Á stjórnvöldum hvílir sú skylda að tryggja sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa áhrif á hagsmuni þess og daglegt líf. Þegar teknar eru ákvarðanir sem hafa veruleg áhrif á líf fatlaðs einstaklings og réttindi, t.d. ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili, er mikilvægt að viðkomandi fái fullnægjandi fræðslu um áhrif þess sem og ferlið sé með þeim hætti að fyrir liggi að hann hafi samþykkt umræddar ráðstafanir.
Á þetta reyndi í kvörtun þar sem gerðar voru athugasemdir við aðkomu sveitarfélags og færni- og heilsumatsnefndar að umsókn fatlaðs einstaklings um dvöl á hjúkrunarheimili. Var þar einkum byggt á að ekki hafi verið tryggt að umsókn viðkomandi um slíka dvöl hafi verið samþykkt af honum.
Í áliti umboðsmanns er bent á að stjórnsýsluferli vegna dvalar á hjúkrunarheimili geti verið langt og flókið og samanstandi af nokkrum skrefum eða þáttum þar sem iðulega reyni á aðkomu fleiri en eins stjórnvalds og jafnvel einkaaðila. Ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili hafi veruleg áhrif á líf og réttindi fólks og því mikilvægt að tryggja réttaröryggi hlutaðeigandi í ferlinu og að mál þeirra séu lögð í réttan farveg. Í áliti umboðsmanns er bent á að ákvörðun um dvöl á hjúkrunarheimili hafi til dæmis áhrif á greiðslur, réttindi og þjónustu viðkomandi og geti auk þess takmarkað persónufrelsi, athafnafrelsi og friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu með ýmsum hætti. Í ljósi atvika málsins benti umboðsmaður á að skráning upplýsinga og varðveisla þeirra um atvik máls hafi haft grundvallarþýðingu fyrir framhald þess. Bæði til að með skýrum hætti lægi fyrir hvort viðkomandi hefði óskað eftir slíkri ráðstöfun og einnig hvaða upplýsingar hann hefði fengið og þar með samþykkt.
Meðal annars í ljósi þeirrar áherslu sem lögð er á sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks í lögum og alþjóðasamningum og mikilvægra hagsmuni sem í húfi voru fyrir umræddan einstakling, t.d. réttinn til örorkulífeyris, var það niðurstaða umboðsmanns að meðferð málsins hjá sveitarfélaginu hefði ekki verið í samræmi við lög. Benti hann á að engin gögn eða upplýsingar lægju fyrir hjá sveitarfélaginu um aðdraganda þess að umsókn var send inn. Sama gegndi um meðferð færni- og heilsumatsnefndar heilbrigðisnefndar höfuðborgarsvæðisins á endurnýjun umsóknarinnar sem var hvorki undirrituð af viðkomandi einstaklingi né sveitarfélaginu. Þar með hafi ekki legið fyrir sönnun um hvað hann hefði sótt um eða á hvaða forsendum.
Atvik málsins gáfu umboðsmanni tilefni til að benda heilbrigðisráðherra á að skoða hvort og þá hvaða breytingar gæti verið rétt að gera á gildandi lagaumhverfi til að það samrýmist betur m.a. sjónarmiðum um sjálfsákvörðunarrétt fatlaðs fólks og tryggja betur að þeir sem sækja um dvöl á hjúkrunarheimili fái fullnægjandi fræðslu um áhrif þess á réttarstöðu sína og daglegt líf. Jafnframt var vakin athygli landlæknis, Persónuverndar og Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar á þeim sjónarmiðum sem fram komu í álitinu.
Álit umboðsmanns í máli nr. 9897/2018