I Kvörtun og afmörkun athugunar
Hinn 31. október 2023 leitaði A til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun skólameistara X um ráðningu í starf [...] við skólann. Í kvörtuninni eru einkum gerðar athugasemdir við að honum hafi ekki verið veittur kostur á að tjá sig um umsagnir sem aflað var um hann í ráðningarferlinu. Að fengnum skýringum X hefur athugun umboðsmanns á málinu verið afmörkuð við það atriði.
II Málavextir
Starf kennara í [...] við X var auglýst laust til umsóknar á Starfatorgi [...]. Í auglýsingunni var helstu verkefnum og ábyrgð lýst með þeim hætti að leitað væri eftir kennara með sérhæfingu á viðkomandi fræðasviði. Umsækjandi þyrfti að geta kennt bæði byrjendum og lengra komnum. Kennari bæri ábyrgð á kennslu, undirbúningi og námsmati í sinni kennslugrein og tæki þátt í faglegu samstarfi raungreinakennara við skólann. Menntunar- og hæfnikröfur voru eftirfarandi:
- Umsækjandi hafi lokið að lágmarki 180 ECT einingum í [...] eða [...] og öðlast réttindi til að nota starfsheitið kennari.
- Umsækjandi búi yfir hæfni til að skapa hvetjandi námsumhverfi, hafa í störfum sínum velferð og menntun nemenda að leiðarljósi og koma fram við þá af virðingu og fagmennsku sem byggist á lýðræði og jafnrétti.
- Umsækjandi hafi góða tölvukunnáttu og þekkingu á upplýsingatækni.
- Umsækjandi búi yfir góðri samskiptafærni, þjónustulund, hæfni til að starfa með öðrum sem og vinna sjálfstætt.
- Kennslureynsla er kostur.
Tekið var fram að ákvörðun um ráðningu myndi byggjast á innsendum gögnum og viðtölum, auk þess sem óskað yrði eftir sakavottorði áður en gengið yrði frá ráðningu.
Samkvæmt gögnum málsins sóttu sjö um starfið, þar á meðal A. Í umsókn sinni tilgreindi hann fyrri vinnuveitendur sína, þar á meðal þá framhaldsskóla sem hann hafði kennt við. Hann tilgreindi einnig fimm umsagnaraðila, þar af fjóra sem samkvæmt kvörtun hans höfðu verið næstu yfirmenn hans í þeim framhaldsskólum sem gátu veitt umsögn um kennslu hans í [...]. Af gögnum málsins og skýringum X verður ráðið að ráðningarferlið hafi farið fram með þeim hætti að skólameistari og aðstoðarskólameistari hafi lagt mat á umsóknirnar með tilliti til þess hvort umsækjendur fullnægðu kröfum til menntunar og hefðu kennsluréttindi og kennslureynslu. Að loknu því mati hafi fimm umsækjendur verið taldir uppfylla lágmarks menntunarskilyrði og umsagnar verið aflað um þá.
Í yfirliti sem liggur fyrir í gögnum málsins um frummat á umsóknum um starfið kemur fram að ekki hafi náðst í þann umsagnaraðila sem A tilgreindi í Æ en rætt hafi verið við annan stjórnanda í skólanum án þess þó að hægt væri að byggja á þeirri umsögn. Þá hafi verið ákveðið að afla umsagna frá tveimur síðustu vinnustöðum hans en hann hafði tilgreint tiltekna starfsmenn þar sem umsagnaraðila. Nánar tiltekið var aflað umsagna frá Y, þar sem A hafði kennt [...], og Z, þar sem hann hafði kennt [...] og [...]. Ekki var rætt við þá starfsmenn sem A tilgreindi sérstaklega í umsókn sinni heldur við konrektor Y og skólameistara Z. Um umsögn konrektors Y segir eftirfarandi í yfirlitinu:
Sagði [A] vera „vænsta mann“. Spurði af hverju hann hætti: Kennslulega gekk þetta ekki upp. Ákvað [A] sjálfur að hætta? Það var gerður við hann starfslokasamningur. Spurt um ástæðu? Konrektor vildi ekki fara nánar út í það en sagði aftur að kennslulega hefði þetta ekki gengið upp.
Um umsögn skólameistara Z segir:
Hún sagði að hann hefði ekki hentað sem kennari í [Z]. Vildi ekki fara nánar út í það. Sagði það tengjast kennslu í [...] sem hann hefði ekki verið fær um að kenna.
