Sjávarútvegur. Fiskeldi. Stjórnvaldsfyrirmæli.

(Mál nr. 12751/2024)

Kvartað var yfir að matvælaráðuneytið hefði ekki fallist á beiðni um að matvælaráðherra útilokaði tiltekið hafsvæði frá sjókvíaeldi um ókomna tíð. Í svari við beiðninni kom fram að á Alþingi lægi fyrir frumvarp þar sem lagt væri til að heimild ráðherra til að takmarka eða banna fiskeldi á ákveðnum svæðum yrði felld brott. Í ljósi þess hygðist ráðherra ekki beita henni.  

Umboðsmaður benti á að í lögum væri mælt fyrir um heimild ráðherra til setningar almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Erindi um tillögur að friðun gætu orðið ráðherra tilefni til að taka afstöðu til þess hvort rétt væri að beita þeirri heimild að gættum öðrum skilyrðum en ekki yrði séð að ráðherra væri skylt að verða við slíkri beiðni eða fara með hana sem sérstakt stjórnsýslumál. Ekki væri þannig gert ráð fyrir að ráðherra væri falið að taka stjórnvaldsákvörðun gagnvart þeim sem ber upp slíkt erindi en hins vegar bæri að svara því.

Ekki varð annað ráðið en að ráðuneytið hefði tekið erindið til skoðunar, lagt mat á það og gert viðkomandi grein fyrir því. Taldi umboðsmaður þar af leiðandi ekki forsendur til að gera athugasemdir við afgreiðslu ráðuneytisins á erindinu og tók fram að ganga yrði út frá að ráðherra nyti töluverðs svigrúms við mat á því hvort rétt væri að beita heimildinni að gættum öðrum skilyrðum laga.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. júní 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 8. maí sl. yfir því að matvælaráðuneytið hafi ekki fallist á beiðni yðar 10. nóvember 2023 um að matvælaráðherra útilokaði hafsvæði, sem nemur 2,5 kílómetrum út frá strandlínu Örlygshafnar við sunnanverðan Patreksfjörð frá sjókvíaeldi, um ókomna tíð, sbr. 6. gr. laga nr. 71/2008, um fiskeldi. Af erindi yðar til ráðuneytisins verður enn fremur ráðið að þér hafið átt fund með matvælaráðherra í október 2022 og starfsmanni ráðuneytisins í febrúar 2023 um úthlutun leyfa til sjókvíaeldis við Örlygshöfn.

Í svari ráðuneytisins 6. maí sl. við beiðni yðar sagði m.a: 

Eins og yður má vera kunnugt þá hefur um nokkurn tíma staðið yfir gerð stefnumótunar lagareldis og smíði frumvarps um lagareldi sem ráðherra hefur mælt fyrir og nú liggur fyrir Alþingi. Í frumvarpinu er lagt til að umrædd heimild 6. gr. [laga nr. 71/2008] verði felld brott. Í greinargerð frumvarpsins segir um þetta atriði:

„Með þessu frumvarpi er jafnframt lagt til að felld sé úr gildi heimild ráðherra til að takmarka eða banna fiskeldi á ákveðnum svæðum, sbr. 6. gr. gildandi laga um fiskeldi, nr. 71/2008. Slík ákvarðanataka yrði þess í stað í höndum löggjafarvaldsins enda um stóra og mikilvæga ákvörðun að ræða sem snertir ólíka hagsmunahópa í þjóðfélaginu.“

Að svo komnu máli hyggst ráðherra ekki beita 6. gr. núgildandi laga í ljósi þeirra breytinga sem fram koma í framlögðu frumvarpi til lagareldis.“

Um hlutverk umboðsmanns Alþingis er fjallað í lögum nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis. Í 1. mgr. 2. gr. þeirra segir að hlutverk hans sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Skal hann gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og siðareglur settar á grundvelli laga um Stjórnarráðs Íslands og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Í kvörtun yðar eru einkum gerðar athugasemdir við  að ráðuneytið hafi synjað beiðni yðar um téða friðun á þeim grundvelli að í frumvarpi, sem er enn sem komið er til meðferðar hjá Alþingi og ekki orðið að lögum, sé lagt til að afnema heimild ráðherra samkvæmt 6. gr. laga nr. 71/2008 en greinin sem ber yfirskriftina „staðbundið bann við starfsemi“ hljóðar svo:  

Ráðherra getur, að fenginni umsögn Fiskistofu, Matvælastofnunar, Hafrannsóknastofnunar og viðkomandi sveitarstjórnar, takmarkað eða bannað fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir í einstaka fjörðum, flóum eða á svæðum sem teljast sérlega viðkvæm gagnvart starfsemi þeirri sem fram fer samkvæmt lögum þessum.

