13. október 2020

Athygli ráðherra vakin á óskýrleika laga og reglna á sviði fiskveiða

Í nýju áliti vekur umboðsmaður athygli  sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á atriðum er varða lög og reglur á sviði fiskveiða með það fyrir augum að hugað verði að því hvort og þá hvaða breytingar gæti þurft að gera með hliðsjón af þeim. Er þar bent á tiltekin atriði í tengslum við setningu laga og reglna á þessu sviði sem geti leitt til að óskýrt geti verið hver sé gildandi réttur hverju sinni.

Tilefni álitsins var kvörtun útgerðarfélags yfir úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem staðfesti ákvörðun Fiskistofu að áminna það vegna veiða á kúfskel með plógi án þess að hafa til þess leyfi. Útgerðin taldi aftur á móti að slíkar veiðar til beitu hefðu ekki verið háðar leyfi og áminningin því ekki í samræmi við lög.

Þetta mál, og fleiri á sviði fiskveiða er varða stjórnun þeirra og viðurlög við brotum, varð umboðsmanni tilefni til að fjalla um hvort lög og stjórnvaldsfyrirmæli á þessu sviði séu haldin meinbugum. Benti hann á að þar þyrfti að hafa í huga að um væri að ræða lög sem takmörkuðu atvinnufrelsi og gætu verið grundvöllur viðurlaga. Mikilvægt væri að huga að skýrleika við setningu á lögum og stjórnvaldsfyrirmælum og samræmi ákvæða, bæði innan laganna og við önnur lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Ítrekaðar lagabreytingar yfir langt árabil án þess að hugað væri að heildarendurskoðun viðkomandi laga hefði í för með sér að óskýrt gæti verið hvaða reglur væru í gildi hverju sinni. Þá skorti oft skýrar tilvísanir til lagaheimilda í reglugerðum á þessu sviði og því óljóst hver væri lagastoð þeirra.

Hvað kvörtun útgerðarfélagsins snerti var það álit umboðsmanns að úrskurður ráðuneytisins hefði ekki byggst á fullnægjandi lagagrundvelli. Beindi umboðsmaður því til þess að taka málið til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk þess efnis, og leysa þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin hefðu verið í álitinu. Jafnframt að taka framvegis mið af þeim í störfum sínum auk þess að huga að því hvort og þá hvaða breytingar þyrfti að gera á lögum og reglum á sviði fiskveiða af þessu tilefni.

 

 

Álit umboðsmanns í máli nr. 9802/2018