Opinberir starfsmenn. Kjarasamningar.

(Mál nr. 12926/2024)

Kvartað var yfir afstöðu Landspítala til endurkomu í starf í kjölfar veikinda.  

Ágreiningurinn hverfðist um framkvæmd kjarasamningsákvæða og því eðlilegra að dómstólar leystu úr honum heldur en umboðsmaður.

   

Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. október 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 22. september sl. yfir afstöðu Landspítala til endurkomu í starf yðar hjá stofnuninni í kjölfar veikinda sem hófust í [...]. Í kvörtuninni kemur fram að starfshlutfall yðar hafi verið [...] við upphaf veikinda og að yfirmenn yðar hafi synjað yður um endurkomu í fyrra starf hjá [...] vegna þess að trúnaðarlæknir spítalans hefði metið vinnufærni yðar einungis [...]. Kvörtuninni fylgdu afrit tveggja ráðningarsamninga, sem giltu frá [...], og kvað annar á um 20% starfshlutfall yðar sem hjúkrunarfræðings og hinn 80%. Jafnframt var upplýst að síðan þá hefðu margsinnis verið gerðar breytingar á ráðningu yðar og tilfærsla hefði orðið milli starfseininga án þess að breytingarnar væru nánar tilgreindar.  

Í 12. kafla kjarasamnings fjármála- og efnahagsráðherra við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga eru ákvæði um rétt starfsmanna vegna veikinda og slysa. Þar kemur meðal annars fram, sbr. grein 12.3.1, að starfsmaður sem verið hefur óvinnufær vegna veikinda eða slysa samfellt í einn mánuð eða lengur, megi ekki hefja starf að nýju nema læknir votti að heilsa hans leyfi og að krefjast megi vottorðs trúnaðarlæknis hlutaðeigandi stofnunar.

Af gögnum um samskipti yðar við Landspítala verður ráðið að afstaða spítalans byggist á þeirri túlkun framangreinds ákvæðis að ekki liggi fyrir vottorð um hæfni yðar til sama starfshlutfalls og gilti fyrir veikindi. Þá er umboðsmanni kunnugt um að Landspítali hefur sett verklagsreglur um hlutaveikindi og á vefsvæði hans er að finna eyðublað með yfirskriftinni „Samningur um tímabundið skert vinnuframlag vegna veikinda“.

Af framangreindu verður ekki annað ráðið en að ágreiningur yðar við Landspítala hverfist um framkvæmd framangreindra kjarasamningsákvæða og hvernig þau horfa við vinnufærni yðar, þ.á m. hvort skilyrði séu uppfyllt til að þér getið snúið aftur til starfa og þá í hvaða mæli. Af því tilefni vek ég athygli yðar á því að lög nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, eru byggð á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu sé að ræða milli umboðsmanns og dómstóla og að mál geti verið þannig vaxin að heppilegra sé að leyst verði úr þeim fyrir dómstólum, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna. Þar segir að varði kvörtun réttarágreining sem á undir dómstóla og eðlilegt er að þeir leysi úr geti umboðsmaður lokið máli með ábendingu um það.

Þótt ákvæði kjarasamninga verði almennt skýrð samkvæmt orðanna hljóðan eru þau ákvæði sem hér um ræðir þess eðlis að nauðsynlegt kann að vera að líta til þess hvernig þau hafa verið framkvæmd, túlkunar eldri ákvæða um sama efni, svo og venja sem kunna að hafa myndast um efni þeirra, sbr. t.d. bréf umboðsmanns Alþingis 29. mars 1995 í máli nr. 1409/1995 og til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 16. mars 2017 í máli nr. 444/2016. Þá liggur fyrir að í málinu kann að reyna á mat á þeim læknis­fræðilegu gögnum sem fyrir liggja við úrlausn á vinnufærni yðar. Eins og málið liggur fyrir verður því að leggja til grundvallar að úrlausn þess kunni að krefjast öflunar sönnunargagna, svo sem vitna­skýrslna og/eða matsgerða, sem því næst verður að leggja mat á.

Umboðsmaður hefur talið rétt að fjalla almennt ekki um mál, eins og það sem hér um ræðir, heldur verði það að vera hlutverk dómstóla. Í samræmi við þessi sjónarmið og í ljósi þess sem fyrr segir um ágreiningsefni málsins tel ég eðlilegra að dómstólar leysi úr því, þótt einnig kunni að reyna á reglur stjórnsýsluréttar í málinu. Með þessari ábendingu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hvort ástæða sé til að bera málið undir dómstóla.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. a-lið og c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Hinn 30. september sl. var undirritaður settur umboðsmaður Alþingis frá 1. október sl. á grundvelli 3. mgr. 1. gr. laga nr. 85/1997 og hefur farið með mál þetta frá þeim tíma.

  

  

Helgi Ingólfur Jónsson