Fangelsismál. Vistun á öryggisdeild.

(Mál nr. F140/2023)

Óskað var eftir upplýsingum frá Fangelsinu Litla-Hrauni og Fangelsismálastofnun um langtímavistun fanga á öryggisdeild.  

Í svari stjórnvaldanna kom m.a. fram að það væri talið betra fyrir fangann að vera á öryggisdeild en almennum gangi enda liði honum betur þar en innan um aðra fanga. Ráða mátti að erfitt hefði reynst að vista viðkomandi á almennum fangelsisdeildum vegna hegðunar hans. Þá hafði hann sjálfur lýst því að hann vildi frekar vera á öryggisdeild en almennri. Því töldu fangelsisyfirvöld sér nauðugur sá kostur að vista hann þar til lengri tíma. Í ljósi þessa og annarra gagna málsins taldi umboðsmaður ekki ástæðu til frekari athugunar á málinu en áréttaði þau sjónarmið sem fram komu í áliti nr. 11373/2021.

    

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 3. apríl 2024.

  

   

I

Vísað er til fyrri bréfaskipta vegna frumkvæðisathugunar umboðsmanns á vistun A, fanga í Fangelsinu Litla-Hrauni, á öryggisdeild fangelsisins. Sem kunnugt er var tilefni athugunarinnar heimsókn umboðsmanns í Fangelsið Litla-Hrauni í nóvember 2022, svo og opinber umfjöllun um mál A og óformleg samskipti við fangelsismálayfirvöld í kjölfar þess. Í samskiptunum kom m.a. fram að A hefði dvalið langdvölum einsamall á öryggisdeildinni mánuðina á undan en að gripið hefði verið til tiltekinna ráðstafana til að draga úr mögulegum neikvæðum afleiðingum vistunarinnar.

  

II

Í tilefni af athugun umboðsmanns var fangelsinu og Fangelsismálastofnun ritað bréf 8. júní 2023. Í bréfinu var óskað eftir því að fangelsið upplýsti um hversu oft og lengi í senn A hefði dvalið á öryggisdeildinni frá upphafi núverandi afplánunar og hvers konar aðbúnað og atlæti hann hefði búið við á deildinni hverju sinni. Þá var óskað upplýsinga um hvort það væri mat Fangelsismálastofnunar að hann þarfnaðist áframhaldandi vistunar á deildinni og hvenær fyrirhugað væri að hann lyki afplánun á Litla-Hrauni. Loks var óskað eftir afstöðu Fangelsismálastofnunar til afplánunarinnar, m.a. með tilliti til þess hvort markmiðum laga um fullnustu refsinga um betrun og aðlögun dómþola að samfélaginu yrði náð í tilviki A við þær aðstæður sem hann afplánaði.

Umboðsmanni barst svarbréf fangelsisins og Fangelsismálastofnunar 27. september 2023, ásamt gögnum, þ. á m. ákvörðunum um vistanir A á öryggisdeild, atvikaskýrslum, meðferðaráætlun o.fl. Í bréfinu kom fram að A væri enn á öryggisdeildinni og hefði verið vistaður þar samfellt frá 27. október 2022, auk mánaðarvistunar frá 17. maí til 16. júní þess árs. Hann hefði lengst af dvalið einn á deildinni en í tvígang hefði verið gerð tilraun til að vista aðra fanga með honum sem hefði aðeins gengið til skamms tíma.

Í bréfinu var aðbúnaði A á deildinni nánar lýst. Hann hefði aðgang að sameign deildarinnar frá morgni til kvölds þar sem m.a. væri eldhús, setustofa, sjónvarp og sími. Símtöl væru honum að endurgjaldslausu auk þess sem hann fengi reglulega að hringja myndsímtöl. Þá fengi hann fylgdarleyfi úr fangelsinu að jafnaði einu sinni í mánuði. Hann væri í daglegum samskiptum við fangaverði og ákveðinni festu hefði verið komið á stöðu aðstoðarvarðstjóra í því húsi sem hýsti öryggisdeildina. Þá sinntu meðferðarsvið Fangelsismála-stofnunar, geðheilsuteymi fangelsanna, sjúkraþjálfari og iðjuþjálfi þjónustu við hann. Hann hefði aðgang að ýmiss konar iðju og jafnframt stæði honum til boða að nota íþróttasalinn þegar hann væri ekki í notkun. Einnig væri fyrirhugað að bjóða honum að fara í útivist með hluta af samföngum sínum.

