A, B og C kvörtuðu yfir áliti félagsmálaráðuneytisins frá 30. ágúst 2005, sem látið var í té vegna fyrirspurnar eins þeirra, og úrskurði sama ráðuneytis frá 4. október sama ár, sem upp var kveðinn í kjölfar stjórnsýslukæru þeirra þriggja. A, B og C voru á þessum tíma fulltrúar A-lista í hreppsnefnd Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Meginálitaefni málsins var hvort hreppsnefndarfulltrúinn D, sem átti þar sæti sem fulltrúi L-lista, og F, fyrsti varamaður sama lista, væru hæf til að taka þátt í meðferð og afgreiðslu hreppsnefndar á tillögu sem D sjálf lagði fram um að fallið yrði frá fyrri samþykkt um að veita henni lausn frá störfum í hreppsnefndinni. D hafði skömmu áður sjálf beðist lausnar og hafði sveitarstjórn fallist á þá beiðni, sbr. heimild í 1. mgr. 34. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Umboðsmaður ákvað að afmarka umfjöllun sína við tvö meginatriði. Annars vegar fjallaði umboðsmaður um þá afstöðu félagsmálaráðuneytisins að hreppsnefndarfulltrúinn D hefði verið vanhæf við afgreiðslu á umræddri tillögu. Hins vegar beindist athugun umboðsmanns að þeirri afstöðu ráðuneytisins að óþarft hefði verið að veita þeim A, B og C færi á að koma að sjónarmiðum sínum við greinargerð sem ráðuneytinu barst frá oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps við meðferð á stjórnsýslukæru þeirra í ráðuneytinu. Benti umboðsmaður á að hann hefði í þessu sambandi litið til þess að niðurstaða um fyrrnefnda atriðið hefði náin tengsl við umfjöllun um hæfi F, fyrsta varamanns L-lista í hreppsnefndinni.
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarmanni að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann eða nána venslamenn hans svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Á þessu ákvæði byggði sú niðurstaða félagsmálaráðuneytisins í málinu að hreppsnefndarfulltrúinn D hefði verið vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu áðurnefndrar tillögu um að dregin yrði til baka fyrri samþykkt um lausn hennar frá störfum. Með vísan til ákvæðis 2. mgr. 19. gr. sveitarstjórnarlaga, þar sem fram kemur að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. greinarinnar séu sveitarstjórnarmenn ekki vanhæfir þegar verið er að velja fulltrúa til trúnaðarstarfa á vegum sveitarstjórnar eða ákveða þóknun fyrir slík störf, var niðurstaða umboðsmanns Alþingis á hinn bóginn sú að D hefði ekki verið vanhæf til að taka þátt í afgreiðslu málsins. Benti umboðsmaður í því samhengi á að tilgangur með lögfestingu þeirrar undantekningarreglu hefði meðal annars verið sá að festa í lög fyrri stjórnsýsluframkvæmd þar sem meðal annars hafði verið byggt á að sveitarstjórnarfulltrúar yrðu ekki vanhæfir til þátttöku í afgreiðslu mála sem lutu að ráðningu þeirra sjálfra í pólitísk trúnaðarstörf á vegum sveitarfélags. Væri slík skýring reglunnar jafnframt í samræmi við óskráða meginreglu íslensks stjórnsýsluréttar um að þegar stjórnsýslunefndir taka ákvarðanir um innri verkaskiptingu þá verði einstakir nefndarmenn ekki vanhæfir til þátttöku í afgreiðslu slíkra mála. Í slíkum tilvikum yrði viðkomandi fulltrúi ekki talinn hafa stöðu aðila máls eða einkaréttarlega aðilahagsmuni í hefðbundinni merkingu þeirra orða. Þvert á móti væri um að ræða ákvarðanir sem vörðuðu innri stjórnsýslu og fyrirkomulag á verkaskiptingu, en hefðu ekki bein áhrif út á við. Jafnframt tók umboðsmaður fram að við túlkun á hæfisreglum sveitarstjórnarlaga yrði, auk annarra sjónarmiða, að hafa í huga eðli sveitarstjórnarstarfsins. Ákvörðun um lausn frá setu í sveitarstjórn og ákvörðun um hvort fyrri samþykkt þar um gengi til baka lyti fyrst og fremst að skipan sveitarstjórnarinnar sjálfrar og hugsanlegum valdahlutföllum innan hennar, oft milli stjórnmálaflokka eða framboðslista.
Umboðsmaður fjallaði þessu næst um þýðingu þess að þeim A, B og C hefði ekki verið veittur kostur á að tjá sig um greinargerð sem ráðuneytinu barst frá oddvita Skeiða- og Gnúpverjahrepps við meðferð á stjórnsýslukæru þeirra. Taldi umboðsmaður að það hefði verið í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti ef þeir A, B og C hefðu verið upplýstir um að greinargerð oddvitans hefði borist ráðuneytinu og þeim eftir atvikum verið gefinn stuttur frestur til að kynna sér hana og koma að athugasemdum sínum teldu þeir ástæðu til. Að lögum yrði þó ekki séð að þeir hefðu átt beinan rétt á slíku í þessu máli.
Með vísan til framangreindra atriða, sem og með vísan til þess leiðbeiningar- og fordæmisgildis sem birtir úrskurðir félagsmálaráðuneytisins hafa við meðferð sveitarstjórnarmála beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka málið fyrir að nýju, kæmi fram ósk um það frá þeim A, B og C, og endurskoða þá fyrri afstöðu sína að teknu tilliti til þeirra sjónarmiða sem fram komu í álitinu.