Við ákvörðun ráðherra skv. 1. mgr. skal taka mið af því að markmið laga þessara er m.a. að vernda villta nytjastofna, hvort sem um er að ræða ferskvatnsfiska eða sjávarfiska, og hlífa þeim við fisksjúkdómum og öðrum neikvæðum vistfræðilegum áhrifum. Skal í því sambandi m.a. litið til staðsetningar eldisstöðva, stærðar þeirra, fjarlægðar frá veiðiám og veiðiverðmætis á viðkomandi svæði, þ.e. firði eða flóa. Jafnframt skal litið til þess hvort fiskeldissvæði séu á gönguleiðum lax og silungs og hvort straumar geti leitt sleppifisk í ár. Ráðherra skal taka tillit til sjónarmiða um aðra nýtingu hafsvæða en nýtingu vegna fiskeldis við ákvörðun sína skv. 1. mgr.

Um skaðabætur vegna tjóns, sem leiðir af banni eða takmörkun samkvæmt grein þessari, fer eftir því sem mælt er fyrir um í 18. gr.

Upphaflega var heimild ráðherra að þessu leyti færð í lög er gerðar voru breytingar á þágildandi lögum nr. 76/1970, um lax- og silungsveiði, sbr. d-lið 5. gr. laga nr. 83/2001. Í athugasemdum í greinargerð frumvarps breytingarlaganna segir m.a. að í þessu ákvæði felist heimildir fyrir ráðherra til að „setja reglugerðir og aðrar stjórnvaldsreglur sem nýttar verða til að stýra eldisstarfsemi bæði með tilliti til svæðaskiptingar og magns á hverju svæði svo og takmarkanir á fiskeldisstarfseminni á vissum viðkvæmum svæðum.“ (Þskj. 639 – 389. mál, 126. löggjafarþing 2000-2001.)

Af því sem að framan er rakið er ljóst að með 6. gr. laga nr. 71/2008 er ráðherra fengin heimild til að ákveða með almennum stjórnvaldsfyrirmælum að takmarka eða banna fiskeldi eða ákveðnar eldisaðferðir á svæðum, sem teljast viðkvæm fyrir slíkri starfsemi, að fengnum umsögnum þeirra sérhæfðu stjórnvalda sem þar er vísað til og viðkomandi sveitarstjórnar. Beini einstaklingur erindi um tillögur að friðun til ráðherra kann slíkt erindi að verða honum tilefni til að hann taki afstöðu til hvort rétt sé að beita heimildinni að gættum öðrum skilyrðum. Þar kann að skipta máli hvort fram eru komnar upplýsingar sem benda t.d. til þess að tiltekin svæði séu sérlega viðkvæm og kann það þá að verða ráðherra tilefni til að kalla eftir umsögnum umræddra stjórnvalda sem hafa yfir að ráða viðeigandi sérþekkingu. Aftur á móti verður ekki séð að ráðherra sé skylt að verða við slíkri beiðni eða fara með hana sem sérstakt stjórnsýslumál gagnvart þeim sem hana setti fram. Í því sambandi árétta ég að ekki er gert ráð fyrir því að ráðherra sé á grundvelli téðs ákvæðis falið að taka stjórnvaldsákvarðanir gagnvart slíkum aðila. Í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar ber stjórnvöldum þó að svara skriflegum erindum sem þeim berast nema ljóst sé af efni erindisins að svara sé ekki vænst.

Af því sem að framan er rakið verður ekki annað ráðið en að ráðuneytið hafi tekið erindi yðar til skoðunar og lagt á það mat. Var yður og gerð grein fyrir niðurstöðu þess. Með vísan til þess sem að framan er rakið og þess hvernig hlutverk ráðherra er að þessu leyti afmarkað í lögum tel ég ekki forsendur til að gera athugasemdir við að ráðuneytið hafi ekki fallist á beiðni yðar eða þær forsendur sem ráðuneytið færði fram í svari sínu til yðar. Í því sambandi tek ég fram að ganga verður út frá að ráðherra njóti töluverðs svigrúms við mat á því hvort rétt sé að beita fyrrgreindri heimild að gættum öðrum skilyrðum laga. Af því sem að framan er rakið um hlutverk umboðsmanns leiðir að það er ekki hans láta uppi sjálfstætt álit á því hvernig ráðherra hagar mati sínu innan þessa svigrúms.

Með vísan til framangreinds tel ég ekki tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari athugunar. Er athugun minni vegna hennar því lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.