Kvartað var yfir ákvörðun Fjarðabyggðar um að leggja niður safnastofnun sveitarfélagsins.
Þar sem hvorki lá fyrir afstaða sveitarfélagsins né eftir atvikum afstaða menningar- og viðskiptaráðherra eða innviðaráðherra til málsins voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2024.
Vísað er til kvörtunar yðar 21. febrúar sl. f.h. A og B. Lýtur kvörtunin að ákvörðun Fjarðabyggðar um að leggja niður safnastofnun sveitafélagsins. Í kvörtuninni kemur fram að söfn í sveitarfélaginu, önnur en bókasöfn, muni færast undir stjórn menningarstofu sveitarfélagsins. Munu bókasöfnin færast undir stjórn skólastjórnenda en þau munu nú þegar vera rekin sem svokölluð samsteypusöfn, þ.e. þar sem almenningsbókasöfn og skólasöfn grunnskóla eru rekin saman, sbr. 10. gr. bókasafnslaga nr. 150/2012. Að yðar mati muni söfnin ekki eiga faglegt bakland í hinni nýju stofnun auk þess sem breytingunum sé ætlaður naumur tími.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila, sem fellur undir ákvæði 1. eða 2. mgr. 3. gr. laganna, kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið. Þá er samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Umboðsmaður Alþingis fjallar því að jafnaði ekki um mál liggi ekki fyrir afstaða stjórnvalda til þess.
Ástæða þess að þetta er rakið er að kvörtun yðar fylgdi afrit erindis yðar, f.h. A, til bæjarstjórnar sveitarfélagsins 21. desember 2023. Þá fylgdi kvörtuninni jafnframt afrit ódagsetts erindis B til bæjarstjórnarinnar og bréf [...] í Fjarðabyggð til bæjarstjóra 1. desember 2023. Loks fylgdi kvörtuninni afrit af tilkynningu um breytta starfslýsingu tilgreinds starfsmanns sveitarfélagsins vegna þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru á rekstri bókasafna innan þess en ekki verður ráðið af kvörtuninni að sá starfsmaður hafi veitt yður eða A og B sem standa að henni umboð til þess að fara með málið og þar með leggja fram kvörtun fyrir hönd viðkomandi til umboðsmanns. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að afstaða sveitarfélagsins, og eftir atvikum afstaða menningar- og viðskiptaráðherra og innviðaráðherra, til athugasemda yðar liggi fyrir áður en umboðsmaður fjallar um málið. Horfi ég þá til þess að samkvæmt safnalögum, nr. 141/2011, fer fyrrnefndi ráðherrann með yfirstjórn þeirra mála sem lögin ná til en sá síðarnefndi fer með málefni sveitarfélaga og hefur hann eftirlit með því þau gegni skyldum sínum samkvæmt lögum og öðrum löglegum fyrirmælum, sbr. einkum XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þér teljið yður enn rangsleitni beitta að fengnum viðbrögðum stjórnvalda við erindum yðar er yður fært að leita til mín á nýjan leik.