Kvartað var yfir ákvörðun matvælaráðuneytisins, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, um að óheimilt væri að para tík við aðra hunda vegna alvarlegs smitsjúkdóms sem hún væri haldin. Var byggt á sjúkdómurinn væri ekki tilkynningarskyldur, skráningarskyldur eða óþekktur.
Umboðsmaður benti á að í lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim væri ráðherra fengin heimild til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana vegna dýrasjúkdóma, m.a. þeirra sem væru óþekktir. Að teknu tilliti til þess samræmis sem er milli laga- og reglugerðarákvæða sem málið varða og þess megintilgangs laganna, að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins og hindra útbreiðslu þeirra, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá afstöðu stjórnvalda að með tilvísun til áður „óþekktra sjúkdóma“ í 8. gr. laganna sé átt við sjúkdóma sem ekki hafa komið upp hér á landi. Gildi þá einu hvort um sé að ræða sjúkdóma sem þekktir eru erlendis frá. Önnur niðurstaða væri ekki í samræmi við framangreindan tilgang laganna.
Í kvörtun voru einnig gerðar athugasemdir við að ráðuneytið hefði ekki tekið afstöðu til allra þeirra röksemda sem viðkomandi færði fram fyrir því að ákvörðunina skorti lagastoð. Þar sem ráðuneytið hafði rökstutt afstöðu sína til lagaheimildar ráðstöfunarinnar í samskiptum við lögfræðing viðkomandi var ekki ástæða til að aðhafast sérstaklega vegna þessa. Þá var ekki ástæða til að taka kvörtunina til frekari meðferðar. Í því sambandi benti umboðsmaður á að löggjafinn hefði falið ráðherra rúmar heimildir í því skyni að sporna við útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum. Yrði því að ætla hlutaðeigandi stjórnvöldum svigrúm til mats á þeim aðgerðum sem slíkar aðstæður væru taldar kalla á í einstökum tilfellum. Ekkert hefði komið fram um að mat stjórnvalda í málinu hefði byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hefðu ekki verið fyrir hendi eða ályktanir þeirra verið bersýnilega óforsvaranlegar. Að lokum var ekki ástæða til að taka til frekari athugunar athugasemdir við að Matvælastofnun væri fengin heimild til að endurmeta ákvörðunina kæmi í ljós að tíkin væri laus við sjúkdóminn enda hafði ekki komið til þess.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. september 2024.
I
Vísað er til kvörtunar yðar 15. júlí sl. sem beinist að matvælaráðuneytinu og lýtur að því að það hafi, að fengnum tillögum Matvælastofnunar, fyrirskipað að óheimilt væri að para tíkina X við aðra hunda þar sem hún væri haldin alvarlegum smitsjúkdómi. Var ákvörðunin byggð á 8. gr. laga nr. 25/1993, um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, og yður tilkynnt um hana með bréfum matvælaráðuneytisins 9. apríl og 13. maí sl.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins eru tildrög þess þau að í lok árs 2023 fluttuð þér til landsins þrjá hunda, einn rakka og tvær tíkur. Á meðan þeir voru í einangrun drapst rakkinn eftir bráð veikindi af völdum smitsjúkdómsins [...] . Voru í framhaldinu gerðar athuganir á tíkunum tveimur og bentu niðurstöður til þess að önnur þeirra væri smituð af sjúkdómnum. Eftir því sem fram kemur í tilkynningu Matvælastofnunar til ráðherra mun þetta vera í fyrsta skiptið sem sjúkdómurinn greinist hér á landi en hann sé algengur erlendis. Ekki sé skimað fyrir sjúkdómnum með reglubundnum hætti við innflutning hunda.
