05. október 2023

Skylda stjórnvalds til samvinnu við umboðsmann

Til að umboðsmaður geti rækt eftirlitshlutverk sitt lögum samkvæmt ber stjórnvöldum að afhenda honum þær upplýsingar sem óskað er eftir hverju sinni. Krefja má stjórnvöld um skýrslur, skjöl, bókanir og öll önnur gögn sem snerta mál, eftirlit eða athuganir umboðsmanns.

Á þetta reyndi vegna kvörtunar yfir ráðningu í starf hjá Vegagerðinni. Umboðsmaður hafði óskað eftir tilteknum gögnum sem Vegagerðin afhenti eftir að hafa afmáð ýmsar persónuupplýsingar. Í skýringum stofnunarinnar á því kom m.a. fram að upplýsingarnar hefðu augljóslega enga þýðingu fyrir skoðun umboðsmanns á kvörtuninni. Hvað snerti gögn vegna eins umsækjanda sem hefði dregið umsókn sína til baka hefði Vegagerðin ekki talið þau hafa þýðingu fyrir athugun umboðsmanns og því ekki afhent þau.

Í bréfi sínu til Vegagerðarinnar bendir umboðsmaður á að það samrýmist illa eftirlitshlutverki hans að stjórnvöld, upp á sitt eindæmi, meti hvort og þá hvaða upplýsingar sem umboðsmaður hafi óskað eftir hafi þýðingu fyrir athugun hans. Umboðsmaður meti slíkt sjálfur og þurfi ekki að veita stjórnvöldum sérstakar skýringar á því. Einnig minnti hann á að heimildir umboðsmanns til upplýsinga- og gagnaöflunar eru ekki takmarkaðar með sama hætti og upplýsingaréttur aðila máls kann að vera.

Vegagerðinni var bent á að hafa þetta framvegis í huga í samskiptum sínum við umboðsmann.

   

   

Mál nr. 12155/2023