fyrir, sjá hér til hliðsjónar álit mitt frá 25. nóvember 2005 í máli nr. 4189/2004.
Ljóst er að löggjafinn hefur með 64. gr. a umferðarlaga tekið þá ákvörðun að gjald vegna einkamerkis samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar skuli bundið við ákveðna fasta fjárhæð, án þess að sú fjárhæð sé í efnislegum tengslum við þann kostnað sem Umferðarstofa ber vegna skráningar einkamerkja og umsýslu í því sambandi. Fjárhæð gjaldsins og lögskýringargögn bera jafnframt með sér að til gjaldtökunnar hafi verið stofnað í tekjuöflunarskyni fyrir ríkissjóð og fyrir liggur að fjárhæðin er umtalsvert hærri en fjárhæð sú sem innheimt er fyrir almenn skráningarmerki á grundvelli 64. og 114. gr. umferðarlaga. Ég vek í þessu sambandi sérstaka athygli á því að heimild 2. mgr. 64. gr. a, gerir samkvæmt orðalagi sínu ráð fyrir því að 25.000 kr. gjald fyrir einkamerki sé innheimt „auk gjalds fyrir skráningu og skráningarmerki“. Af því sem fram kemur á eyðublaði því er Umferðarstofa lætur í té vegna umsóknar um einkamerki verður jafnframt ráðið að innheimt sé sérstakt gjald fyrir framleiðslu einkamerkis, að fjárhæð 5.200 kr., með sambærilegum hætti og innheimt eru gjöld fyrir framleiðslu almenns skráningarmerkis, jafnhliða gjaldi því sem innheimt er fyrir einkamerki samkvæmt 64. gr. a. Þannig segir á eyðublaðinu undir yfirskriftinni „kostnaður“:
„Gjald fyrir réttinn til einkamerkis er kr. 25.000. Við umsókn um einkamerki skal að auki greiða gjald fyrir framleiðslu merkja kr. 5.200 (kr. 2.600 fyrir merkið) og kr. 500 fyrir skráningu einkamerkja á ökutæki. Gjald fyrir flutning einkamerkja á milli ökutækja í eigu rétthafa er kr. 2.300. Fyrir skráningu á flutningi einkamerkja á milli ökutækja skal greiða kr. 500. Þegar ökutæki er aftur skráð á almenn merki skal einnig greiða skráningargjald kr. 500.“
Með vísan til framangreinds tel ég ótvírætt að gjald fyrir einkamerki hafi fremur samstöðu með sköttum en þjónustugjöldum. Ég bendi í þessu sambandi á að af hálfu Umferðarstofu hefur jafnframt verið byggt á þeim skilningi að gjald fyrir einkamerki sé skattur, sbr. tölvubréf stofnunarinnar til B, dags. 8. nóvember 2006, þar sem segir að gjaldið „samkvæmt 64. gr. a [sé] í eðli sínu skattur, tekjur fyrir ríkissjóð en ekki tekjur samkvæmt gjaldskrá stjórnvalds til þess að mæta tilteknum afmörkuðum rekstrarkostnaði“. Verður af þeim sökum að taka afstöðu til þess að hvaða leyti innheimta gjalds fyrir einkamerki fellur undir ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33 frá 17. júní 1944 og uppfylli í því sambandi þær kröfur sem þar eru gerðar.
3.
Samkvæmt 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 má engan skatt „á leggja né breyta né af taka nema með lögum“. Þá er mælt fyrir um það í 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 15. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, að óheimilt sé að fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi því er varð að stjórnarskipunarlögum nr. 97/1995 kemur fram að með orðalagi 2. málsl. 1. mgr. 77. gr. hafi verið leitast við að taka af skarið með miklu ákveðnari hætti en gert var í 40. gr. stjórnarskrárinnar um að löggjafinn mætti ekki framselja til framkvæmdavaldsins ákvörðunarrétt um fyrrnefnd atriði. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 97/1995 segir meðal annars svo:
„Efnislega er þessi regla nokkuð skyld þeirri sem kemur fram í upphafsmálslið 40. gr. stjórnarskrárinnar þar sem er mælt fyrir um að engan skatt megi á leggja, breyta né af taka nema með lögum. Dómstólar hafa orðið að leysa úr því í allnokkrum málum, hvort eða hvernig þau fyrirmæli útiloki eða takmarki heimildir löggjafans til að framselja með lögum ákvörðunarvald um þessi atriði til stjórnvalda. Með orðalaginu í þessu ákvæði frumvarpsins er leitast við að taka af skarið með miklu ákveðnari hætti en er gert í 40. gr. stjórnarskrárinnar um að löggjafinn megi ekki framselja til framkvæmdavaldsins ákvörðunarrétt um fyrrnefnd atriði, heldur verði að taka afstöðu til þeirra í settum lögum.“ (Alþt. 1994–1995, A–deild, bls. 2110–2111.)