Samkvæmt kvörtun yðar og samskiptum við matvælaráðuneytið lúta athugasemdir yðar að meginstefnu að því að þér teljið téða fyrirskipun ráðuneytisins skorta lagastoð. Í því sambandi bendið þér á að umræddur sjúkdómur sé ekki tilgreindur í reglugerð nr. 52/2014, um tilkynningar- og skráningarskylda sjúkdóma, og því hvorki tilkynningar- né skráningarskyldur á grundvelli hennar. Þá geti ekki verið um áður óþekktan sjúkdóm að ræða í skilningi 8. gr. laga nr. 25/1993, þar sem hann þekkist erlendis. Enn fremur eru gerðar athugasemdir við að málið hafi ekki fengið efnislega meðferð af hálfu ráðuneytisins. Þannig hafi ráðuneytið enga afstöðu tekið til röksemda yðar við meðferð málsins á þá leið að aðgerðirnar hafi skort lagastoð fyrr en eftir að ákvörðun þess var birt yður. Jafnframt hafi ráðuneytið framselt Matvælastofnun vald til töku nýrrar ákvörðunar komi síðar í ljós að tíkin sé laus við smitið sem ekki verði séð að standist lög. Loks eru gerðar athugasemdir við að ráðuneytið hafi ekki brugðist við athugasemdum yðar í kjölfar ákvörðunar ráðuneytisins.
Í tilefni af kvörtuninni var matvælaráðuneytinu ritað bréf 19. júlí sl. og þess óskað að umboðsmanni yrði afhent öll gögn málsins. Bárust þau 25. þess mánaðar.
II
Tilgangur laga nr. 25/1993 er m.a. sá að stuðla að góðu heilsufari dýra í landinu og koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins og að fylgjast með og hindra útbreiðslu dýrasjúkdóma og vinna að útrýmingu þeirra, sbr. a- og b-lið 1. gr. laganna. Fer matvælaráðherra með yfirstjórn þeirra mála sem lögin taka til og skal Matvælastofnun vera ráðherra til aðstoðar og ráðuneytis um allt er lýtur að dýrasjúkdómum og framkvæmd laganna, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. þeirra.
Hverjum þeim, sem hefur ástæðu til að ætla að dýr sé haldið smitsjúkdómi sem lögin ná yfir ber án tafar að tilkynna það eins og nánar er mælt fyrir um í 1. mgr. 5. gr. þeirra, en sé um að ræða skráningarskyldan sjúkdóm skal dýralæknir hlutast um að framkvæmdar séu frekari rannsóknir og málið tilkynnt að því marki sem nauðsynlegt er, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Ráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um varúðarráðstafanir sem nauðsynlegar eru ef upp kemur grunur um smitsjúkdóma sem eru tilkynningarskyldir eða ef þeirra verður vart og nýja, „áður óþekkta sjúkdóma hér á landi“, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Ráðherra skal einnig setja reglugerð um flokkun smitsjúkdóma þar sem tilgreina skal hvaða sjúkdómar eru tilkynningarskyldir og hvaða sjúkdómar eru skráningarskyldir, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Samkvæmt þessu hefur ráðherra sett reglugerð nr. 52/2014. Þar kemur fram, í 1. málslið 1. gr., að leiði rannsókn í ljós eða dýralæknir fær grun um að um sé að ræða tlkynningarskyldan sjúkdóm eða smitsjúkdóm „áður óþekktan hér á landi“, skuli dýralæknir án tafar tilkynna það Matvælastofnun“. Fyrir liggur að sjúkdómurinn [...] er hvorki tilkynningarskyldur né skráningarskyldur samkvæmt reglugerðinni.
Í IV. kafla laga nr. 25/1993 er mælt fyrir um varnaraðgerðir. Ráðherra getur samkvæmt lögunum og að fengnum tillögum Matvælastofnunar fyrirskipað hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að útrýma eða hindra útbreiðslu tilkynningarskyldra og skráningarskyldra sjúkdóma samkvæmt framangreindri reglugerð nr. 52/2014, og til að afstýra hættu og tjóni af völdum útbreiðslu þessara sjúkdóma, sbr. 1. mgr. 8. gr. laganna. Er ráðherra jafnframt heimilt að fyrirskipa ráðstafanir vegna „annarra áður óþekktra sjúkdóma“ á grundvelli þessarar greinar eins og henni var breytt með 3. gr. laga nr. 101/2020, um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu. Af athugasemdum í greinargerð frumvarps til þeirra laga verður ráðið að þótt hafi nauðsynlegt að skýrt væri kveðið á um það í lögum að heimilt sé að grípa til aðgerða vegna annarra sjúkdóma en þeirra sem eru tilkynningar- og skráningarskyldir, þ.e. sem eru áður óþekktir eða ekki er unnt að bera kennsl á og nauðsynlegt er talið að grípa til aðgerða til að verjast (þskj. 1222 á 150. löggjafarþingi 2019-2020, bls. 11).
