Umboðsmaður mælist til þess að ríkisskattstjóri taki mið af tilteknum sjónarmiðum við meðferð beiðna um endurupptöku máls og hugi að hlutverki sínu sem lægra sett stjórnvald í kærumálum.
Sú afstaða ríkisskattstjóra að synjun um endurupptöku máls hefði ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun og því væri ekki fyrir hendi kæruréttur til yfirskattanefndar vakti athygli umboðsmanns. Taldi hún slíka synjun þvert á móti vera stjórnvaldsákvörðun og þar með væri sú ákvörðun kæranleg. Jafnframt hefðu leiðbeiningar ríkisskattstjóra um rétt til að fá ákvarðanir endurskoðaðar ekki verið í samræmi við lög.
Þá gerði umboðsmaður athugasemdir við framsetningu og efni umsagnar ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Benti hún á að hlutverk ríkisskattstjóra við meðferð slíkra mála væri að veita umsögn, upplýsingar og skýringar til að stuðla að því að mál yrðu til lykta leidd í samræmi við lög en ekki að koma í veg fyrir að mál fengju efnislega skoðun. Var mælst til þess að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að þetta yrði framvegis í samræmi við lög.
Álit umboðsmanns í máli nr. F99/2021