Að þessu búnu var ákveðið að bjóða þremur umsækjendum í starfsviðtal en A var ekki á meðal þeirra. Hinn 15. maí 2023 var honum tilkynnt að ekki hefði reynst unnt að verða við umsókn hans og um hvern hefði verið ákveðið að ráða í starfið. Hann óskaði eftir rökstuðningi samdægurs og barst hann honum daginn eftir. Þann dag óskaði hann eftir því að fá afhent öll gögn málsins sem urðu til við umsóknarferlið um sig og umsækjandann sem hlaut starfið. Við því var ekki orðið, án þess þó að því hafi verið synjað sérstaklega, en í stað þess sendi skólameistari honum tölvupóst 24. maí 2023 með yfirliti yfir ráðningarferlið og töflu um frummat á umsóknunum þar sem meðal annars kom fram efni þeirra umsagna sem aflað var um hann. Eins og fyrr greinir leitaði A síðan með kvörtun til umboðsmanns 31. október 2023.
III Skýringar X
Gögn málsins bárust umboðsmanni frá X 21. nóvember 2023 samkvæmt beiðni þar um. Með bréfi 20. mars 2024 var þess óskað að skólinn veitti umboðsmanni nánari upplýsingar og skýringar um tiltekin atriði. Meðal annars var þess óskað að skólameistari lýsti afstöðu sinni til þess hvort umsagnir um A hefðu verið þess eðlis að borið hefði að veita honum kost á að tjá sig um þær á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Teldi skólameistari að svo hefði ekki verið var jafnframt óskað eftir upplýsingum um þau sjónarmið sem byggju að baki þeirri afstöðu. Enn fremur var óskað eftir afstöðu skólameistara til þess hvort og þá hvernig meðferð málsins hefði að þessu leyti samrýmst rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga.
Í skýringum skólameistara X 8. apríl 2024 segir meðal annars eftirfarandi:
Að mati skólans voru upplýsingarnar ekki þess eðlis að skylt hafi verið að gefa honum kost á að tjá sig um þær á grundvelli 13. gr. stjórnsýslulaga. Einungis var byggt á því að gerður hefði verið starfslokasamningur milli [A] og [Y] og að það hefði haft með framgöngu hans í kennslu að gera. Þessar upplýsingar voru fengnar frá staðgengli rektors og snérust um tilteknar staðreyndir sem ekki voru taldar þurfa frekari rannsóknar við enda er almennt litið svo á að upplýsingum sem fengnar eru frá opinberu stjórnvaldi megi treysta.
Í þessum upplýsingum var í sjálfu sér ekkert mat fólgið, heldur einungis upplýst um tilvist samnings um starfslok og hvers eðlis þær ástæður voru er lágu honum að baki, þ.e. að um væri að ræða einhver atvik sem vörðuðu störf [A] án þess að gerð hafi verið nánari grein fyrir þeim. Upplýsingarnar voru því metnar svo að hvað svo sem [A] kynni að hafa um þær að segja myndi það ekki hagga við framangreindum tveimur staðreyndum og að því leyti óþarfi að gefa honum kost á að tjá sig um þau atriði, sbr. niðurlag 13. gr. stjórnsýslulaga. Auk þess er vart hægt að líta svo á að [A] hafi verið ókunnugt um þessi tvö efnisatriði upplýsinganna sem byggt var á þegar tekin var afstaða til þess hvaða umsækjendum skyldi boðið viðtal eftir fyrsta mat.
Í framangreindu felst þá jafnframt að hugsanleg andmæli [A] hefðu fyrirsjáanlega engu bætt við rannsókn málsins eða upplýsingu þess að því er varðar tilvist starfslokasamnings og hvers eðlis tilefni hans var. Að mati skólans fór málsmeðferðin því að þessu leyti ekki í bága við 10. gr. stjórnsýslulaga.
