Starfsmann innviðaráðuneytisins brast hæfi til að taka þátt í vinnu við staðfestingu ráðuneytisins á strandsvæðisskipulagi Austfjarða. Vegna fyrra starfs var aðkoma hans ekki í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um sérstakt hæfi.
Umboðsmaður bendir á að hæfisreglur stjórnsýsluréttar, þar á meðal hin óskráða meginregla um sérstakt hæfi, ná ekki aðeins til þeirra sem taka ákvörðun í máli heldur einnig til þeirra sem taka þátt í undirbúningi og meðferð máls og geta með því haft áhrif á úrlausn þess. Starfsmaður ráðuneytisins hafi unnið að undirbúningi tillögu svæðisráðs að strandsvæðisskipulagi Austfjarða í starfi sínu hjá Skipulagsstofnun. Slík aðkoma geti almennt leitt til þess að starfsmanninn bresti hæfi til að taka þátt í meðferð sama máls hjá öðru stjórnvaldi sem ætlað sé að hafa eftirlit með því að sú ákvörðun sé í samræmi við lög. Ekki verði fallist á að þáttur starfsmannsins í meðferð málsins í ráðuneytinu hafi verið svo lítilfjörlegur að augljóst sé að ekki hafi verið hætta á að ómálefnaleg sjónarmið hefðu áhrif á úrlausn málsins.
Var því beint til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins, sem nú fer með málaflokkinn, að skoða hvort og þá hvaða áhrif þessi niðurstaða hafi á ákvörðun innviðaráðherra um að staðfesta strandsvæðisskipulag Austfjarða.
Álit umboðsmanns í máli nr. 12804/2024