Tafir á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsóknum um ríkisborgararétt hafa orðið settum umboðsmanni tilefni til að vekja athygli dómsmálaráðherra á stöðunni.
Við meðferð setts umboðsmanns á kvörtun af þessum toga kom fram að afgreiðsla umsókna um ríkisborgararétt geti tekið töluvert á annað ár frá því að Útlendingastofnun berst umsókn. Tafirnar séu af almennum orsökum, þ.e. vegna mannafla og málafjölda, en með umbótum sé stefnt að því að í lok þessa árs verði umsóknir komnar til vinnslu innan sex mánaða frá því að þær berast.
Í ljósi aðstæðna taldi settur umboðsmaður rétt að vekja athygli dómsmálaráðherra á stöðu mála, m.a. með tilliti til þess að lög takmarka möguleika umsækjenda til að kæra óhæfilegan drátt til ráðuneytisins. Tök þeirra á að fá bindandi úrlausn æðra stjórnvalds, um hvort óréttlættar tafir hafi orðið á meðferð umsóknar þeirra, eru þannig takmarkaðri en almennt í stjórnsýslunni.
Settur umboðsmaður hefur óskað eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hyggist eða hafi gripið til einhverra aðgerða til að bregðast við vandanum og í hverju það felist þá. Ef ekki er óskað eftir að ráðuneytið skýri ástæður þess og lýsi afstöðu sinni til þess hvort það samrýmist yfirstjórnar- og eftirlitshlutverki ráðherra gagnvart Útlendingastofnun. Með hliðsjón af svörunum verður metið hvort tilefni sé til að taka framangreinda þætti til almennrar athugunar.
Bréf setts umboðsmanns til dómsmálaráðherra í máli nr. 10850/2020