Vegna vísunar til álita umboðsmanns um þessi efni skal tekið fram að með þeirri ákvörðun að boða [A] ekki í viðtal að svo stöddu var ekki verið að útiloka hann frá því að koma til frekara mats síðar í ráðningarferlinu. Slíkt hefði vissulega komið til álita ef niðurstaða mats á hæfni þeirra þriggja sem viðtöl voru tekin við hefði ekki leitt í ljós fullnægjandi hæfni nokkurs þeirra til að gegna starfi [...] enda voru upplýsingarnar um [A] ekki metnar sem svo að þær útilokuðu ráðningu hans sem [...] við X. Starfslokasamningur þarf út af fyrir sig ekki að hafa nokkuð með starfshæfni að gera en í tilfelli [A] var upplýst að svo hefði verið, sbr. orð konrektors Y um „að kennslulega hefði þetta ekki gengið upp“. Þrátt fyrir að ekki hafi legið fyrir vitneskja um það hvað það var sem „kennslulega“ gekk ekki upp blasir við að slíkur umsækjandi fer ekki sjálfkrafa í hóp þeirra sem við fyrsta mat eru taldi fremstir meðal jafningja, þ.e. þeirra sem uppfylla lágmarkskröfur, enda hlýtur að teljast málefnalegt að gefa starfslokum af þessu tagi á hliðstæðum vinnustað eitthvert vægi við mat á ætlaðri starfshæfni á nýjum vettvangi. Hefði framvindan orðið sú að útvíkka hóp þeirra umsækjenda sem kæmu til frekara mats og sú útvíkkun náð til [A] er ljóst að rannsakað hefði verið frekar en gert var og tekin afstaða til þess að hve miklu leyti atvik þau er voru tilefni starfslokasamnings við Y teldust spá fyrir um ætlaða frammistöðu hans sem [...] við X. Hluti þeirrar rannsóknar hefði að sjálfsögðu verið sá að gefa [A] kost á að tjá sig um atvikin.
Eftir að hafa kynnt mér álitin tvö sem tilgreind eru í bréfi umboðsmanns er undirrituðum eigi að síður ljóst að vafi kann að ríkja um hvort sú afstaða, að gefa umsækjanda ekki kost á að tjá sig um upplýsingar af því tagi sem um ræðir í þessu máli áður en ráðningarferli er fram haldið, samrýmist stjórnsýslulögum.
Lærdómurinn af þessum samskiptum við embætti umboðsmanns er því sá að framvegis verður þess gætt af hálfu X að veita umsækjanda um starf kost á að tjá sig um hvers kyns neikvæðar upplýsingar sem aflað yrði frá þriðja aðila og kunna að hafa verulega þýðingu fyrir ákvörðun um ráðningu.
Í athugasemdum [A] við þessar skýringar 26. apríl 2024 kemur meðal annars fram að hann hafi verið ráðinn til að sinna kennslu í [...] við Y vorið 2022. Honum hafi verið boðinn starfslokasamningur á fundi í ársbyrjun 2023 með vísan til einkunna nemenda hans á jólaprófum en ekki fengið formleg svör við fyrirspurnum um ástæður starfslokanna þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. Að hans mati hafi samkomulagið verið gert til að hægt væri að ráða til starfa einstakling með [...]menntun til að kenna [...]. Þá telur hann að upplýsingar sem skráðar hafi verið eftir konrektor Y í ráðningarferlinu hjá X hafi ekki verið í samræmi við það sem kom fram á fundi hans um starfslokin eða það sem komi fram í starfslokasamningi.
IV Athugun umboðsmanns
1 Nánari afmörkun
Í kvörtun A eru einkum gerðar athugasemdir við að honum hafi ekki verið veittur kostur á að tjá sig um umsagnir sem aflað var um hann í ráðningarferlinu. Jafnframt eru gerðar athugasemdir við skráningu þeirra upplýsinga sem aflað var með umsögnunum og við viðbrögð skólans við beiðni hans um aðgang að gögnum ráðningarmálsins. Í athugasemdum sem bárust meðan á meðferð málsins hjá umboðsmanni stóð er til viðbótar þessu byggt á því að efnislegt mat á því hver var talinn hæfastur til að gegna starfinu hafi verið háð annmörkum þar sem umsækjandinn sem hlaut starfið hafi ekki fengið útgefið leyfisbréf fyrr en eftir að ákvörðun um ráðninguna var tekin og þar með ekki fullnægt þeim kröfum sem gerðar voru í starfsauglýsingu.
