Ólík afstaða dómsmálaráðuneytis og fjármála- og efnahagsráðuneytis til þess hvort þóknun fanga fyrir vinnu í fangelsi sé skattskyld og þá hvort greiða beri önnur launatengd gjöld er óviðunandi að áliti umboðsmanns. Ráðuneytin hafa verið á öndverðum meiði í hartnær tvo áratugi og dómsmálaráðuneytið ekki brugðist við tilmælum umboðsmanns frá 2007.
Umboðsmaður beindi því til dómsmálaráðuneytisins fyrir 17 árum að gera bragarbót á framkvæmdinni en ekkert bólar enn á því. Vinnuréttarleg staða fanga var til að mynda ekki skýrð nánar með lögum um fullnustu refsinga sem tóku gildi 2016. Í fyrra kvörtuðu fangar yfir því að þeir öfluðu sér ekki lífeyrisréttinda vegna starfa sinna í afplánun. Kvörtunin leiddi til frumkvæðisathugunar umboðsmanns og varð niðurstaða hennar sú að samkvæmt lögum um tekjuskatt yrði að líta á þóknun fyrir þessa vinnu sem skattskyldar tekjur. Ríkinu bæri að haga lögbundnum skilum gjalda samkvæmt skattalögum og afstaða dómsmálaráðuneytisins væri ekki í samræmi við það.
Afstaða ráðuneytanna tveggja hefði lengi verið ósamrýmanleg án þess dómsmálaráðuneytið hefði leitað leiða til að leysa úr ágreiningnum. Mæltist umboðsmaður nú til þess að það breytti framkvæmdinni svo samrýmdist skattalögum. Ef ekki yrði leyst úr þessum ágreiningi í kjölfar álitsins þá yrði löggjafinn væntanlega að taka afstöðu til málsins.
Álit umboðsmanns í máli nr. F154/2024