21. nóvember 2024

OPCAT heimsókn frá Lettlandi

Fulltrúar úr OPCAT-teymi lettneska umboðsmannsins komu í heimsókn í vikunni til að kynna sér störf og áherslur íslenskra kollega sinna hjá umboðsmanni Alþingis.

Báru hóparnir saman bækur sínar og deildu reynslu sinni. Einkum beindust sjónirnar að aðferðafræði teymanna hvað snertir heimsóknir á staði þar sem frelsissviptir dvelja og fræðsluhlutverki þeirra. Þá var einnig rætt um hvernig eftirliti þeirra með geðheilbrigðisþjónustu í fangelsum og á stofnunum fyrir börn er háttað, auk þess sem vikið var að framkvæmd heimsókna á hjúkrunarheimili.  

Þeir starfsmenn umboðsmanns sem sinna OPCAT-eftirlitinu hitta af og til erlenda kollega sína, heima og heiman, þar sem einkum er rætt um aðferðarfræði við eftirlitið eða einstök álitaefni á tilteknu sviði krufin. Þannig gefst tækifæri til að kynnast því hvernig málum er háttað hjá öðrum þjóðum, skiptast á upplýsingum og skoðunum og kynna nýlegar úrlausnir eftirlitsins.