Fullnusta refsinga. Fangelsismál. Greiðslur til fanga vegna vinnu. Skattar og gjöld. Skattskylda. Réttindi fanga tengd vinnu. Samhæfing starfa milli ráðherra. Siðareglur. Vandaðir stjórnsýsluhættir. Frumkvæðisathugun.

(Mál nr. F154/2024)

Umboðsmaður tók til athugunar þá framkvæmd yfirvalda fangelsismála að undanskilja þóknun fanga fyrir vinnu í fangelsi staðgreiðslu skatta og greiðslu annarra launatengdra gjalda sem byggjast á hinum skattskyldu greiðslum sem gjaldstofni, þ.e. tryggingagjaldi og iðgjaldi í lífeyrissjóð.

Afstaða dómsmálaráðuneytisins var að þóknun fyrir vinnu fanga í fangelsi teldist ekki til skattskyldra greiðslna. Sú afstaða byggðist á því að á milli fanga og yfirvalda fangelsismála væri ekki hefðbundið vinnuréttarsamband launþega og vinnuveitanda. Með því að nota hugtakið „þóknun“ um greiðslurnar hefði löggjafinn ákveðið að gera ekki breytingar frá þeirri framkvæmd sem hefði verið viðhöfð og að ekki yrði skýrlega ráðið af skattalögum að ætlunin hafi verið að þóknun fanga félli undir tekjuhugtak laganna.

Umboðsmaður taldi ekki unnt að gagnálykta frá ákvæðum skattalaga á þá leið að aðrar tekjur sem ekki væru beinlínis taldar upp teldust ekki til skattskyldra tekna í skilningi þeirra. Þá væri hvorki í skattalögum né lögum um fullnustu refsinga að finna ákvæði um undanþágu frá skattskyldu vegna þóknunar fyrir vinnu fanga í fangelsi eða vikið að því að hún félli utan tekjuhugtaks skattalaga. Umboðsmaður benti jafnframt á að undantekningar frá meginreglum um skattskyldu ber að jafnaði að skýra þröngt vegna sjónarmiða um jafnræði borgaranna. Með hliðsjón af þessu fékk umboðsmaður ekki séð að afstaða ráðuneytisins til skattskyldu þóknunar fyrir vinnu fanga væri í samræmi við lög um tekjuskatt. Niðurstaða hans var að líta bæri á þóknun fyrir vinnu fanga í fangelsi sem skattskyldar tekjur og haga bæri lögbundnum skilum gjalda þeirra í samræmi við það.

Umboðsmaður minnti á að Alþingi hefði í ýmsum tilvikum tryggt viðtakendum greiðslna sem féllu undir launahugtak skattalaga tiltekin félagsleg réttindi tengd því að greidd væru tiltekin gjöld eða iðgjöld sem tækju mið af greiddum launum eða öðrum þeim greiðslum sem teldust til launa í merkingu skattalaga. Einnig kynni að vera litið til þess hvort staðin hefðu verið skil á slíkum greiðslum við mat á því hvort viðkomandi teldist hafa verið launþegi eða virkur þátttakandi á vinnumarkaði og þá með tilliti til þess hvort hann teldist njóta þeirra trygginga sem um ræddi í hvert sinn. Í ljósi þess að samkvæmt skýru orðalagi laga er þóknun greidd „fyrir ástundun vinnu eða náms“  var ekki tilefni til athugasemda af hálfu umboðsmanns við þá fyrirliggjandi afstöðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins að greiðsla þóknunar til fanga fyrir vinnu í fangelsi félli undir launahugtak skattalaga og sem af bæri að greiða bæði iðgjald í lífeyrissjóð og tryggingagjald. Af því tilefni áréttaði umboðsmaður sjónarmið sem höfðu komið fram í eldra áliti umboðsmanns um þau áhrif sem núverandi framkvæmd geti haft á fanga og fjölskyldu þeirra að lokinni afplánun.

Að lokum benti umboðsmaður á nauðsyn þess að ráðuneyti hefðu viðhlítandi samráð og samvinnu sín á milli um efni sem vörðuðu málefnasvið tveggja eða fleiri. Frumkvæði að því að bregðast við og jafna hugsanlegan ágreining væri í höndum þess fagráðuneytis sem færi með framkvæmd málaflokks auk þess sem forsætisráðherra hefði samhæfingarhlutverk. Hann tók fram að hann liti svo á að afstaða dómsmálaráðuneytisins annars vegar og fjármála- og efnahagsráðuneytisins hins vegar til þess hvort greiðslur til fanga fyrir vinnu í fangelsi ættu að falla utan skattskyldra tekna og launahugtaks skattalaga væri ósamrýmanleg. Þá hefði hún verið það lengi án þess að fyrir lægi að dómsmálaráðuneytið, sem færi með málefni fanga, hefði leitað leiða til að jafna ágreininginn við fjármála- og efnahagsráðneytið, sem færi með skattamál. Yrði afstaða þeirra óbreytt að fengnu álitinu og að loknu samráði sín á milli, eftir atvikum með atbeina forsætisráðuneytisins, væru vart önnur úrræði en að semja frumvarp og bera undir Alþingi.

Umboðsmaður mæltist til þess að framkvæmd á greiðslum þóknana til fanga fyrir ástundun vinnu í fangelsi yrði færð til þess horfs að samrýmdist ákvæðum gildandi skattalaga og þá bæði um skil upplýsinga og tilheyrandi gjalda sem og um greiðslu annarra gjalda sem byggðust á hinum skattskyldu greiðslum sem gjaldstofni. Þá voru það tilmæli hans að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu, þ. á m. um samstarf ráðherra og jöfnun ágreiningsefna.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 30. september 2024.