19. júní 2024

Stjórnvald endurupptekur mál vegna sjúkrakostnaðar erlendis

Í framhaldi af nýlegu áliti umboðsmanns um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar erlendis hefur úrskurðarnefnd velferðarmála ákveðið að endurskoða annað slíkt mál.  

Í álitinu komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að rannsókn og rökstuðningi nefndarinnar hefði verið ábótavant þegar hún staðfesti synjun Sjúkratrygginga Íslands við beiðni um endurgreiðslu vegna aðgerðar í Þýskalandi. Byggðist synjunin m.a. á því að skurðaðgerð sem umsækjandinn hafði gengist undir í Þýskalandi hefði ekki verið bráðaaðgerð og því hefði borið að sækja um samþykki fyrir henni fyrirfram.

Í framhaldi af álitinu var nefndin spurð hvort hún teldi tilefni til að taka upp annað mál sem var til meðferðar hjá umboðsmanni og leysa þá úr því í samræmi við sjónarmiðin í álitinu. Áttu málin það sameiginlegt að í báðum tilvikum hafði einstaklingur sótt sér læknismeðferð í Þýskalandi án þess að hafa fengið samþykki Sjúkratrygginga fyrirfram. Í seinna tilvikinu, ólíkt því fyrra, hafði þó verið sótt um endurgreiðslu en svar ekki borist áður en til aðgerðarinnar kom.

Nefndin hefur nú upplýst umboðsmann um að hún muni endurupptaka málið og mun því, að svo stöddu, ekki frekar verða aðhafst vegna kvörtunarinnar af hálfu embættisins.

 

 

Mál nr. 12198/2023

 

Tengd frétt

Rannsókn og rökstuðningi ábótavant við synjun endurgreiðslu sjúkrakostnaðar erlendis