19. maí 2021

Spurt nánar út í bólusetningar vegna COVID-19

Í ljósi fleiri kvartana og ábendinga út af framkvæmd bólusetninga vegna COVID-19 hefur umboðsmaður óskað eftir frekari upplýsingum frá sóttvarnalækni.

Í kjölfar fyrri fyrirspurnar hefur umboðsmaður nú beðið um nánari upplýsingar um stöðu þeirra sem tilheyra skilgreindum forgangshópum en hafa ákveðið að hafna boði í bólusetningu vegna þeirrar tegundar bóluefnis sem þeim stóð til boða. Umboðsmaður vill vita hvort þau njóti áfram forgangs í bólusetningu samkvæmt fyrirmælum reglugerðar og hvernig meðferð mála þeirra sé háttað. Þá einkum með tilliti til þess hvort þau séu boðuð aftur í bólusetningu miðað við þann forgangshóp sem þeim var upphaflega raðað í eða hvort þau þurfi að fara í svokallaða opna tíma.

Í svari sóttvarnalæknis við fyrirspurn umboðsmanns sem send var í síðustu viku, kom fram að beina þyrfti seinni hluta hennar til heilsugæsluumdæma. Forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur því verið beðinn um upplýsingar um meðferð og afgreiðslu mála þegar fólk telur sig ranglega hafa fengið boð í bólusetningu með AztraZeneca bóluefni. Einnig hvaða upplýsingar séu gefnar þeim sem leiti til heilsugæslunnar í þessu skyni. 

Umboðsmaður óskar eftir svörum eigi síðar en 25. maí nk.

   

    

Bréf umboðsmanns til sóttvarnalæknis

Bréf umboðsmanns til Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu

   

   

Tengd frétt

Landlæknir spurður út í bólusetningar vegna COVID-19