Heilbrigðismál. Réttindi sjúklinga. Svör við erindum.

(Mál nr. 4011/2004)

A kvartaði yfir því að landlæknir hefði ekki svarað erindum hennar þar sem nefnd voru ýmis atriði sem henni fannst hafa farið úrskeiðis í samskiptum sínum við lækna á X. Í bréfi landlæknis til umboðsmanns kom fram að erindi A hefði verið vísað til sjúkrahússins á X en að A hefði ekki verið sent formlegt svar í þá veru og hefði sú ákvörðun mótast af upplýsingum um heilsufar A á þeim tíma.

Umboðsmaður rakti ákvæði 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þar sem kveðið er á um rétt sjúklings til að kvarta yfir heilbrigðisþjónustu sem honum er veitt. Benti umboðsmaður á að samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skuli sjúklingar fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum. Taldi hann að skýra bæri umrætt ákvæði í ljósi markmiðs laganna eins og það er sett fram í 1. mgr. 1. gr. þeirra. Það væri því rétt að líta á áskilnað ákvæðisins um skrifleg svör við athugasemdum og kvörtunum sjúklinga sem þátt í því að styrkja réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Benti umboðsmaður á að regla 4. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997 væri fortakslaus og að hún tryggði formlega sönnun þess að athugasemdir og kvartanir viðkomandi sjúklings hefðu verið teknar til meðferðar af hlutaðeigandi stjórnvaldi. Slík sönnun um afgreiðslu athugasemda kynni að hafa mikla þýðingu bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og fyrir aðstandendur hans. Með hliðsjón af þessu taldi umboðsmaður sig ekki geta fallist á að mat landlæknis á sjúkdómsástandi sjúklings gæti leyst hann eða stjórnendur sjúkrahúsa undan þeirri skyldu sem ákvæðið mælir fyrir um. Það var því niðurstaða hans að landlækni hefði verið skylt að tilkynna A skriflega um viðbrögð sín við erindi hennar. Þar sem afdrif máls A hjá landlæknisembættinu hefðu nú verið upplýst taldi umboðsmaður þó ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til landlæknis vegna þess. Umboðsmaður beindi hins vegar þeim tilmælum til landlæknis að hann sæi til þess að við afgreiðslu mála hjá embætti hans yrði framvegis virtur lagaáskilnaður 4. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, að sjúklingum skuli send skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum. Þá voru það tilmæli hans að landlæknir leiðbeindi stjórnendum sjúkrahúsa um rétt sjúklinga til að fá skrifleg svör í tilvikum sem þessum.

I.

Hinn 28. janúar 2004 leitaði A til mín og kvartaði meðal annars yfir því að landlæknir hefði ekki svarað erindum hennar.

Ég lauk máli þessu með áliti, dags. 27. apríl 2004.

Í tilefni kvörtunarinnar ritaði ég landlæknisembættinu bréf, dags. 11. febrúar 2004, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum, sbr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, um hvort embættið hefði haft erindi frá A til umfjöllunar og þá hvenær svars við því væri að vænta. Svarbréf landlæknis er dagsett 4. mars 2004 og kemur þar fram að A hafi sent landlæknisembættinu bréf 29. ágúst 2001, þar sem nefnd hafi verið ýmis atriði sem henni fannst hafa farið úrskeiðis í samskiptum sínum við lækna á X. Þá sagði eftirfarandi í bréfi landlæknis:

„Þó þau umkvörtunarefni verði ekki rakin hér meðal annars vegna þagnarskyldu voru þau þess eðlis að Landlæknisembættið taldi eðlilegast að vísa erindi hennar til [sjúkrahússins á X]. Hjálagt fylgir afrit af bréfi landlæknis til lækningaforstjóra [...] frá 08.10.2001. Lækningaforstjórinn svaraði þann 22.10.2001 í hjálögðu bréfi þar sem lækningaforstjórinn ákvað að hlutast til um það að [Z] settur yfirlæknir [Y]deildar [sjúkrahússins á X] ræddi við [A] um umkvörtunarmálin en hún lá á sjúkrahúsinu á þessum tíma. Landlæknisembættið taldi því ekki ástæðu til að hafast frekar að í málinu. [A] var ekki sent formlegt svar frá embættinu í þessa veru og mótaðist það af upplýsingum sem fram komu í bréfi lækningaforstjórans um heilsufar hennar þá.“

Ég ritaði landlækni á ný bréf, dags. 19. mars 2004, þar sem ég rakti m.a. ákvæði 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, sem fjallar um rétt sjúklinga til að kvarta yfir meðferð og þjónustu á heilbrigðisstofnun. Jafnframt sagði í bréfi mínu eftirfarandi:

„Ég skil bréf yðar svo að ákvörðun embættis yðar að vísa erindi [A] til [sjúkrahússins] hafi byggst á því mati að athugasemdir hennar beindust að þjónustu á sjúkrahúsinu og að um þær skyldi fara samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997. Ég tek fram að ég geri ekki athugasemdir við þetta mat embættisins. Í bréfi yðar kemur jafnframt fram að landlæknisembættið hafi ekki sent [A] formlegt svar um ákvörðun þess að framsenda erindi hennar til [sjúkrahússins] og hafi það mótast af upplýsingum sem fram komu í bréfi lækningaforstjórans um heilsufar hennar þá.

