A, B og C, sem starfa allir sem sjómenn, leituðu til umboðsmanns Alþingis og kvörtuðu yfir úrskurðum úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Með úrskurðunum staðfesti nefndin ákvarðanir Fæðingarorlofssjóðs um að þeim bæri að endurgreiða hluta greiðslna sem þeir höfðu fengið úr sjóðnum þar sem þeir hefðu fengið greidd of há laun frá vinnuveitendum sínum á þeim tíma sem þeir þáðu greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.
Athugun setts umboðsmanns laut að því hvort sú aðferð sem Fæðingarorlofssjóður beitti í málunum til að reikna út frádráttinn, og úrskurðarnefndin staðfesti, væri í samræmi við ákvæði 2. málsl. 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, þar sem mælt er fyrir um að tilteknar greiðslur frá vinnuveitanda skuli koma til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði. Settur umboðsmaður taldi að aðferðin væri ekki í samræmi við lög og að nota ætti þá aðferð við útreikning sem leiddi beint af orðalagi ákvæðisins, þ.e. að einungis greiðslur vinnuveitanda til foreldis sem væru hærri en mismunur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði og meðaltals heildarlauna foreldris kæmu til frádráttar greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.
Settur umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að hún tæki mál A, B og C til endurskoðunar kæmi fram beiðni þess efnis frá þeim og tæki þá mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu.