A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir ákvörðun Persónuverndar um að vísa frá kvörtun sem laut að tölvupóstsamskiptum varaformanns samtakanna B og starfsmanns ráðgjafarfyrirtækisins D. Kvörtun A til Persónuverndar byggðist á því að samskiptin fælu í sér heimildarlausa miðlun persónuupplýsinga um hann. Við meðferð kvörtunarinnar veitti Persónuvernd B og D kost á að tjá sig um hana auk þess sem óskað var eftir skýringum um tiltekin atriði er varða vinnslu persónuupplýsinga samkvæmt lögum um efnið. Í kvörtun A voru m.a. gerðar athugasemdir við að honum hefði ekki verið veittur kostur á að tjá sig um svarbréf lögmanns B við fyrirspurn Persónuverndar þar sem m.a. voru færð rök fyrir því að samskiptin féllu utan gildissviðs persónuverndarlaga en málinu var síðar vísað frá á þeim grundvelli. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort meðferð málsins hefði að þessu leyti verið í samræmi við andmælareglu stjórnsýsluréttarins.
Umboðsmaður taldi ekki leika vafa á því að bréf B hefði falið í sér nýtt gagn í máli A. Við mat á því hvort honum hefði verið ókunnugt um efni þess væri ekki nægjanlegt að líta til þess hvort hann hefði vitað um tilvist bréfsins heldur einnig hvort honum hefði mátt vera kunnugt um efni þess og hvort til greina kæmi að byggja á því í málinu. Í því sambandi benti umboðsmaður á að fram að því að bréfið barst hefði meðferð Persónuverndar á málinu miðað að því að kanna hvernig tölvupóstsamskiptin samrýmdust ákvæðum persónuverndarlaga. Fyrirspurn stofnunarinnar, sem A var upplýstur um, hefði þannig lotið að þessum atriðum en ekki að álitaefnum um gildissvið laganna. Í því ljósi væri ekki unnt að líta svo á að A hefði mátt skilja tölvubréf sem honum barst frá Persónuvernd um að svör B lægju fyrir á þá leið að í þeim kæmu fram atriði sem gætu leitt til frávísunar málsins. Jafnframt varð ekki ráðið af bréfinu að stofnunin hygðist ekki eiga frumkvæði að því að gefa honum kost á að kynna sér efni svaranna eða gera grein fyrir afstöðu sinni á síðari stigum málsins ef litið yrði svo á að þau hefðu hugsanlega þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þá tók umboðsmaður fram að þar sem ákvörðun Persónuverndar um frávísun málsins hefði að mestu verið reist á sömu röksemdum og færðar voru fram í bréfinu yrði að leggja til grundvallar að það hefði verið til þess fallið að hafa þýðingu fyrir lyktir málsins. Af þessu öllu leiddi að Persónuvernd bar að veita A andmælarétt nema undantekningarreglur ættu við, þ.e. að afstaða A og rök fyrir henni lægju fyrir í gögnum málsins eða slíkt væri augljóslega óþarft.
Umboðsmaður taldi ekki efni til að fallast á það með Persónuvernd að afstaða A hefði legið nægilega fyrir í málinu. Í því sambandi benti umboðsmaður á að af hans hálfu hefði hvergi verið vikið sérstaklega að álitaefnum um gildissvið laganna og áréttað að ekki yrði séð að meðferð stofnunarinnar á málinu hefði snúist um slík atriði þar til bréf B barst stofnuninni.
Við mat á því hvort það hefði verið augljóslega óþarft að veita A kost á að tjá sig um efni bréfs B taldi umboðsmaður að horfa yrði til þess að um væri að ræða mál sem varðaði fleiri aðila með ólíka hagsmuni og vísaði í því sambandi til almennrar skyldu stjórnvalds til að gæta jafnræðis við málsmeðferð. Þá yrði ekki fallist á að andmæli hans hefðu engu getað breytt um niðurstöðu málsins enda réðst hún ekki af fortakslausum reglum eða hlutlægum sjónarmiðum heldur laut sú afmörkun á gildissviði persónuverndarlaganna, sem vísað var til í bréfi lögmanns B, að matskenndum sjónarmiðum.
Það var því niðurstaða umboðsmanns að Persónuvernd hefði borið að kynna A svarbréf B við fyrirspurn stofnunarinnar og veita honum kost á að tjá sig um efni þess áður en málinu var vísað frá. Umboðsmaður mæltist til þess að Persónuvernd tæki kvörtun A til meðferðar að nýju, bærist beiðni þess efnis frá honum, og fara þá með málið í samræmi við þau sjónarmið sem rakin voru í álitinu. Þá var því beint til stofnunarinnar að hafa sjónarmiðin framvegis í huga.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 11. apríl 2024.