03. desember 2025

Ábendingar um úrbætur í fangageymslum á Vesturlandi

Í nýrri skýrslu umboðsmanns vegna OPCAT-eftirlits í fangageymslum lögreglunnar á Vesturlandi er bent á ýmislegt sem færa þurfi til betri vegar. Þetta var fimmta heimsókn umboðsmanns í fangageymslur lögreglu og eru ábendingar og tilmæli til stjórnvalda um margt áþekk því sem komið hefur fram í fyrri skýrslum umboðsmanns vegna heimsókna í fangageymslur.

Fangaklefar á lögreglustöðinni í Borgarnesi henta eingöngu fyrir stuttar vistanir. Fólk sem er handtekið á Vesturlandi er því að jafnaði vistað á lögreglustöðinni á Akranesi. Á eins árs tímabili fyrir heimsókn umboðsmanns voru 43 vistanir skráðar í fangageymslunum tveimur.

Bent er á sitt hvað sem betur má fara í aðbúnaði, svo sem möguleika vistaðra til að fylgjast með hvað tímanum líður, ljósastýringu, skort á dagsbirtu í klefum, staðsetningu bjallna og að gera þurfi úrbætur á hreinlætisaðstöðu með tilliti til öryggis.

Í skýrslunni er einnig bent á að þær aðstæður geti komið upp að ekki sé lögreglumaður af sama kyni og hinn vistaði til að gera öryggisleit á viðkomandi. Úr því þurfi að bæta. Lögreglustjóra er einnig bent á að leitast við að tryggja að starfsfólk sem sinni eftirliti með vistuðum sé ekki einsamalt á lögreglustöðinni en það sé bæði mikilvægt með tilliti til öryggis vistaðra og starfsfólks.

Þá er bent á að stöðug myndvöktun sem sé viðhöfð í öllum fangaklefum geti verið málefnaleg en feli jafnframt í sér takmörkun á friðhelgi einkalífs. Meta þurfi þörfina á myndvöktun hverju sinni og áréttað að reglubundið rauneftirlit sé nauðsynlegt. Í þessu sambandi hefur umboðsmaður komið ábendingu á framfæri við ríkislögreglustjóra um að ástæða kunni að vera til að skoða hvort tilefni sé til að gera tillögur að almennu verklagi við myndvöktun í fangaklefum.

Loks er bent á að tryggja þurfi að fólk sem vistað er í fangageymslum lögreglunnar sé upplýst um mögulegar kvörtunar- og kæruleiðir.

  

  

Skýrsla umboðsmanns um fangageymslur í Borgarnesi og á Akranesi