A kvartaði yfir tilteknum atriðum varðandi framkvæmd Alþingiskosninga sem fram fóru 10. maí 2003. Umboðsmaður lauk málinu með bréfi til A, dags. 13. júní 2003, þar sem hann rakti ákvæði 46. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og tiltekin ákvæði laga nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis. Benti hann á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Það sé því almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þeirra málefna sem Alþingi er falið að fjalla um samkvæmt ákvæðum í stjórnarskrá eða í almennum lögum.