Menntamál. Grunnskólar. Sveitarfélög.

(Mál nr. 12738/2024)

Kvartað var yfir ákvörðun Eyja- og Miklaholtshrepps um að loka skóla og leggja niður skólahald í sveitarfélaginu. Einnig var kvartað yfir aðkomu mennta- og barnamálaráðuneytisins og skóla- og fræðslunefndar Stykkishólms að ákvörðuninni.  

Fyrir lá að í nóvember 2023 beindi mennta- og barnamálaráðuneytið tilmælum til sveitarfélagsins um að taka til nýrrar meðferðar breytingar á skólahaldi í sveitarfélaginu þar sem sveitarstjórn hafði ekki aflað umsagnar fræðslu- og skólanefndar sem fór með verkefni skólaráðs. Að fenginni umsögn nefndarinnar var tekin ný ákvörðun en ekki varð ráðið að hún hefði verið borin undir ráðuneytið svo sem það hafði leiðbeint um að unnt væri að gera.

Benti umboðsmaður á að fyrsta kastið væri því rétt að freista þess að leita til mennta- og barnamálaráðuneytisins með erindið. Ef það teldi ákvörðun sveitarfélagsins og erindið þess eðlis að það veitti óbindandi álit á grundvelli yfirstjórnar sinnar með málaflokknum, fremur en að kveða upp úrskurð í kærumáli gæti ráðuneyti sveitarstjórnarmála jafn­framt borið að bregðast við að fenginni þeirri niðurstöðu og fjalla um tilvikið.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. maí 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar 30. apríl sl. sem þér komuð á framfæri f.h. A o.fl. Lýtur kvörtunin að ákvörðun sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps 12. mars sl. um að loka Laugagerðisskóla og leggja niður skólahald í sveitarfélaginu, en umbjóðendur yðar munu öll vera foreldrar barna sem þá stunduðu nám við skólann. Þá beinist kvörtunin jafnframt að aðkomu barna- og menntamálaráðuneytisins og skóla- og fræðslunefndar Stykkishólms að ákvörðuninni.

Fyrir liggur að með bréfi 7. nóvember 2023 beindi mennta- og barnamálaráðuneytið þeim tilmælum til Eyja- og Miklaholtshrepps að taka til nýrrar meðferðar breytingar á skólahaldi í sveitarfélaginu, þ.e. breytingar sem ákveðnar voru á fundi sveitarstjórnar 20. febrúar 2023 og fólu í sér niðurlagningu Laugagerðisskóla og að samið yrði við Stykkishólm um rekstur grunnskóla fyrir sveitarfélagið. Niðurstaða ráðuneytisins var reist á því að sveitarstjórn hefði ekki aflað umsagnar fræðslu- og skólanefndar sveitarfélagsins, sem mun hafa farið með verkefni skólaráðs Laugagerðisskóla, líkt og áskilið er í 1. mgr. 8. gr. laga nr. 91/2008 um grunnskóla. Í bréfi ráðuneytisins var enn fremur áréttað að um „viðbrögð við annmarka á formhlið málsins“ væri að ræða en ekki hefði verið tekin afstaða til þess hvort efni ákvörðunarinnar væri í samræmi við lög. Tildrög athugunar barna- og menntamálaráðuneytisins að þessu leyti var erindi foreldra barna í Laugagerðisskóla til þess og innviðaráðuneytisins þar sem gerðar voru margvíslegar athugasemdir við framangreinda ákvörðun sveitarfélagsins og málsmeðferð í aðdraganda hennar. Í bréfi ráðuneytisins sama dag til foreldranna var þeim tilkynnt áðurrakin niðurstaða þess en að öðru leyti taldi ráðuneytið ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna athugasemda foreldranna en þær lutu að því að fyrirætlanir Eyja- og Miklaholtshrepps í tengslum við skólahald brytu í bága við ákvæði laga nr. 91/2008. Þá var foreldrunum enn fremur leiðbeint um að væru þeir enn ósáttir þegar niðurstaða fengist í málinu gætu þeir leitað að nýju til ráðuneytisins.