Í bréfinu kom fram að það væri álit yfirstjórnar fangelsisins og meðferðaraðila að betra væri fyrir A að vera á öryggisdeild en á almennum gangi, enda liði honum betur þar en innan um aðra fanga. Hins vegar væri ástand hans mun betra en fyrr í afplánuninni og því hefði verið uppi hugmynd um að vista hann á lítilli fjögurra manna deild á Hólmsheiði. Honum hefði ekki litist vel á það og því hefði ekki verið tekin endanleg ákvörðun þar um. Hann myndi ljúka afplánun 10. september 2024 og yrði ekki veitt reynslulausn fyrir þann tíma nema viðhlítandi úrræði lægi fyrir. Það væri mat Fangelsismálastofnunar að A ætti heima í annars konar úrræði en fangelsi og úrbóta væri þörf í þjónustu við fanga með geðfötlun og/eða taugaþroskaraskanir sem þyrftu meiri þjónustu og utanumhald en hægt væri að útvega í fangelsi.

Hinn 19. mars sl. óskaði umboðsmaður eftir uppfærðum upplýsingum um stöðu málsins. Í svörum Fangelsisins Litla-Hrauni 19. og 21. sama mánaðar kom fram að vegna framfara A hefði hann verið færður yfir á almenna deild á Litla-Hrauni 28. september 2023. Þá hefði undirbúningur hafist að því að vista hann í opnu fangelsi um miðjan febrúar sl. og í mars hefði hann verið fluttur á Sogn.

   

III

Af ofangreindum svörum og gögnum verður ráðið að erfitt hafi reynst að vista A á almennum fangelsisdeildum vegna hegðunar hans. Þá hafi hann sjálfur lýst þeirri afstöðu að hann vildi frekar vistast á öryggisdeildinni en almennri deild. Að mati fangelsismálayfirvalda hafi þeim þannig, í ljósi aðstæðna, verið nauðugur sá kostur að vista hann á öryggisdeild Litla-Hrauns í lengri tíma. Á deildinni hafi honum staðið til boða ýmiss konar iðja og samskipti við umheiminn í gegnum símtöl, dagsleyfi og einnig heimsóknir, þótt þær hafi ekki verið nýttar að ráði. Þá hafi hann fengið reglulega þjónustu frá meðferðar- og stoðþjónustuaðilum og ákveðinni festu hafi verið komið á mönnun í þeim tilgangi að gera samskipti persónulegri og auka samfellu í þjónustu. Jafnframt hafi verið gerðar tilraunir til að greiða fyrir auknum félagslegum samskiptum. Þá hafi fangelsismálayfirvöld ítrekað verið í samskiptum við heilbrigðisyfirvöld og lögheimilissveitarfélag A vegna þjónustu við hann og mögulegra úrræða m.t.t. raskana sem hann glími við. Þegar hann hafi náð betra jafnvægi hafi hann þá verið færður á almennar deildir Litla-Hrauns og nú hafi jafnframt verið gerðar sérstakar ráðstafanir til að gera honum kleift að flytjast í opið fangelsi.

Með vísan til alls ofangreinds er ekki talin ástæða til frekari athugunar á málinu af hálfu umboðsmanns að sinni. Með tilliti til þess langa tíma sem A dvaldi einsamall á öryggisdeild Litla-Hrauns og þeirra skaðlegu áhrifa sem langvarandi félagsleg einangrun kann að valda föngum er þó ástæða til að árétta þau sjónarmið sem fram koma í áliti umboðsmanns frá 21. júní 2023, í máli nr. 11373/2021, um mikilvægi þess að viðhlítandi ráðstafanir séu gerðar til að draga úr neikvæðum áhrifum slíkrar vistunar. Má í því sambandi einkum nefna möguleika á félagslegum samskiptum, útiveru, líkamsrækt og annarri iðju. Reynir þá í vaxandi mæli á að gripið sé til slíkra ráðstafana og umfang þeirra aukið eftir því sem aðskilnaður varir lengur, sbr. f-lið gr. 53A evrópsku fangelsisreglnanna frá 11. janúar 2006 (Recommendation Rec(2006)2). Rétt er að taka fram að með þessu er því ekki slegið föstu að fangelsismálayfirvöldum hefðu verið færar frekari ráðstafanir til að draga úr neikvæðum áhrifum vistunarinnar í tilviki A en þær sem gripið var til.

Að lokum er áréttað mikilvægi þess að aðbúnaður á öryggisdeildinni sé vistlegur og til þess fallinn að endurspegla markmið laga um betrun fanga, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga (sbr. einnig skýrslur umboðsmanns Alþingis frá 3. nóvember 2021 vegna heimsóknar á öryggisdeild Fangelsisins Litla-Hrauni 28. og 29. janúar þess árs og 4. desember 2023 vegna heimsóknar í Fangelsið Litla-Hrauni 28. til 30. nóvember 2022).

Með ofangreindum ábendingum er athugun minni á málinu lokið að svo stöddu. Í ljósi þess hlutverks sem umboðsmaður gegnir við eftirlit með aðstæðum frelsissviptra, sbr. 2. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, verður þó áfram fylgst með framvindu mála er varða vistanir á öryggisdeild Litla-Hrauns, einkum m.t.t. þeirra ábendinga og tilmæla sem beint hefur verið til stjórnvalda í áðurnefndum skýrslum á grundvelli eftirlitsins.