A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði dómsmálaráðuneytisins þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að vísa frá beiðni hans um að lögráðamaður eiginkonu hans yrði leystur frá störfum og hann sjálfur skipaður lögráðamaður. Niðurstaðan var reist á því að A ætti ekki aðild að málinu.
Sem maki fór A ekki með fyrirsvar hagsmuna eiginkonu sinnar að lögum. Að því leyti sem beiðni hans var sett fram með vísan til hagsmuna hennar komu röksemdir hans þar að lútandi ekki til athugunar umboðsmanns. Hins vegar varð ráðið að beiðnin hefði einnig byggst á því að athafnir lögráðamannsins, eftir að hann var skipaður, hefðu haft ýmis áhrif á hann persónulega, og hann hefði því sjálfstæða hagsmuni af því að ákvörðun um val á lögráðamanni yrði endurskoðuð.
Umboðsmaður tók fram að tiltekin ákvæði lögræðislaga væru reist á þeim sjónarmiðum að maður gæti átt lögvarða hagsmuni af því hvort maki hans væri sviptur lögræði og eins hvort honum væri það endurveitt að nokkru eða öllu leyti. Þá gerðu lögin sérstaklega ráð fyrir aðkomu maka að vali á lögráðamanni með því að honum skyldi veitt færi á að tjá sig um það. Að því slepptu yrði að hafa í huga að réttaráhrifa hjúskapar gætti um fjölmörg atriði sem væru til þess fallin að hafa áhrif á sameiginlega hagsmuni hjóna. Í því sambandi gerði umboðsmaður nánari grein fyrir ákvæðum hjúskaparlaga þar að lútandi og því að þrátt fyrir þá meginreglu að einstaklingar í hjúskap væru fjárhagslega sjálfstæðir væri forræði hjóna á eignum sínum ekki án takmarkana. Þegar svo háttaði til að einstaklingur í hjúskap væri sviptur fjárræði leiddi af því að lögráðamaður hans þyrfti að veita samþykki sitt fyrir tilteknum ráðstöfunum makans á eignum sínum. Þá hefði lögráðamaðurinn forræði á eignum hins svipta innan marka lögræðislaga. Vegna þessa og þess hversu samofin fjármál aðila í hjúskap væru væri ljóst að upp gætu komið aðstæður þar sem reyndi á samvinnu og samskipti maka og lögráðamanns í málum sem vörðuðu verulega fjárhagslega hagsmuni beggja aðila í hjúskapnum. Þótt fallast mætti á að fjárhagslegir hagsmunir aðila í hjúskap færu ekki alltaf saman yrði því almennt að miða við að það hjóna, sem ekki væri svipt fjárræði, hefði verulega og einstaklingsbundna hagsmuni af því að á milli þess og lögráðamanns ríkti traust og góð samvinna. Væri sú ekki raunin yrði að því að leggja til grundvallar að viðkomandi gæti haft beina, verulega og sérstaka hagsmuni af því að fá úr því leyst hvort tilefni væri til að endurskoða ákvörðun sýslumanns um val á lögráðamanni. Umboðsmaður taldi að af þessu leiddi að þótt maki þess sem hefði verið sviptur lögræði nyti ekki fullrar aðilastöðu við val á lögráðamanni gæti það ekki girt fyrir að hann gæti haft af því lögvarða hagsmuni að fá slíka ákvörðun endurskoðaða vegna atvika sem síðar kæmu til.
Eins og atvik máls horfðu við stöðu og hagsmunum A taldi umboðsmaður ekki orka tvímælis að hann hefði átt af því beina, verulega og sérstaka hagsmuni að leyst yrði úr því hvort tilefni væri til að endurskoða ákvörðun um val á þeim lögráðamanni sem þá hafði farið með fjárhagslega hagsmuni eiginkonu hans í liðlega ár. Það var því álit hans að umræddur úrskurður ráðuneytisins hefði ekki verið reistur á réttum lagagrundvelli og því ekki í samræmi við lög. Hann mæltist til þess að ráðuneytið tæki mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni frá honum þess efnis, og tæki jafnframt framvegis mið af sjónarmiðum í álitinu við úrlausn sambærilegra mála. Að lokum taldi hann rétt að vekja athygli Alþingis á mikilvægi þess að staða náinna aðstandenda, með tilliti til aðkomu þeirra að málefnum lögræðissviptra, yrði betur skýrð í lögum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 9. ágúst 2024.