08. maí 2023

Fjármálaráðherra beðinn um frekari skýringar um hæfi sitt við sölu á hlut í Íslandsbanka

Umboðsmaður hefur óskað eftir frekari skýringum á afstöðu fjármála- og efnahagsráðherra til hæfis hans vegna sölu á 22,5% hlut ríkisins í Íslandsbanka hf. í mars 2022. Einnig er farið fram á afhent verði öll þau gögn sem fyrir liggja um samskipti hans og ráðuneytisins við Bankasýslu ríkisins frá því að söluferlið hófst þar til úthlutun hlutabréfa lauk, m.a. tölvupóstsamskipti, minnisblöð og símtöl.

Eins og áður hefur komið fram beinist athugun umboðsmanns að álitamálum um hæfi fjármála- og efnahagsráðherra vegna kaupa einkahlutafélags föður hans á hlut í bankanum. Í framhaldi af svari ráðherra frá 24. mars sl. er nú óskað eftir nánari og ítarlegum skýringum á afstöðu ráðherra, m.a. hvort hann telji það hafa verið forsendu hugsanlegs vanhæfis síns í málinu að hann hefði vitneskju um að einkahlutafélagið væri meðal bjóðenda. Þá telur umboðsmaður ekki enn fyllilega ljóst hvort ráðherra telji það fyrirkomulag sem viðhaft var við söluna hafi í reynd tryggt að gætt yrði hæfisreglna en í því tilliti er m.a. spurt um hvort raunhæft hefði verið að kanna hvort fyrirhugaðir kaupendur hefðu þau tengsl við ráðherra að slík álitamál vöknuðu. Í ljósi þess að í svari ráðherra kemur fram að engin athugun á slíkum tengslum fór fram innan ráðuneytisins óskar umboðsmaður einnig eftir upplýsingum um hvort það hafi litið svo á að Bankasýslunni bæri að kanna slík atriði. Spyr hann í því sambandi hvort stofnuninni hafi verið ljóst að einkahlutafélag í eigu föður ráðherra væri á meðal bjóðenda og þá hvers vegna athygli ráðuneytisins hafi ekki verið vakin á því.

  

Bréf umboðsmanns til fjármálaráðherra

  

Tengdar fréttir

Svar fjármálaráðherra við spurningum um sölu á hlut í Íslandsbanka

Fjármálaráðherra spurður út í sölu á hlut í Íslandsbanka