10. mars 2021

Synjun úrskurðarnefndar velferðarmála um styrk vegna hjálpartækis ekki í samræmi við lög

Úrskurðarnefnd velferðarmála túlkaði lög um sjúkratryggingar of þröngt þegar hún synjaði umsækjanda um styrk til kaupa á hjálpartæki.

Fatlaður einstaklingur leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem honum hafði verið synjað um styrk til að kaupa handknúið hjól með aflbúnaði til að nota með hjólastól. Niðurstaða nefndarinnar var að þótt hjálpartækið gæti talist hentugt fyrir viðkomandi þá gæti það ekki talist nauðsynlegt, eins og áskilið væri í lögum um sjúkratryggingar, þar sem viðkomandi kæmist af án þess.

Settur umboðsmaður benti á að þótt úrskurðarnefndin hefði svigrúm til að meta hvort hjálpartæki teldist nauðsynlegt yrði að meta aðstæður umsækjenda einstaklingsbundið og heildstætt hverju sinni. Við túlkun á þessu skilyrði laganna yrði, meðal annars með hliðsjón af markmiðum laganna, að túlka það á þann veg að notkun tækisins næði þeim tilgangi að vernda heilbrigði sjúkratryggðra í víðtækum skilningi, og þá í ljósi þeirra hagsmuna sem væru undirliggjandi. Þar þyrfti einnig að hafa í huga þá réttarvernd sem fötluðu fólki væri búin í lögum til að tryggja því jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra. Nefndin hefði því með viðmiði sínu, um að hjálpartæki teljist ekki nauðsynlegt ef viðkomandi kæmist af án þess, þrengt með of fortakslausum hætti að því mati sem þurfi að fara fram við þessar aðstæður.

Settur umboðsmaður taldi að nefndin hefði hvorki byggt niðurstöðu sína á fullnægjandi grundvelli né tekið mið af þeim röksemdum sem umsækjandi færði fram vegna málsins. 

 

 

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10222/2019