31. mars 2023

Frekari upplýsinga óskað um birtingu vinnuskjala og þagnarskyldu

Umboðsmaður spyr út í hvernig svar fjármála- og efnahagsráðuneytisins við fyrirspurn hans um birtingu vinnuskjala samræmist birtri tilkynningu ráðuneytisins þar að lútandi.

Fullyrðingar í tilkynningunni um að ólöglegt væri að gera vinnuskjöl ríkisendurskoðanda opinber varð kveikjan að athugun umboðsmanns og þá með hliðsjón af því að þetta mátti skilja á þá leið að birting slíkra gagna væri almennt óheimil. Af svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns verður hins vegar ekki annað ráðið en að það telji að birta megi vinnuskjöl að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Lög um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ársreikninga, sem vísað var til í tilkynningunni, girði því ekki alfarið fyrir slíka birtingu. Í bréfi umboðsmanns segir í þessu sambandi:

Get ég því ekki séð að samræmi sé að þessu leyti á milli þess sem fram kemur í umræddri tilkynningu ráðuneytisins og því sem greinir í áðurröktu svari þess til mín.

Af þessu tilefni er óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið líti svo á að tilkynning þess 9. mars sé í samræmi við þau sjónarmið sem fram koma í svari þess. Ef sú er raunin er óskað eftir nánari skýringum á því.  Einnig hvort komið hafi til skoðunar hjá ráðuneytinu að breyta tilkynningunni til samræmis við það sem fram kemur í svarinu. Ef ekki þá er óskað skýringa á því og svörum fyrir 12. apríl.

  

 

Bréf umboðsmanns til fjármálaráðherra

  

  

Tengdar fréttir

Svar fjármálaráðherra við spurningum um birtingu vinnuskjala

Spurt um birtingu vinnuskjala