Kvartað var yfir afgreiðslu Sjúkratrygginga Íslands á umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu og málsmeðferðartíma.
Umboðsmaður taldi ekki enn hafa orðið slíkan drátt á afgreiðslu málsins að ástæða væri til að aðhafast vegna þess.
Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. október 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 21. október sl. sem þér beinið að Sjúkratryggingum Íslands og lýtur að afgreiðslu stofnunarinnar á umsókn yðar um bætur úr sjúklingatryggingu. Nánar tiltekið kvartið þér yfir þeim almenna málsmeðferðartíma sem gefinn er upp af hálfu stofnunarinnar. Samkvæmt kvörtun yðar mun umsókn yðar hafa verið lögð fram 30. ágúst sl. en með bréfi Sjúkratrygginga til yðar 18. september sl. fenguð þér almennar upplýsingar um málsmeðferð hjá stofnuninni og kom þar m.a. fram að búast mætti við því að niðurstaða um bótaskyldu lægi að jafnaði fyrir innan tólf til átján mánaða frá því að gagnaöflun væri lokið. Þá mætti að jafnaði búast við að niðurstaða um ákvörðun bótafjárhæðar lægi fyrir innan sex til tólf mánaða frá því að matsferli hæfist, yrði komist að þeirri niðurstöðu að bótaskylda væri fyrir hendi.
Samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar skulu ákvarðanir teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. einnig 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þetta hefur gjarnan verið orðað svo að leysa beri úr málum borgaranna og erindum þeirra án þess að óeðlilegar eða óréttlættar tafir verði þar á. Það fer eftir umfangi viðkomandi máls og álagi í starfi stjórnvaldsins hvaða tími telst hæfilegur og eðlilegur við afgreiðslu þess. Verður því að ætla stjórnvöldum nokkuð svigrúm þegar kemur að því að meta hversu langur tími geti talist eðlilegur við afgreiðslu hvers og eins máls. Í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti og eftir atvikum þá leiðbeiningarskyldu sem hvílir á stjórnvöldum kann þeim þó að vera rétt að leiðbeina málsaðilum um almennan afgreiðslutíma þeirra mála sem um ræðir hverju sinni svo þeir hafi raunhæfar væntingar um það hvenær vænta megi niðurstöðu í málinu.
Þrátt fyrir þær upplýsingar sem Sjúkratryggingar hafa veitt yður um áætlaðan afreiðslutíma umsóknar yðar tel ég, að virtum þeim tíma sem liðið hefur frá því að hún var lögð fram, að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á afgreiðslu hennar að tilefni sé til að aðhafast sérstaklega í máli yðar að svo stöddu. Ég vek þó athygli yðar á að þér getið leitað til umboðsmanns á nýjan leik verði óhæfilegur dráttur á afgreiðslu umsóknar yðar.
Þrátt fyrir framangreint legg ég þann skilning í kvörtun yðar að í henni felist jafnframt ábending um téðan afgreiðslutíma Sjúkratrygginga sem þér teljið óviðunandi. Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis er verklagið þannig að erindi er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem þar koma fram til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildar hans, sbr. 5. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Ef af slíkri athugun verður í kjölfar ábendingar eða kvörtunar er þeim sem vekur máls á vanda almennt ekki tilkynnt um það heldur er upplýst um það á heimasíðu embættisins, www.umbodsmadur.is.
Með vísan til framangreinds lýk ég umfjöllun minni um kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Undirritaður hefur farið með mál þetta sem settur umboðsmaður Alþingis samkvæmt 3. mgr. 1. gr. fyrrgreindra laga.
Helgi Ingólfur Jónsson