Athugun vegna tilkynningar fjármála- og efnahagsráðuneytisins – Vegna umfjöllunar um málefni Lindarhvols ehf. – er lokið með athugasemdum umboðsmanns og ábendingum. Umboðsmaður telur þó tilefni til að fjalla nánar um þær almennu reglur sem gilda um rétt almennings til aðgangs að vinnuskjölum svo og heimildir stjórnvalda til að birta þau eða afhenda umfram skyldu.
Í kjölfar fyrirspurna umboðsmanns tók ráðuneytið undir þá afstöðu sem fram hafði komið í bréfum hans á þá leið að tiltekið orðalag í tilkynningu þess hefði ekki verið nægilega nákvæmt og þannig ekki í fullu samræmi við þá lögfræðilegu túlkun sem lýst var í fyrra svari ráðuneytisins. Jafnframt upplýsti ráðuneytið umboðsmann um að gerðar yrðu ákveðnar breytingar í samræmi við þá stefnu þess að bregðast við ábendingum um skort á skýrleika eða nákvæmni með leiðréttingum.
Af þessum ástæðum hefur umboðsmaður ákveðið að ljúka athugun sinni á málinu. Hann bendir þó ráðherra á að þrátt fyrir breytingar sé tilkynningin enn ekki fyllilega í samræmi við gildandi rétt. Er því beint til hans að skoða hvort ástæða sé til að ráðuneytið breyti henni frekar.
Þá telur umboðsmaður að atvik málsins, og fleiri sem komið hafa til skoðunar hjá embættinu, bendi til þess að almennt kunni stjórnvöld að skorta fullnægjandi skilning á þeim reglum sem gilda um rétt almennings til aðgangs að vinnuskjölum svo og heimildum stjórnvalda til að birta þau umfram skyldu. Verður því tekið til skoðunar hvort ástæða sé til að fjalla um þetta atriði með almennum hætti.
Bréf umboðsmanns til fjármála- og efnahagsráðherra
Tengdar fréttir
Frekari skýringar ráðuneytis vegna birtingar vinnuskjala
Frekari upplýsinga óskað um birtingu vinnuskjala og þagnarskyldu
Svar fjármálaráðherra við spurningum um birtingu vinnuskjala
Spurt um birtingu vinnuskjala