Í athugasemdum stjórnarskrárgjafans við ákvæði það er nú er að finna 77. gr. stjórnarskrárinnar kemur enn fremur fram að hugtakið skattur sé ekki bundið við gjöld „sem eru bókstaflega nefnd skattar í lögum eins og á t.d. við um tekjuskatt, eignarskatt og virðisaukaskatt, heldur [nái] það einnig til gjalda sem hafa sömu einkenni, svo sem útsvar, sóknargjald og tollar“. Kemur þar jafnframt fram að í þessu sambandi skuli tekið mið af viðteknum skilgreiningum á þessu hugtaki eins og það hafi verið markað með „dómsúrlausnum og í fræðikenningum“. (Alþt. 1994–1995, A-deild, bls. 2111.) Að því er lýtur að afmörkun hugtaksins „skattur“ í skilningi fyrrgreindra ákvæða stjórnarskrárinnar að þessu leyti þá hefur í dómaframkvæmd Hæstaréttar verið lagt til grundvallar að gjald teljist til skatta í skilningi 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar ef lög gera ráð fyrir að þeim sé að minnsta kosti að hluta varið til annarra verkefna en þeirra sem talist geta til þjónustu við þá sem gjaldið er lagt á. Í slíkum tilvikum verði lagaheimildir til töku gjaldsins að fullnægja kröfum 40. gr. og 77. gr. stjórnarskrárinnar um skattlagningu, sbr. dóm Hæstaréttar frá 30. nóvember 2000 í máli nr. 159/2000. Þetta á til dæmis við þegar fjárhæð gjalds er ákveðin með lögum og án tengsla við kostnað við að veita greiðanda gjaldsins umrædda þjónustu. Með vísan til þess sem rakið er í kafla IV.2 hér að framan tel ég ljóst að gjald fyrir einkamerki samkvæmt 64. gr. a umferðarlaga fellur undir ofangreind ákvæði stjórnarskrárinnar og verður innheimta þess af þeim sökum að uppfylla þær kröfur sem af þeim ákvæðum leiðir.
Að mínum dómi leiðir það af ofangreindum lagaáskilnaði 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar og þeim sjónarmiðum sem þar er byggt á að stjórnvöld geta ekki ákveðið að gjöld sem grundvallast á sjónarmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs skuli innheimt oftar en einu sinni nema löggjafinn hafi veitt heimild til þess í efnislegum fyrirmælum lagatexta og með skýrum og ótvíræðum hætti tekið afstöðu til þess þannig að uppfylltar séu þær kröfur til skattlagningarheimilda sem gerðar eru í 40. og 77. gr. stjórnarskrárinnar. Ég minni á að samkvæmt beinu orðalagi 2. mgr. 64. gr. a í umferðarlögum eru þær kr. 25.000 sem þar er kveðið á um greiðsla „[f]yrir rétt til einkamerkis...“.