Að teknu tilliti til þess samræmis sem er milli framangreindra laga- og reglugerðarákvæða og þess megintilgangs laga nr. 25/1993 að koma í veg fyrir að nýir smitsjúkdómar berist til landsins og hindra útbreiðslu þeirra tel ég ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá afstöðu stjórnvalda að með tilvísun til áður „óþekktra sjúkdóma“ í 8. gr. laganna sé átt við sjúkdóma sem ekki hafa komið upp hér á landi. Gildir þá einu hvort um sé að ræða sjúkdóma sem þekktir eru erlendis frá. Önnur niðurstaða væri að mínu mati ekki í samræmi við framangreindan tilgang laganna.
Í kvörtun yðar gerið þér einnig athugasemdir við að ráðuneytið hafi ekki tekið afstöðu til allra röksemda yðar sem m.a. lutu að því að téða fyrirskipun þess skorti lagastoð. Í því sambandi tek ég fram að þótt ráðuneytið hafi ekki vikið með beinum hætti að þessu atriði í ákvörðuninni sjálfri voru bæði í umsögn Matvælastofnunar 22. apríl sl. og skýringum ráðuneytisins til lögfræðings yðar 16. maí sl. færð fram frekari rök fyrir þeirri afstöðu stjórnvalda að téð ráðstöfun styddist við fullnægjandi lagaheimild. Í ljósi þessa tel ég ekki ástæðu til að taka athugasemdir yðar að þessu leyti til nánari athugunar. Af þeim sökum tel ég ekki heldur ástæðu til aðhafast sérstaklega að því leyti sem kvörtunin lýtur að því að ráðuneytið hafi ekki brugðist við óskum yðar um skýringar á þessu atriði eftir að ákvörðun þess lá fyrir.
Að framangreindu virtu og eftir að hafa kynnt mér ákvörðun ráðuneytisins og gögn málsins að öðru leyti tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar. Í því sambandi bendi ég á að löggjafinn hefur falið ráðherra rúmar heimildir í því skyni að sporna við útbreiðslu smitsjúkdóma í dýrum. Verður því að ætla hlutaðeigandi stjórnvöldum svigrúm til mats á þeim aðgerðum sem slíkar aðstæður eru taldar kalla á í einstökum tilfellum. Að mínum dómi er jafnframt ekkert komið fram um að mat stjórnvalda í máli yðar hafi byggst á ómálefnalegum sjónarmiðum, fullnægjandi upplýsingar hafi ekki verið fyrir hendi eða ályktanir þeirra verið bersýnilega óforsvaranlegar.
Loks tel ég að svo stöddu ekki ástæðu til að taka til frekari athugunar athugasemdir yðar við það að í niðurlagi ákvörðunar ráðuneytisins sé Matvælastofnun fengin heimild til að endurmeta þær ráðstafanir sem um ræðir komi síðar í ljós að tíkin sé laus við sjúkdóminn enda er mér ekki kunnugt um að komið hafi til þess. Ef til þess kemur og þér teljið yður beittan rangsleitni með slíkri ákvörðunartöku getið þér leitað til umboðsmanns með kvörtun þar að lútandi þegar málið hefur verið til lykta leitt í stjórnsýslunni. Við slíka athugun yrði þó m.a. horft til þess almenna hlutverks sem stofnunin hefur samkvæmt lögum og þess sérstaka hlutverks sem henni er ætlað við framkvæmd laga nr. 25/1993. Jafnframt afmörkunar valdframsalsins og eðlis þeirrar ákvörðunartöku sem í því felst. Að lokum yrði eftir atvikum litið til þess hvernig ráðuneytið hagar stjórnun og eftirliti gagnvart stofnuninni en samkvæmt almennum reglum stjórnsýsluréttar er m.a. heimilt að afturkalla heimildir sem eru framseldar með lögmætum hætti.
III
Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni vegna málsins lokið.