Með vísan til framangreinds óska ég eftir því, sbr. 9. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að landlæknisembættið skýri viðhorf sitt til þess hvort framkvæmd ákvæðis 4. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, þar sem áskilið er að sjúklingur skuli frá skrifleg svör við athugasemdum sínum, skuli háð mati heilbrigðisstarfsmanna á heilsufari viðkomandi sjúklings. Hef ég þá í huga það sem áður er nefnt að með ákvæðinu sé leitast við að tryggja formlega sönnun þess að athugasemdir og kvartanir sjúklings séu teknar til meðferðar af hlutaðeigandi stjórnvaldi. Jafnframt óska ég eftir að landlæknisembættið skýri viðhorf sitt til þess hvort sú ákvörðun embættisins að senda [A] ekki formlegt svar við erindi hennar hafi verið í samræmi við framangreind ákvæði laga um réttindi sjúklinga og vandaða stjórnsýsluhætti.“

Svarbréf landlæknis er dagsett 31. mars 2004 og segir þar m.a. eftirfarandi:

„Vísað er í bréf þitt frá 19.03.2004. Í því gerir þú athugasemd við þá ákvörðun að tilkynna [A] ekki formlega um þá ákvörðun að biðja lækna hennar að ræða efnisatriði kvörtunar hennar við hana. Sú athugasemd er alveg rétt og er hún meðtekin. [...] Með tilvísun til 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 12. gr. laga um réttindi sjúklinga nr. 74/1997 um þagnarskyldu er landlækni erfitt að tjá sig frekar um öll rök sem að þessu háttalagi hnigu. Í reynd verður það svo að vera og í því ljósi er að sjálfsögðu beðist velvirðingar á ofangreindri ákvörðun en hún byggðist á tilteknum forsendum. Vissulega eru þetta ekki venjubundin vinnubrögð embættisins en mál af þessu tagi geta þó komið fram aftur.“

II.

Um réttarstöðu sjúklinga gagnvart heilbrigðisstarfsmönnum er fjallað í lögum nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga. Markmið laganna eru samkvæmt 1. mgr. 1. gr. þeirra „að tryggja sjúklingum tiltekin réttindi í samræmi við almenn mannréttindi og mannhelgi og styrkja þannig réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna“. Í 28. gr. laganna er kveðið á um rétt sjúklings til að kvarta yfir heilbrigðisþjónustu sem honum er veitt en greinin er svohljóðandi:

„Athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skal beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar.

Vilji sjúklingur kvarta yfir meðferð getur hann beint kvörtun sinni til landlæknis eða nefndar um ágreiningsmál skv. 5. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu, nr. 97/1990.

Starfsmönnum heilbrigðisstofnunar er skylt að leiðbeina sjúklingi eða vandamanni sem vill koma á framfæri athugasemd eða bera fram kvörtun. Enn fremur er stjórn heilbrigðisstofnunar skylt að taka til athugunar ábendingar starfsmanna sem telja að réttur sjúklinga sé brotinn.

Sjúklingur skal fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er.“

Um skyldu landlæknis til að sinna kvörtunum eða kærum er varða samskipti almennings og heilbrigðisþjónustunnar er fjallað í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu. Jafnframt er þar kveðið á um heimild til að vísa ágreiningsmálum til sérstakrar nefndar.

Í 28. gr. laga um réttindi sjúklinga er gerður greinarmunur á athugasemdum og kvörtunum og gert ráð fyrir að athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun skuli beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar en kvörtunum vegna meðferðar skuli hins vegar beint til landlæknis eða nefndar um ágreiningsmál skv. 5. mgr. 3. gr. laga um heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt 4. mgr. 28. gr. skal sjúklingur fá skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum eins fljótt og auðið er.

Ákvæði 4. mgr. 28. gr. laga um réttindi sjúklinga ber að mínu áliti að skýra í ljósi markmiðs laganna eins og það er sett fram í 1. mgr. 1. gr. þeirra. Ég tel því rétt að líta á áskilnað þess um skrifleg svör við athugasemdum og kvörtunum sjúklinga sem þátt í því að „styrkja [...] réttarstöðu þeirra gagnvart heilbrigðisþjónustunni og styðja trúnaðarsambandið sem ríkja ber milli sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna“. Regla 4. mgr. 28. gr. er fortakslaus og tryggir hún formlega sönnun þess að athugasemdir eða kvartanir viðkomandi sjúklings hafi verið teknar til meðferðar af hlutaðeigandi stjórnvaldi. Slík sönnun um afgreiðslu athugasemda kann að hafa mikla þýðingu bæði fyrir sjúklinginn sjálfan og fyrir aðstandendur hans. Með hliðsjón af þessu get ég ekki fallist á að mat landlæknis á sjúkdómsástandi sjúklings geti leyst hann eða stjórnendur sjúkrahúsa undan þeirri skyldu sem ákvæðið mælir fyrir um. Það er því niðurstaða mín að landlækni hafi verið skylt að tilkynna A skriflega um viðbrögð sín við erindi því er hún sendi embætti hans í ágúst 2001. Þar sem afdrif máls A hjá landlæknisembættinu hafa nú verið upplýst tel ég þó ekki ástæðu til að beina sérstökum tilmælum til landlæknis vegna þess.

Í bréfi sínu til mín, dags. 31. mars 2004, lýsir landlæknir því að meðferð máls A hafi ekki verið í samræmi við venjubundin vinnubrögð embættisins en „mál af þessu tagi [geti] þó komið fram aftur“. Með hliðsjón af athugasemdum mínum hér að framan beini ég þeim tilmælum til landlæknis að hann sjái til þess að við afgreiðslu mála hjá embætti hans verði framvegis virtur lagaáskilnaður 4. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, að sjúklingum skuli send skrifleg svör við athugasemdum sínum og kvörtunum. Þá eru það tilmæli mín til landlæknis að hann leiðbeini stjórnendum sjúkrahúsa um rétt sjúklinga til að fá skrifleg svör í tilvikum sem þessum.