10. desember 2020

Tryggingastofnun gætti ekki meðalhófs í innheimtuaðgerðum

Þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi heimildir til að krefjast endurgreiðslu á ofgreiddum bótum ber stofnuninni að gæta meðalhófs við slíka innheimtu. Af því leiðir að stofnuninni er skylt að meta fyrir fram hvort krefjast eigi nauðungarsölu á heimilum bótaþega.

Settur umboðsmaður telur að Tryggingastofnun hafi ekki lagt fullnægjandi grundvöll að ákvörðun um að krefjast nauðungarsölu á fasteign vegna kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Fjárhæð kröfunnar nam um 590 þúsund krónum. Fasteignin var síðan boðin upp og seld á 23 milljónir króna. Tryggingastofnun fékk um 65 þúsund krónur í sinn hlut eftir að innheimtukostnaður hafði verið dreginn frá en eftirstöðvarnar voru afskrifaðar.

Tryggingastofnun byggði á að sá einstaklingur sem í hlut átti hefði sýnt af sér tómlæti í málinu. Hann hefði ekki brugðist við innheimtubréfum og hefði því haft tækifæri til að afstýra því að málið færi á þennan veg. Settur umboðsmaður benti á að við þessar aðstæður hefðu engu að síður hvílt á stofnuninni ákveðnar skyldur sem stofnunin hefði brugðist. Þannig hefði Tryggingastofnun ekki lagt mat á nauðsyn þess að fara fram á nauðungarsölu til að innheimta kröfuna áður en það var gert. Ekki hefði heldur verið upplýst með fullnægjandi hætti hversu há endurkrafan ætti að vera eða veittar leiðbeiningar um að hægt væri að óska eftir undanþágu frá henni.

Settur umboðsmaður mæltist til þess að Tryggingastofnun leitaði leiða til að rétta hlut viðkomandi, kæmi fram beiðni þess efnis. Að öðru leyti yrði það að vera verkefni dómstóla að meta réttaráhrif annmarkanna, yrði sú leið fyrir valinu. Þá beindi settur umboðsmaður því til stofnunarinnar að meta hvort tilefni væri til að taka almennt verklag hennar til skoðunar til að tryggja að meðferð endurkröfumála væri í samræmi við lög að því er varðaði að leiðbeina einstaklingum um að þeir gætu sótt um undanþágu frá endurkröfu. 

 

Álit setts umboðsmanns í máli nr. 10235/2019