Eftir heimsókn á réttargeðdeild og öryggisgeðdeild Klepps í síðustu viku áréttar umboðsmaður ábendingar úr fyrri skýrslu sinni um starfsemina.
Heimsóknin kom bæði til af umfjöllun í fjölmiðlum upp á síðkastið um starfsemi deildanna og til að fylgja eftir ábendingum úr skýrslu umboðsmanns í kjölfar OPCAT-eftirlitsheimsóknar árið 2018.
Umboðsmaður og starfsfólk hans varð þess áskynja að ákveðinn samskiptavandi hefur verið á deildunum tveimur um nokkurn tíma sem virðist hafa haft áhrif á starfsfólk. Eftirlit umboðsmanns á grundvelli OPCAT-eftirlitsins beinist almennt ekki að slíkum atriðum nema þau geti haft áhrif á meðferð þeirra sem vistast á staðnum. Ljóst er að stjórnendur spítalans hafa gripið til ákveðinna ráðstafana til að bregðast við og umboðsmaður verið upplýstur um hvaða vinna standi yfir. Umboðsmaður telur því ekki tilefni til frekari skoðunar á þessum atriðum, a.m.k. ekki að svo stöddu, en fylgist áfram með gangi mála. Þar hefur jafnframt þýðingu að af samtölum við sjúklinga og starfsmenn á deildunum varð ekki annað ráðið að en meðferð þeirra sé almennt í samræmi við mannúð og mannvirðingu sem endurspeglar þá mynd sem birtist í fyrri heimsókn umboðsmanns.
Hvað snertir eldri ábendingar og tilmæli vegna heimsóknar umboðsmanns á Klepp 2018, þykir ástæða til að árétta atriði sem ekki hafa enn komið til framkvæmda. Þar má nefna ábendingar sem varða aðbúnað á öryggisgeðdeild og upplýsingagjöf til sjúklinga, og eftir atvikum aðstandenda, um kvörtunar- og kæruleiðir. Í ljósi mikilvægis þess að meðferð og endurhæfing sjúklinga feli í sér fjölbreytta möguleika á virkni voru tilmæli þess efnis jafnframt áréttuð.
Þá óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum og gögnum um vistanir sjúklinga á öryggisgangi réttargeðdeildarinnar á tilteknu tímabili.
Bréf umboðsmanns til forstöðumanns geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss
Skýrsla umboðsmanns um OPCAT-eftirlit á geðdeildum Landspítala á Kleppi 2018