08. júní 2018

Framkvæmd laga tryggir ekki mannréttindi fanga - UA óskar eftir svörum um úrbætur

Dómsmálaráðuneytið segir í bréfi til umboðsmanns að það sé ljóst að mati þess að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggi ekki réttindi fanga samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu með fullnægjandi hætti.

Þetta kom fram í tilefni af fyrirspurn um stöðu mála að því er varðar vistun geðsjúkra fanga og þeirra sem stríða við geðræn vandamál í tengslum við frumkvæðisathugun umboðsmanns Alþingis á tilteknum atriðum varðandi aðbúnað og aðstæður fanga, og þá fyrst og fremst í fangelsinu Litla-Hrauni.  Liður í þeirri athugun hefur  verið geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónusta við fanga. Þessi athugun hófst á árinu 2013 og í drögum að skýrslu sem markaði upphaf hennar lýsti settur umboðsmaður m.a. því að vistun geðsjúks fanga í afplánunarfangelsi kynni að ganga nærri því að teljast brot á 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, a.m.k. ef honum er ekki tryggð þar viðeigandi læknisþjónusta, sjá frétt á heimasíðu UA 4. október 2013.

Í samskiptum sínum við stjórnvöld í kjölfar skýrsludraganna hefur umboðsmaður kallað eftir því hvaða áform stjórnvöld hafi um úrbætur í þessum málum. Í svörum þeirra lýstu þau áformum sínum og starfi starfshópa og  nefnda sem unnið hafa að þessum málum. Umboðsmaður taldi því rétt að bíða og sjá hvernig þessi boðuðu áform og úrbætur gengju eftir. Þar sem litlar breytingar höfðu orðið á stöðu þessara mála í árslok 2017 taldi umboðsmaður rétt að ganga enn frekar á eftir svörum bæði dómsmálaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins um þessi mál þannig að ljúka mætti athuguninni af hálfu umboðsmanns.

Í svari dómsmálaráðuneytisins er stöðu þessara mála lýst og minnt á að samkvæmt 29. gr. laga um fullnustu refsinga skuli fangar njóta sambærilegrar heilbrigðisþjónustu og almennt gildir. Að höfðu samráði við Fangelsismálastofnun sjái það ráðuneyti sem fer með heilbrigðismál um og beri ábyrgð á heilbrigðisþjónustu við fanga í fangelsum. Að því er varðar málefni þeirra fanga sem eiga við geðræn vandamál og sjúkdóma að stríða kemur fram í bréfinu að Fangelsismálastofnun hafi í minnisblaði til ráðuneytisins í ársbyrjun vakið athygli á stöðu nokkurra fanga sem séu í afplánun en hafi ekki fengið viðeigandi þjónustu í fangelsi og viðeigandi úrræði séu ekki heldur til staðar fyrir þá að afplánun lokinni, en flestir þessara einstaklinga glími við geðræn vandamál af ýmsum toga. Síðan segir í bréfinu:                 

„Ljóst er að mati ráðuneytisins að framkvæmd laga um fullnustu refsinga tryggir ekki réttindi fanga samkvæmt 1. mgr. 68. gr. og 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu með fullnægjandi hætti. Ráðuneytið tekur undir þau sjónarmið sem sett hafa verið fram að sé alvarlega geðsjúkur maður sem sakfelldur hefur verið fyrir refsilagabrot vistaður í afplánunarfangelsi  hér á landi þá kunni slík ráðstöfun að ganga nærri því að teljast brot á 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 3. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, ef honum er ekki tryggð þar viðeigandi læknisþjónusta. Það er afstaða ráðuneytisins að brýnt tilefni sé til þess að endurskoða fyrirkomulag geðheilbrigðisþjónustu á Litla-Hrauni sem og í fangelsum landsins almennt. Ráðuneytið telur mikilvægt að viðhafa víðtækt samráð í þeim efnum við velferðarráðuneytið og fangelsismálayfirvöld.“

Umboðsmaður hafði einnig sent velferðarráðuneytinu fyrirspurn um stöðu þessara mála. Í svari þess er lýst því mati ráðuneytisins að tilvísun í lög um heilbrigðisþjónustu í 29. gr. laga um fullnustu refsinga sé þannig að hún tryggi réttindi fanga samkvæmt 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu með fullnægjandi hætti. Því er hins vegar látið ósvarað af hálfu ráðuneytisins hvort hið sama eigi við um framkvæmd laganna í raun, en um það var einnig spurt í fyrirspurnarbréfi umboðsmanns.

Í ljósi þessara svara, og þá sérstaklega afstöðu dómsmálaráðuneytisins til þess hvernig framkvæmdin í þessum efnum uppfyllir kröfur stjórnarskrár og mannréttindasáttmála, ákvað umboðsmaður að rita dómsmálaráðherra bréf 29. maí sl. Þar var óskað eftir að upplýst yrði um í hverju sú endurskoðun, og þar með þær nauðsynlegu úrbætur sem ráðuneytið telur brýnt að ráðast í, muni nánar tiltekið felast. Umboðsmaður tók fram að hann hefði þá t.d. í huga hvort ráðuneytið hafi sett sér aðgerða- og tímaáætlanir vegna þessara mála, hver verði fyrstu viðbrögð ráðuneytisins til að rétta það ástand sem það lýsir óviðunandi, hvenær þeim verði hrundið í framkvæmd og ef þörf er á sérstöku fjármagni til þess hvaða ráðstafanir hafi þá verið gerðar í þeirri viðleitni að tryggja nægilegt fjármagn til umbótanna. Jafnframt óskaði umboðsmaður eftir að fram komi hvort ráðuneytið telji þörf á breytingum á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum til að ná fram þessum úrbótum og þá hvaða breytingum. Afrit af bréfinu var sent heilbrigðisráðherra og umboðsmaður tók fram að það væri gert til að ítreka þau sjónarmið sem hann hefði áður lýst um mikilvægi þess að dómsmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið hugi sameiginlega að lausn þeirra mála sem um væri spurt í bréfinu.

Umboðsmaður óskar í bréfi sínu til dómsmálaráðherra eftir því að svar berist honum fyrir 15. september nk. Í framhaldinu er stefnt að því að umboðsmaður ljúki athugun sinni á þeim þætti  frumkvæðisathugunarinnar sem lýtur að geðheilbrigðis- og sálfræðiþjónustu við fanga. Á næstunni verður tekin afstaða til þess hvernig athugun á öðrum þáttum sem um var fjallað í skýrsludrögunum 2013 verður lokið af hálfu umboðsmanns og þá m.a. með tilliti til þess hvort rétt sé að einstakir þættir bíði umfjöllunar á vettvangi OPCAT-eftirlitsins sem mun hefjast hér á landi innan tíðar, sjá frétt 26. janúar sl.  

Bréf umboðsmanns til dómsmálaráðherra má lesa í heild sinni hér.