04. júní 2024

Óútskýrðar tafir hjá Orkustofnun

Umboðsmaður hefur sent Orkustofnun ábendingar og óskað eftir upplýsingum vegna málshraða og afgreiðslutíma hjá stofnuninni. Er þetta tilkomið vegna kvörtunar sem tók Orkustofnun meira en tvö ár að afgreiða.

Þrisvar var leitað til umboðsmanns vegna skorts á svörum frá Orkustofnun og spurðist hann í fjórgang fyrir um málið stofnuninni. Þrátt fyrir fyrirheit hennar um að málið væri í farvegi, síðar að það væri komið í hæsta forgang og að lokum að til stæði að afgreiða það „strax í næstu viku“ drógust lyktir þess á langinn. Bar það m.a. með sér að framvinda þess hefði verið takmörkuð í þrettán mánuði eða fram undir lok febrúar á þessu ári. Í ljósi meðferðar málsins og þess að það tók Orkustofnun rúmlega 26 mánuði að ljúka því hefur umboðsmaður óskað eftir nánari skýringum og fleiru er lýtur að málshraða og afgreiðslutíma hjá stofnuninni. Er þá einnig hafður í huga fréttaflutningur af öðrum málum sem virðast hafa dregist á langinn hjá stofnuninni. Jafnframt óskar umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort ábendingin verði tilefni til viðbragða og þá hverra.

  

  

Mál nr. 12508/2023