Ljóst er að ákvæði c-liðar 4. mgr. 26. reglugerðar nr. 751/2003, sbr. breytingu með reglugerð nr. 691/2006, um átta ára gildistíma réttarins til að nota einkamerki þar sem endurnýjun er bundin því skilyrði að 25.000 kr. gjald vegna merkisins sé greitt aftur fela í sér fyrirmæli um gjaldskyldu sem ekki verða leidd af ákvæði 64. gr. a umferðarlaga nr. 50/1987, né öðrum ákvæðum laganna. Með tilliti til þess sem áður er rakið um eðli þeirrar gjaldtökuheimildar sem fram kemur í 2. mgr. 64. gr. a umferðarlaga og þau sjónarmið sem leidd verða af 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar tel ég að ekki sé fyrir hendi fullnægjandi lagaheimild fyrir því skilyrði c-liðar 4. mgr. 26. reglugerðar nr. 751/2003, sbr. breytingu með reglugerð nr. 691/2006, að rétthafi einkamerkis sem óskar eftir endurnýjun réttarins að liðnum átta árum skuli greiða aftur gjald það sem hann hefur áður greitt fyrir einkamerkið. Hefur að mínu áliti ekki þýðingu í þessu sambandi þótt gert hafi verið ráð fyrir því í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 37/1996 að réttur til einkamerkis væri tímabundinn enda geta slík ummæli í lögskýringargögnum engu þokað um þær kröfur sem gerðar eru til lagafyrirmæla um skattlagningu í 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Hér er hins vegar ekki tilefni til þess að ég taki afstöðu til heimilda ráðherra til að mæla fyrir í reglugerð um tilkynningar til að viðhalda réttinum til einkamerkis og hugsanlega niðurfellingu slíks réttar sé hann til dæmis ekki nýttur til skráningar bifreiðar í ákveðinn tíma.
V. Niðurstaða.
Samkvæmt framangreindu er það niðurstaða mín að gjaldtaka fyrir endurnýjun á rétti til einkamerkis samkvæmt ákvæði c-liðar 4. mgr. 26. gr. reglugerðar nr. 751/2003, sbr. breytingu með reglugerð nr. 691/2006, eigi sér ekki fullnægjandi lagastoð. Af því tilefni hef ég ákveðið, með vísan til 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að beina þeim tilmælum til samgönguráðherra að umrætt reglugerðarákvæði verði tekið til endurskoðunar og að gjaldtöku fyrir einkamerki verði þá skipað til samræmis við þau sjónarmið er rakin eru í áliti þessu.
Samkvæmt ákvæði 1. mgr. 1. gr. laga nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, skulu stjórnvöld endurgreiða það fé sem ofgreitt reynist samkvæmt lögum ásamt vöxtum, sbr. 2. gr. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. laganna að stjórnvöld skuli hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum þegar þeim verður ljóst að ofgreitt hefur verið. Að þessu virtu og í ljósi niðurstöðu minnar hér að framan beini ég jafnframt þeim tilmælum til samgönguráðherra að hann hlutist um að Umferðarstofa geri viðhlítandi ráðstafanir í tilefni af áliti þessu og þá eftir atvikum í samræmi við lög nr. 29/1995.
VI. Viðbrögð stjórnvalda.
Ég ritaði ríkisskattstjóra bréf, dags. 29. febrúar 2008, og óskaði upplýsinga um hvort af hálfu embættis hans hefði verið gripið til einhverra tiltekinna ráðstafana í tilefni af framangreindu áliti mínu og þá í hverju þær ráðstafanir felist. Í svarbréfi ríkisskattstjóra, dags. 7. apríl 2008, kemur fram að þegar álit mitt hafi borist embætti hans hafi bæði vélvinnslu álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2007 og innheimtuvinnslu á vegum Fjársýslu ríkisins verið lokið. Ekki hafi því verið unnt að grípa til aðgerða við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2007, en sjónarmið mín hafi verið kynnt á skattstjórafundi sl. haust og jafnframt verið tekið fram að ríkisskattstjóri hafi í hyggju að breyta forsendum tillagna að áætlunum við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2008 í samræmi við þau viðhorf sem komi fram í áliti mínu. Í bréfinu kemur síðan fram að ríkisskattstjóri hafi haft til skoðunar hvernig unnt sé að breyta áætlanaforsendum í samræmi við álit mitt. Er þar lýst hugmyndum ríkisskattstjóra um að áhættugreina framteljendur og flokka þá í hópa eftir mismunandi forsendum þegar skattframtal berst ekki og hlutaðeigandi framteljandi þarf að sæta áætlun. Er tekið fram að með þeim hætti er þar er lýst myndu skattyfirvöld taka fullt tillit til viðhorfs míns um niðurfellingu á almennri 20% hækkun á fyrirliggjandi forsendum.