Skattar og gjöld. Stjórnsýslukæra. Meinbugir á lögum. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F83/2018)

Umboðsmaður Alþingis hefur lokið frumkvæðisathugun er lýtur að takmörkun 2. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt á kærurétti skattaðila vegna ákvarðana ríkisskattstjóra um að synja beiðni þeirra um breytingar á ákvörðun skattstofns eða skattálagningar. Tildrög athugunarinnar voru m.a. kvartanir sem hafa beinst að því að ekki sé hægt að kæra slíka synjun ríkisskattstjóra, þ.e. hvorki til yfirskattanefndar né ráðherra skattamála. Af þessu tilefni var ákveðið af hálfu umboðsmanns að taka til almennrar athugunar hvort ákvæðið væri haldið meinbugum að þessu leyti. Hafði umboðsmaður þar í huga að samkvæmt ákvæðinu væri eingöngu hægt að kæra breytingar ríkisskattstjóra á fyrri ákvörðun um skattstofn eða skattálagningu til yfirskattanefndar, að fenginni beiðni skattaðila þess efnis, en ekki synjun hans um slíkar breytingar.

Umboðsmaður vísaði til þess að í bæði 2. og 3. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt væri mælt fyrir um heimildir ríkisskattstjóra til breytinga á álögðum sköttum að beiðni skattaðila. Synjun ríkisskattstjóra á beiðni um breytingu væri hins vegar kæranleg ef hún væri byggð á 3. mgr. 101. gr. en ekki ef hún væri byggð á 2. mgr. hennar. Ekki yrði séð af lögskýringargögnum að sérstök rök stæðu til þess að gera þann greinarmun á réttarstöðu borgaranna en almennt mætti þó ætla að þau rök sem byggju að baki kærurétti vegna synjunar samkvæmt 3. mgr. 101. gr. ættu með sama hætti við um synjun á grundvelli 2. mgr. hennar. Þá yrði ekki litið framhjá því að það væri um margt óvanalegt að kæruréttur vegna ákvarðana stjórnvalds í máli sem hæfist að frumkvæði aðila, þ.e. beiðni um tiltekna ívilnun, væri bundinn við að fallist væri á slíka breytingu en ekki ef slíkri breytingu væri hafnað. Þau rök sem byggju að baki kærurétti til æðra stjórnvalds ættu ekki síður við, og raunar enn fremur, um þau tilvik þegar beiðni aðila væri hafnað en þegar fallist væri á hana, enda væri synjun um breytingu meira íþyngjandi ákvörðun.

Í tilefni af skýringum fjármála- og efnahagsráðuneytisins þess efnis að óeðlilegt væri að skattaðilar gætu utan allra kærufresta óskað eftir breytingu á álagningu og síðan kært þá synjun til yfirskattanefndar tók umboðsmaður fram að heimild 2. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt væri bundin tilteknum skilyrðum sem kæra til yfirskattanefndar í kjölfar skattálagningar væri ekki. Þá væri slík staða þegar til staðar í stjórnsýslumálum almennt vegna ólíkra frestsákvæða stjórnsýslulaga um endurupptökurétt annars vegar og ákvæða laganna um kærufrest hins vegar. Að endingu taldi umboðsmaður að það breytti engu þótt 2. mgr. 101. gr. fæli í sér undantekningu á því að áhrif skattframtals væru bindandi og að hana bæri að túlka þröngt. Þótt túlka bæri ákvæði þröngt væri ekki þar með sagt að ákvarðanir sem teknar væru á grundvelli slíks ákvæðis ættu ekki að vera kæranlegar. Væri sá réttur fyrir hendi að fá mál endurupptekið mæltu réttaröryggisrök með því að borgararnir gætu fengið synjun slíkrar beiðni endurskoðaða af æðra stjórnvaldi líkt og almennt ætti við um stórnvaldsákvarðanir.

Að virtum þeim sjónarmiðum sem færð voru fram í álitinu og með hliðsjón af þeim veigamiklu hagsmunum sem kynnu að vera undir í málum er vörðuðu álagningu skatta var það afstaða umboðsmanns að meinbugir væru á 2. mgr. 101. gr. laga um tekjuskatt. Taldi umboðsmaður því tilefni til þess að koma þeirri ábendingu á framfæri við Alþingi og fjármála- og efnahagsráðherra að á þeim vettvangi yrði tekin afstaða til þess hvort breyta skyldi lögum þannig að kæruréttur skattaðila yrði að þessu leyti tryggður.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 14. febrúar 2025.