Sveitarfélög. Þjónusta. Svör við erindum.

(Mál nr. 12619/2024)

Kvartað var yfir viðbrögðum Hafnarfjarðarbæjar við erindi vegna snjómoksturs og söltunar á tilteknum stað.  

Þar sem afstaða sveitarfélagsins til erindisins lá ekki fyrir voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður fjallaði um það.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. febrúar 2024.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar 14. febrúar sl. sem beinist að Hafnarfjarðarbæ og lýtur að viðbrögðum við erindi sem þér senduð sveitarfélaginu 12. þessa mánaðar í gegnum ábendingargátt á vefsíðu þess vegna snjómoksturs og söltunar á [...], sem og framkvæmd þeirrar þjónustu sem ábendingin laut að.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Þá segir í 3. mgr. 6. gr. laganna að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrir en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir.

Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Samkvæmt því sem kemur fram í kvörtun yðar gerðuð þér m.a. í erindi yðar athugasemdir við forgangsröðun við snjómokstur og því að söltun á götu sem hús yðar stendur við valdi skemmdum á því. Yður mun hins vegar einungis hafa borist svarið „Takk fyrir ábendinguna“ skömmu eftir að þér senduð hana. Afstaða sveitarfélagsins til athugasemda yðar liggur þannig ekki fyrir og er það meðal þess sem kvörtun yðar lýtur að.

Í stjórnsýslurétti gildir sú óskráða meginregla sem nefnd hefur verið „svarreglan“, en í henni felst að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema erindið beri með sér að ekki sé vænst svara. Í því felst nánar tiltekið að stjórnvaldinu er skylt að bregðast við erindinu þannig að borgarinn búi ekki við óvissu um hvort það hafi verið móttekið, sé til meðferðar eða að niðurstaða hafi fengist í það. Af kvörtun yðar verður ekki annað ráðið en að skýrlega hafi mátt ráða af erindi yðar að þér óskuðuð eftir efnislegum svörum við því. Hins vegar athugast að erindið var sent í gegnum almenna ábendingargátt sveitarfélagsins og að kvörtun yðar barst mér strax tveimur dögum síðar. Ég tel þess vegna ekki nægilegt tilefni til að taka kvörtun yðar til frekari meðferðar að svo stöddu. Ég bendi yðar aftur á móti á að þér getið freistað að senda sveitarfélaginu erindi á póstfang eða almennt netfang þess þar sem þér áréttið ósk yðar um viðbrögð við athugasemdunum. Ef þér teljið óréttlættar tafir verða á svörum við slíku erindi getið þér, að undangenginni ítrekun af yðar hálfu, leitað til mín með kvörtun þar að lútandi.

Með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég athugun minni á máli yðar lokið.