30. desember 2020

Aðstoð sérfræðinga firrir stjórnvöld ekki ábyrgð

Þegar stjórnvöld leita atbeina einkaaðila við undirbúning stjórnvaldsákvörðunar eða aðra meðferð valdheimilda bera þau áfram ábyrgð á að meðferð málsins sé í samræmi við lög. Aðkoma utanaðkomandi sérfræðings má ekki leiða til þess að réttarstaða borgarans verði lakari en leiðir af lögum og reglum.

Settur umboðsmaður taldi að á þessu hefði orðið misbrestur þegar mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu hafnaði umsókn manns um starfsnám á þeim forsendum að hann hefði tekið lyf við tileknum sjúkdómi og uppfyllti því ekki kröfur um heilbrigði umsækjenda. Höfnunin byggðist á umsögn trúnaðarlæknis sem umsækjandinn hafði gert athugasemdir við.

Settur umboðsmaður benti á að þótt skorður kynnu að vera við því að mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu gæti endurskoðað sérfræðimat trúnaðarlæknis á heilsufari umsækjenda, útilokaði sú staða ekki að það gæti lagt fyrir lækninn að bæta úr tilteknum atriðum í tengslum við umsóknarferlið. Þar sem trúnaðarlæknirinn hafði ekki svarað erindum umsækjandans, áður en tekin var ákvörðun að synja umsókn hans á grundvelli neikvæðrar umsagnar læknisins, hefði ekki verið sýnt fram á að tryggt hefði verið að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir um heilsufar umsækjandans. Synjun umsóknarinnar hefði því ekki verið í samræmi við lög.

Settur umboðsmaður beindi því til mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram beiðni þess efnis frá viðkomandi, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og að taka framvegis mið af þeim. Einnig beindi hann því til setursins og ríkislögreglustjóra að athuga hvort taka þyrfti til skoðunar almennt verklag við meðferð umsókna um starfsnám hjá lögreglu.

Þá voru gerðar athugasemdir við þau svör ríkislögreglustjóra til umboðsmanns að umboðsmaður skyldi leita skýringa á tilteknum atriðum hjá einkafyrirtækinu sem trúnaðarlæknirinn starfaði hjá í stað þess að ríkislögreglustjóri hlutaðist til um að afhenda þær upplýsingar og gögn sem óskað var eftir.

 

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10381/2020

 

 

Tengdar fréttir

Aðkoma heilbrigðisstarfsfólks að stjórnsýslumálum