Áfengismál. Gistihús- veiting- og tækifærisleyfi.

(Mál nr. 12540/2023)

Kvartað var yfir sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjarðarbæ og lögreglu einkum vegna tækifærisleyfis sem gefið hafði verið út til kynningar á áfengi í glerhúsi í jólaþorpinu í Hafnarfirði. Brotið hefði verið gegn banni við áfengisauglýsingum.  

Tækifærisleyfi vegna skemmtanahalds eru veitt á grundvelli laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og hægt að skjóta stjórnsýsluákvörðunum leyfisveitanda til menningar- og viðskiptaráðuneytisins. Þótt ekki yrði ráðið af kvörtuninni eða gögnum málsins hvaða hagsmuni viðkomandi ætti umfram aðra, af útgáfu leyfisins, var bent á að freista mætti þess að bera athugasemdirnar undir ráðuneytið. Að svo stöddu væru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til frekari athugunar. Hvað athugasemdir um að bann við áfengisauglýsingum hefði verið brotið var viðkomandi bent á að leita til Fjölmiðlanefndar vegna þess.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 9. febrúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 2. janúar sl. sem beinist að sýslumanninum á Höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjarðarbæ og lögreglu. Samkvæmt því sem fram kemur í kvörtuninni eruð þér einkum ósáttar við að sýslumaður hafi gefið út tækifærisleyfi til kynningar á áfengi í glerhúsi sem staðsett var í jólaþorpinu í Hafnarfirði svo og að sveitarfélagið hafi veitt jákvæða umsögn vegna umsóknar um téð leyfi. Teljið þér að með umræddri kynningu hafi verið brotið gegn banni við áfengisauglýsingum, sbr. 20. gr. áfengislaga nr. 75/1998 og 4. mgr. 37. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla.

Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af stjórnvöldum, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna. Í þessu ákvæði felst að til þess að kvörtun verði borin fram við umboðsmann Alþingis þarf að liggja fyrir ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi stjórnvalds sem beinist sérstaklega að þeim sem leggur fram kvörtun eða varðar beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Það er hins vegar ekki hlutverk umboðsmanns að láta fólki í té almennar lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum varðandi tiltekin málefni eða réttarsvið.

Í 6. gr. laganna er mælt fyrir um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns. Þar segir m.a. í 3. mgr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra. Af framangreindum ákvæðum leiðir m.a. að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka af­stöðu til þeirra. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður einnig almennt talið rétt að það æðra stjórnvald, sem fer með yfirstjórnar- og eftirlitsheimildir á viðkomandi sviði, hafi fengið tækifæri til að fjalla um málið og þar með taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum áður en hann tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar og þá einnig í þeim tilvikum þar sem afstaða æðra stjórnvaldsins til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Ástæða þess að þetta er rakið er sú að tækifærisleyfi vegna skemmtanahalds eru veitt á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Samkvæmt 26. gr. þeirra er unnt að skjóta stjórnsýsluákvörðunum leyfisveitanda, svo sem um synjun á útgáfu leyfa og ákvörðun um sviptingu leyfa, til menningar- og viðskiptaráðuneytisins en samkvæmt e-lið 6. töluliðar 9. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 6/2022,  fer ráðuneytið með mál er varða veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þar sem ekki verður séð af gögnum málsins að þér hafið borið athugasemdir yðar undir ráðuneytið tel ég, með vísan til ofangreindra sjónarmiða um hlutverk umboðsmanns, ekki rétt að taka kvörtun yðar til frekari athugunar að svo stöddu. Þótt ekki verði ráðið af kvörtun yðar og gögnum málsins hvaða hagsmuni þér eigið af útgáfu téðs tækifærisleyfis umfram aðra getið þér freistað þess að bera athugasemdir yðar um útgáfu tækifærisleyfa við menningar- og viðskiptaráðuneytið ef þér teljið tilefni til þess. 

Hvað varðar athugasemdir yðar um að með útgáfu téðs leyfis hafi m.a. verið brotið gegn lögum um fjölmiðla, nr. 38/2011, er rétt að benda á að samkvæmt III. kafla laganna er hægt að senda kvörtun eða ábendingu til Fjölmiðlanefndar vegna meintra brota á lögunum en ekki er sérstakt skilyrði að þeir aðilar sem leita til nefndarinnar eigi sjálfir hagsmuna að gæta, sbr. 11. gr. laganna. Í ljósi þess að þér hafið ekki leitað með athugasemdir yðar til Fjölmiðlanefndar tel ég ekki rétt að taka til skoðunar athugasemdir yðar um hvort téður viðburður hafi falið í sér brot gegn fjölmiðlalögum. Þér getið freistað þess að bera athugasemdir yðar hvað það varðar undir Fjölmiðlanefnd. Loks verður ekki ráðið að hvaða leyti umkvörtunarefnið snýr að lögreglu.

Ég tek fram að með þessum ábendingum hefur engin afstaða verið tekin til þess hvaða meðferð og afgreiðslu erindi yðar ætti að hljóta hjá framangreindum stjórnvöldum. Ég bendi aftur á móti á að fari svo að þér leitið til téðra stjórnvalda með athugasemdir yðar getið þér freistað þess að leita til mín á ný að fenginni niðurstöðu þeirra og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málefnið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.

Með hliðsjón af framangreindu og með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 lýk ég hér með umfjöllun minni um mál yðar.