Fyrir liggur að A var ekki á meðal þeirra umsækjenda sem var boðið í starfsviðtal en í slíkum tilvikum hafa athuganir umboðsmanns einkum beinst að því hvernig staðið var að ákvörðun um að ljúka ráðningarmáli gagnvart viðkomandi fremur en að efnislegu mati á því hver umsækjenda taldist hæfastur. Án tillits til þess tek ég fram að ég tel ekki útilokað að við tilteknar aðstæður og að öðrum skilyrðum uppfylltum geti verið heimilt að veita umsækjanda starf sem er við það að ljúka námi eða öðlast tilskilin réttindi sem gerð hafa verið að slíku skilyrði í auglýsingu um starf eða sem leiðir af lögum. Það kann t.d. að koma til greina þegar ljóst þykir að viðkomandi muni að öllum líkindum fullnægja umræddu hæfisskilyrði við upphaf starfs, sjá til hliðsjónar bréf umboðsmanns 3. mars 2023 í máli nr. 11814/2022. Að framangreindu virtu, að fengnum skýringum X og í ljósi þess að A hafa nú verið afhent umbeðin gögn beinist umfjöllun mín að því hvort brotinn hafi verið á honum andmælaréttur samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að veita honum ekki kost á að tjá sig um þær upplýsingar sem voru lagðar til grundvallar þeirri ákvörðun að hann kæmi ekki til frekara mats í ráðningarferlinu og eftir atvikum afla frekari upplýsinga til að leggja fullnægjandi grundvöll að þeirri ákvörðun, sbr. 10. gr. sömu laga.
2 Lagagrundvöllur málsins
Við ráðningar í opinber störf ber stjórnvöldum að fylgja stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og grundvallarreglum stjórnsýsluréttar um undirbúning ráðningar og mat á hæfni umsækjenda. Í íslenskum rétti hafa hins vegar ekki verið lögfestar almennar reglur um hvaða sjónarmið stjórnvöld eigi að leggja til grundvallar ákvörðun um ráðningu í opinbert starf þegar almennum hæfisskilyrðum sleppir. Að öðru leyti en leiðir sérstaklega af lögum nr. 95/2019, um menntun, hæfi og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, ákveður því skólameistari, sem fer með veitingarvaldið samkvæmt 16. gr. þeirra laga, á hvaða sjónarmiðum hann byggir ákvörðun um ráðningu í starf framhaldsskólakennara. Í samræmi við réttmætisreglu stjórnsýsluréttar verða þó sjónarmið sem byggt er á við slíka ákvörðunartöku að vera málefnaleg, svo sem um menntun, starfsreynslu, hæfni og eftir atvikum aðra persónulega eiginleika sem talin eru máli skipta um starfshæfni.
Framangreind krafa leiðir af þeirri ólögfestu meginreglu að velja beri hæfasta umsækjandann í opinbert starf eða embætti. Í ljósi þeirrar skyldu verður veitingarvaldshafi einnig að geta sýnt fram á að heildstæður samanburður hafi farið fram á væntanlegri frammistöðu umsækjenda í starfinu og þá með vísan til þeirra sjónarmiða sem lögð hafa verið til grundvallar.
Í auglýsingu um starf kennara í [...] við X var að finna lýsingu á helstu verkefnum og ábyrgð auk þess sem gerð var grein fyrir menntunar- og hæfnikröfum. Rökstuðningur fyrir ráðningu í starfið, sem A var veittur með bréfi 16. maí 2023, var takmarkaður en þó verður ekki annað séð en að ákvörðunin hafi verið byggð á sjónarmiðum sem eiga sér stoð í starfsauglýsingunni og verður að telja almennt lögmæt og málefnaleg.
3 Andmælaréttur og rannsóknarreglan
Aðili máls skal eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga. Í reglunni felst að aðili máls skal eiga þess kost að tryggja réttindi sín og hagsmuni með því að kynna sér gögn máls og málsástæður er ákvörðun mun byggjast á, leiðrétta framkomnar upplýsingar, svo sem með því að benda á misskilning eða ónákvæmni í gögnum, og koma að frekari upplýsingum um málsatvik áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Með þessu eru ekki aðeins tryggðir hagsmunir málsaðila heldur er tilgangur reglunnar einnig að stuðla að því að mál verði betur upplýst.