Á fundi sveitarstjórnar 12. mars sl. var ákveðið að nýju að leggja niður starfsemi Laugagerðisskóla. Samkvæmt fundargerð lá til grundvallar þeirri ákvörðun umsögn skóla- og fræðslunefndar Stykkishólms en nefndin mun ekki hafa gert athugasemdir við ákvörðun sveitarstjórnar Eyja- og Miklaholtshrepps um breytingar á skólahaldi og niðurlagningu Laugagerðisskóla. Var þeirrar umsagnar leitað að fengnum leiðbeiningum mennta- og barnamálaráðuneytisins. Á meðal þeirra gagna sem fylgdu kvörtuninni er tölvubréf skrifstofustjóra/staðgengils ráðuneytisstjóra 14. febrúar sl. þar sem téðar leiðbeiningar koma fram. Þá eru í kvörtuninni rakin samskipti foreldranna við ráðuneytið eftir að ný ákvörðun sveitarstjórnar lá fyrir en þar mun hafa komið fram af hálfu ráðuneytisins að aðkomu þess að málinu hafi lokið með framangreindum bréfum þess 7. nóvember 2023. Verður ráðið að athugasemdir í kvörtuninni við aðkomu ráðuneytisins og Stykkishólms að ákvörðuninni lúti að þessum atriðum.

Í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þ.m.t. æðra stjórnvald, hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir sem hugsanlega eru rangar áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun.

Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að ekki verður ráðið að ákvörðun Eyja- og Miklaholtshrepps 12. mars sl. um lokun Laugagerðisskóla hafi verið borin að nýju undir barna- og menntamálaráðuneytið. Athugast í því tilliti að kvörtuninni fylgdu ekki gögn sem varpa nánara ljósi á samskipti foreldranna við ráðuneytið eftir að síðari ákvörðun sveitarfélagsins lá fyrir 12. mars sl. Hvað sem líður staðhæfingum ráðuneytisins um að aðkomu þess að málinu sé lokið tel ég því ljóst að lagaskilyrði brestur til að ég geti tekið kvörtunina til frekari athugunar að svo stöddu. Er þá m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum ráðuneytisins í framangreindu bréfi þess til foreldranna 7. nóvember 2023, þess efnis að unnt sé að bera nýja ákvörðun í málinu undir ráðuneytið.

Að þessu leyti vek ég jafnframt athygli á því að um stjórnsýslueftirlit með sveitarfélögum er fjallað í XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. sveitarstjórnarlaga hefur innviðaráðherra eftirlit með því að sveitar­félög gegni skyldum sínum samkvæmt sveitarstjórnarlögum og öðrum löglegum fyrirmælum. Að því leyti sem ekki er um að ræða ákvarðanir um rétt eða skyldu manna sem lúta eftirliti innviða­ráðu­neytisins samkvæmt 109. gr. ákveður ráðuneytið sjálft hvort tilefni er til að taka til formlegrar umfjöllunar stjórnsýslu sveitarfélags á grundvelli frumkvæðiseftirlits þess sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 112. gr. laganna.

Samkvæmt framangreindu bendi ég yður á að freista þess að leita fyrsta kastið til mennta- og barnamálaráðuneytisins með erindi yðar. Ef það telur ákvörðun sveitarfélagsins og erindi yðar vegna hennar þess eðlis að það veiti óbindandi álit á grundvelli yfirstjórnar sinnar með málaflokknum fremur en að kveða upp úrskurð í kærumáli getur ráðuneyti sveitarstjórnarmála jafn­framt borið að bregðast við að fenginni þeirri niðurstöðu og fjalla um tilvikið á grundvelli 112., og eftir atvikum, 116. gr. sveitastjórnar­laga.

Tekið skal fram að í þessum leiðbeiningum felst ekki afstaða mín til þess hvaða meðferð og efnislegu umfjöllun slíkt erindi ætti að hljóta hjá fyrrgreindum ráðuneytum. Ég vek einnig athygli á því að fari umbjóðendur yðar þá leið að beina erindi til mennta- og barnamálaráðuneytisins eða eftir atvikum innviðaráðuneytisins og telji þeir afgreiðslu málsins óviðunandi geta þeir leitað til mín að nýju.

Með hliðsjón af framangreindu, og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, læt ég athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið.