15. janúar 2025

Norskar örorkubætur hefðu ekki átt að skerða greiðslur frá Tryggingastofnun

Greiðslur frá norsku vinnu- og velferðarstofnuninni (NAV) vegna örorku jöfnuðust á við bætur sem greiddar voru hér á landi í skilningi þágildandi ákvæðis laga um almannatryggingar. Þær hefðu því ekki átt að skerða tekjutryggingu.

Þetta kemur fram í áliti umboðsmanns í kjölfar kvörtunar yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Í honum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar um endurútreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum vegna greiðslna sem kona hafði fengið í Noregi út af örorku. Umboðsmaður bendir m.a. á að við túlkun þess lagaákvæðis sem deilt var um yrði að líta til dómaframkvæmdar ESB-dómstólsins. Þar hefði verið lagt til grundvallar hvort bæturnar væru sambærilegar. Annars vegar með hliðsjón af því markmiði sem stefnt væri að með greiðslu þeirra og hins vegar efni þeirrar löggjafar sem greiðslurnar byggðust á. Miðað við þágildandi ákvæði laga um almannatryggingar taldi umboðsmaður að örorkubætur konunnar í Noregi hefðu talist sambærilegar slíkum hér á landi.

Var því beint til nefndarinnar að taka málið upp aftur ef leitað yrði eftir því og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu.

   

    

Álit umboðsmanns í máli nr. 11924/2022