Það fer eftir atvikum og eðli máls hverju sinni hvort líta beri svo á að afstaða aðila og rök fyrir henni liggi nægilega fyrir eða hvort augljóslega sé óþarft að gefa honum kost á að tjá sig. Þegar aðili máls hefur sótt um opinbert starf þarf þannig almennt ekki að veita honum frekara færi á að tjá sig um það hvernig hann telur sig fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru til umsækjenda í starfsauglýsingu þótt eftir atvikum geti þurft að vekja athygli hans á því ef hann hefur ekki lagt fram upplýsingar eða gögn sem eru nauðsynleg til að upplýsa um það. Aftur á móti ber veitingarvaldshafa almennt að eigin frumkvæði og áður en ákvörðun er tekin um ráðningu í starfið að veita umsækjanda færi á því að kynna sér upplýsingar sem aflað hefur verið um viðkomandi, svo sem með því að leita eftir umsögnum fyrri eða núverandi vinnuveitenda, og honum er ekki kunnugt um enda hafi þær verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins og séu umsækjandanum í óhag. Jafnframt ber að gefa honum sanngjarnt ráðrúm til að tjá sig um þær þannig að hann hafi færi á því að koma á framfæri frekari gögnum eða gera athugasemdir við það sem hann telur rangt með farið. Ekki skiptir máli þótt aðila sé kunnugt um að upplýsingarnar séu til heldur á reglan við ef honum er ókunnugt um að umrædd gögn og upplýsingar séu komin fram í máli hans þannig að til greina komi að byggt verði á þeim í málinu, sjá til hliðsjónar álit umboðsmanns frá 17. nóvember 2008 í máli nr. 5129/2007. Þá girðir það almennt ekki fyrir að andmælaréttur verði virkur þótt umsækjandi um opinbert starf hafi sjálfur bent á tiltekna umsagnaraðila, sbr. álit umboðsmanns frá 28. september 2009 í máli nr. 5466/2008.
Auk þess að vekja traust aðila máls og almennings á málsmeðferð stjórnsýslunnar er andmælareglu stjórnsýslulaga ætlað að tryggja betur að allar þær upplýsingar og málsástæður sem máli skipta fyrir efnislega rétta úrlausn málsins liggi fyrir, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns frá 11. mars 2002 í máli nr. 3306/2001 og 28. júní 2013 í máli nr. 6649/2011. Að sama marki stefnir rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga en samkvæmt henni hvílir sú skylda á stjórnvaldi sem þarf að taka afstöðu til þess hver skuli ráðinn til að gegna opinberu starfi að sjá til þess að málsatvik séu nægilega upplýst áður en ákvörðunin er tekin. Í þessu felst meðal annars að tryggja verður að viðhlítandi upplýsingar liggi fyrir um þau atriði sem stjórnvaldið telur að eigi að hafa þýðingu við þann heildstæða samanburð sem á að fara fram milli umsækjenda í því skyni að velja þann þeirra sem telst hæfastur.
Þegar ráðið er í opinbert starf er það almennt á valdi viðkomandi stjórnvalds að ákveða með hvaða hætti það upplýsir mál. Starfsviðtal er í eðli sínu ætlað til þess að afla viðbótarupplýsinga umfram það sem kemur fram í umsókn og til þess að meta nánar atriði sem talin eru geta skipt máli við val milli þeirra sem koma best út úr frummati á umsóknum. Ekki hefur því verið talið leiða af rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins eða vönduðum stjórnsýsluháttum að stjórnvöldum sé ávallt skylt að veita hæfum umsækjendum kost á að gera nánari grein fyrir sér í starfsviðtölum, sbr. álit umboðsmanns frá 15. júlí 2005 í máli nr. 3977/2003, heldur er litið svo á að umsóknir og fylgigögn með þeim, auk annarra gagna sem aflað er af hálfu stjórnvaldsins, kunni að veita nægar upplýsingar svo unnt sé að taka ákvörðun um hvort umsækjandi komi til frekara mats út frá þeim forsendum sem byggt er á. Veitingarvaldshafi verður þó að hafa í huga að ákvörðun um að boða umsækjanda ekki í viðtal hefur í reynd í för með sér að hlutaðeigandi kemur ekki til frekara mats við ráðningu og felur þá að öllu jöfnu í sér endanlegar lyktir ráðningarmatsins fyrir þann umsækjanda. Slíkt frummat grundvallast því oftast á tiltölulega hlutlægum atriðum sem auðvelt er að staðreyna, svo sem upplýsingum um menntun og starfsreynslu í ferilskrá eða öðrum umsóknargögnum. Sé ætlunin að byggja á annars konar sjónarmiðum við val á milli umsækjenda sem boðið er í starfsviðtal kann hins vegar að vera þörf á því að afla frekari upplýsinga frá umsækjanda til þess að sú ákvörðun teljist nægjanlega upplýst.
