Opinberir starfsmenn. Ráðningar í opinber störf. Álitsumleitan. Andmælaréttur. Rannsóknarreglan.

(Mál nr. 12436/2023)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun skólameistara framhaldsskóla um ráðningu í starf kennara við skólann. Í kvörtuninni voru einkum gerðar athugasemdir við að A hefði ekki verið veittur kostur á að tjá sig um umsagnir sem aflað hafði verið um hann í ráðningarferlinu og var athugun umboðsmanns afmörkuð við það atriði.

Ráðningarferlið fór fram með þeim hætti og skólameistari og aðstoðarskólameistari lögðu mat á umsóknir með tilliti til þess hvort umsækjendur fullnægðu kröfum til menntunar og hefðu kennsluréttindi og kennslureynslu. Að loknu því mati voru fimm umsækjendur taldir uppfylla lágmarks menntunarskilyrði og var umsagnar aflað um þá. Umsagna var aflað frá tveimur síðustu vinnustöðum A en þó ekki rætt við þá starfsmenn sem hann tilgreindi sérstaklega í umsókn sinni. Að þeim fengnum var ákveðið að bjóða A ekki starfsviðtal. Í skýringum til umboðsmanns kom fram að A hefði ekki verið boðaður í viðtal vegna þess að gert hefði verið við hann samkomulag um starfslok vegna „framgöngu hans í kennslu“. Þetta hafði komið fram í umsögn aðstoðarskólameistara framhaldsskóla sem hann hafði kennt við.

Umboðsmaður taldi ljóst að þær upplýsingar sem komu fram í umsögn um A höfðu verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að því er hann varðaði og voru metnar honum í óhag. Ekki varð séð að afstaða hans til þýðingar starfslokanna fyrir hæfni hans til að sinna starfinu og rök fyrir þeirri afstöðu hefðu legið skýrlega fyrir í gögnum málsins. Þá fékk umboðsmaður ekki séð hvernig skólameistari gat dregið efnislegar ályktanir af þessum almennu upplýsingum um hæfni A til að takast á hendur þau störf sem hann sótti um með tilliti til þeirra sjónarmiða og hæfnikrafna sem lagðar voru til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Hún taldi því að skólameistara hefði borið að kynna A að skólinn hefði undir höndum upplýsingar um að gert hefði verið við hann samkomulag um starfslok og gefa honum kost á að tjá sig um það. Það gat síðan eftir atvikum gefið honum tilefni til frekari upplýsingaöflunar. Þar sem það var ekki gert taldi umboðsmaður að málsmeðferð framhaldsskólans hefði ekki samrýmst andmælareglu 13. gr., sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að þessu leyti og mæltist til þess að framvegis yrði tekið mið af sjónarmiðum í álitinu.

 

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 19. desember 2024.