02. júlí 2024

Faglært starfsfólk og eftirlit skortir í tveimur einkareknum úrræðum fyrir börn

Fjallað er um lögbundna ábyrgð ríkis og sveitarfélaga á þjónustu við börn með fjölþættan vanda í tveimur skýrslum um einkarekin búsetuúrræði fyrir 13-18 ára börn. Ábendingar og tilmæli umboðsmanns til þeirra og stjórnvalda eru um margt þau sömu í skýrslunum tveimur. Lúta þau m.a. að því að það skorti umgjörð og eftirlit af hálfu sveitarfélaga með starfseminni og aðkomu fagfólks að umönnun barnanna

Bent er á að í lögum, reglum og fjölþjóðlegum viðmiðum sé lögð áhersla á menntun, þjálfun og færni þeirra sem starfa með börnum sem vistuð eru utan heimilis eða eru með þroska- og geðraskanir. Við eftirlit umboðsmanns hjá Klettabæ og Vinakoti kom í ljós að fagfólk hefur takmarkaða aðkomu að umönnun barnanna frá degi til dags. Er bent á að huga verði að því hvort þau fái þá sérhæfðu og þverfaglegu þjónustu sem þau eiga rétt á og leita leiða til að tryggja að faglærðir starfsmenn annist börnin a.m.k. hluta úr degi auk þess að veita starfsfólki viðhlítandi fræðslu um réttindi barnanna. Jafnframt verði að tryggja bæði innra eftirlit og aðhald hlutaðeigandi sveitarfélaga með þessum stöðum. Þá þurfi fullnægjandi upplýsingagjöf til barnanna um kvörtunar-, kæru- og málskotsleiðir og tiltæka réttindagæslu.

Í skýrslunum er minnt á að sjálfsákvörðunarréttur barna um persónuleg málefni sé meginregla sem ganga beri út frá þótt sá réttur geti sætt vissum takmörkunum m.t.t. öryggis og velferðar þeirra. Takmarkanir á frelsi og friðhelgi einkalífs þurfi þó ávallt að styðjast við skýra lagaheimild og brýna nauðsyn að bera til. Er mennta- og barnamálaráðherra, líkt og í fyrri skýrslu umboðsmanns vegna neyðarvistunar Stuðla, hvattur til að tryggja að þvingunarráðstöfunum gagnvart börnum á heimilum og stofnunum, á ábyrgð hins opinbera, sé búin viðhlítandi lagaumgjörð. Þá er því einnig beint til félags- og vinnumarkaðsráðherra að meta sérstaklega hvort réttaröryggi barna með fötlun sé nægilega tryggt að þessu leyti.

Gagnvart Klettabæ er mælst til þess að kortlagt verði hvaða athafnir og ákvarðanir feli í sér þvingun eða nauðung í skilningi barnaverndarlaga og laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk. Þá þurfi að vega og meta vægi öryggissjónarmiða gagnvart skaðsemi félagslegrar einangrunar, sem sé töluverð, og eftir atvikum endurskoða núverandi fyrirkomulag m.t.t. slíks hagsmunamats. Hvað varðar Vinakot er bent á að huga þurfi að öryggi bæði barnanna og starfsmanna. Er þá m.a. haft í huga að í sumum tilvikum hefur þar aðeins verið gert ráð fyrir einum starfsmanni á vakt, jafnvel óreyndum, og í einhverjum tilvikum karlmanni með stúlku.   

  

  

Skýrsla umboðsmanns um Vinakot

Skýrsla umboðsmanns um Klettabæ