4 Atvik málsins
Í skýringum skólameistara X 8. apríl 2024 er ekki vikið sérstaklega að umsögn skólameistara Z um A. Hins vegar kemur fram að ástæða þess að hann hafi ekki verið boðaður í starfsviðtal hafi verið að gert hafi verið við hann samkomulag um starfslok við Y vegna „framgöngu hans í kennslu“. Því er ljóst að þessar upplýsingar höfðu verulega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins að því er hann varðaði og voru metnar honum í óhag. Ekki verður séð að afstaða hans til þýðingar starfslokanna fyrir hæfni hans til að sinna starfinu sem hann sótti um og rök fyrir þeirri afstöðu hafi legið skýrlega fyrir í gögnum málsins.
Af bréfinu er jafnframt ljóst að skólameistari X hafði ekki frekari vitneskju um hvað það var við störf A sem varð til þess að stjórnendur Y töldu rétt að ljúka ráðningarsambandi sínu við hann. Í gögnum málsins kemur eingöngu fram að konrektor Y hafi ekki viljað „fara nánar út í það“ en sagt að „kennslulega hefði þetta ekki gengið upp“. Þá liggur fyrir að skólameistari taldi ekki þörf á að kanna ástæður starfslokanna frekar og óþarft að leggja sjálfstætt mat á atvik þau sem lágu þeim til grundvallar eða veita A kost á að tjá sig um þau. Ég fæ því ekki séð hvernig skólameistari X gat dregið efnislegar ályktanir af þessum almennu upplýsingum um starfslok A við annan framhaldsskóla eða hæfni hans til að takast á hendur þau störf við X sem hann sótti um með tilliti til þeirra sjónarmiða og hæfnikrafna sem lagðar voru til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið. Þær upplýsingar sem lágu fyrir gátu þannig ekki einar og sér, án skýrari og nákvæmari afmörkunar á forsendum starfsloka A við Y, verið nægur grundvöllur fyrir þeirri ákvörðun skólameistara að ljá þeim verulegt vægi við val á umsækjendum sem boðið var í starfsviðtal.
Að framangreindu virtu, og eins og atvikum og gögnum málsins er háttað, tel ég að skólameistara hafi borið að afla frekari upplýsinga um ástæður starfsloka A við Y og leggja sjálfstætt mat á hvort málefnalegt væri að líta til þeirra við mat á umsókn hans með tilliti til þeirra sjónarmiða sem ákvörðun um ráðningu í starfið byggðist á. Ég tel því að skólameistara X hafi, áður en ákvörðun var tekin um hvort A kæmi til greina í umrætt starf og veittur kostur á viðtali, borið að kynna honum að skólinn hefði undir höndum upplýsingar um að gert hefði verið við hann samkomulag um starfslok og gefa honum kost á að tjá sig um það. Það gat síðan eftir atvikum gefið skólameistara tilefni til frekari upplýsingaöflunar. Í þessu sambandi athugast að enda þótt A hafi mátt vænta þess að leitað yrði eftir umsögnum um hann hjá fyrri vinnuveitendum sem hann tilgreindi og að þar yrði rætt um ástæður starfsloka hans hjá þeim verður það ekki lagt að jöfnu við það að honum hafi verið kunnugt um efni umsagnanna og þar með haft tilefni eða forsendur til að bregðast við þeim að fyrra bragði í umsókn sinni, svo sem með skýringum eða sjónarmiðum sínum um þau atvik sem leiddu til starfslokanna. Í ljósi þeirra skyldna sem hvíldu á skólameistara X sem veitingarvaldshafa til að gera heildstæðan og málefnalegan samanburð á umsækjendum var ekki heldur hægt að ganga út frá því að sjónarmið A í þessu tilliti hefðu engu breytt og þar með augljóslega óþarft að veita honum færi á að tjá sig. Þar sem þetta var ekki gert er það niðurstaða mín að málsmeðferð X hafi ekki samrýmst 13. gr., sbr. 10. gr., stjórnsýslulaga að þessu leyti.
V Niðurstaða
Það er niðurstaða mín að málsmeðferð skólameistara X við undirbúning ákvörðunar um ráðningu [...] við skólann hafi ekki verið í samræmi við andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr.
Það verður að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif framangreindra annmarka á meðferð skólans á hagsmuni A, kjósi hann að fara þá leið. Með áliti þessu hef ég enga afstöðu tekið til þess hvort tilefni sé til að höfða mál fyrir dómstólum eða hver líkleg niðurstaða þess yrði.
Ég beini þeim tilmælum til X að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram í álitinu.
Hinn 26. september 2024 var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október þess árs. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.