20. janúar 2025

Fjöldi kvartana áþekkur milli ára en töluvert fleiri mál afgreidd en árið áður

Umboðsmanni bárust 530 kvartanir á árinu 2024 sem er svipað og undanfarin fimm ár. Fleiri mál voru hins vegar afgreidd eða 566 sem er 16% meira en árið 2023. Þrettán mál voru tekin til skoðunar að eigin frumkvæði og 17 slíkum lokið. Farið var í sjö heimsóknir á grundvelli OPCAT-eftirlits umboðsmanns og gefnar voru út þrjár skýrslur.

Umboðsmaður skilaði 21 áliti í 22 málum þar sem í einu tilviki voru tvö mál  sameinuð í eitt álit. Hlutfall álita af heildarfjölda afgreiddra mála er nánast það sama og árið áður eða 3,6%. Átján komu til vegna kvartana og þrjú af frumkvæðisathugunum.  

Enn fjölgar þeim málum milli ára sem lýkur með leiðréttingu eða skýringu stjórnvalda og er hlutfall þeirra nú um fjórðungur heildarinnar. Það er lítið eitt hærra hlutfall en 2023. Aftur á móti lauk 13% kvartana með þessum hætti árið 2022.

 

Kvartanir

Kvörtunum fækkaði um 3% milli ára en voru á pari við meðaltal undanfarinna fimm ára sem er 543. Flestar bárust í upphafi árs,  54  í janúar og 55 í febrúar. Líkt og oftast bárust fæstar kvartanir yfir hásumarið, 30 í júlí og 39 í ágúst. Afgreiddum málum fjölgaði um 16% milli ára, fóru úr 489 árið 2023 í 566 og hafa aðeins einu sinni verið fleiri. Fjöldi annarra erinda af ýmsum toga, s.s. ábendingar, fyrirspurnir og fundarbeiðnir, komu til kasta umboðsmanns en ekki er haldin sérstök tölfræði um þau. Við áramót voru 100 mál í vinnslu. Þar af voru 80 til athugunar hjá umboðsmanni, tvö til umsagnar hjá þeim sem kvartaði og beðið svara frá stjórnvöldum í 18 málum.  

  

UMB-Graf2-2024.png

  

Á liðnu ári var tæplega 60% kvartana lokið innan mánaðar frá því að þær bárust, rúmlega 80% innan tveggja mánaða og 90% innan þriggja mánaða. Þetta eru sömu hlutföll og árið á undan.

 

UMB-Graf3-2024.png

 

Frumkvæðismál og OPCAT

Umboðsmaður tók 13 mál til athugunar að eigin frumkvæði á síðasta ári og lauk 17 frumkvæðismálum, þar af þremur með áliti.

Farið var í sjö heimsóknir vegna OPCAT-eftirlits umboðsmanns. Neyðarvistun Stuðla við Fossaleyni í Grafarvogi var heimsótt tvisvar en hinar heimsóknirnar voru á neyðarvistun barna við Flatahraun í Hafnarfirði, fangageymslur á Hverfisgötu, Akranesi og í Borgarnesi og á hjúkrunarheimilið Skjól. Þá hófst vinna við þemaskýrslu um sjálfsvíg í fangelsum.

Þrjár skýrslur voru gefnar út sem tóku til starfsemi Klettabæjar, Vinakots og neyðarvistunar Stuðla. Þá eru fjórar aðrar skýrslur vel á veg komnar, þ.e. um Sunnuhlíð, Skjól og fangageymslur á Hverfisgötu og Vesturlandi.