1.
Gaukur Jörundsson kjörinn umboðsmaður Alþingis var í leyfi frá því starfi á árinu 1999 en hann var hinn 1. nóvember 1998 kjörinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. Tryggvi Gunnarsson, hæstaréttarlögmaður, var settur til að gegna starfi umboðsmanns Alþingis allt árið 1999. Á fundi Alþingis 4. nóvember 1999 var Tryggvi Gunnarsson síðan kjörinn umboðsmaður Alþingis frá 1. janúar 2000 til næstu fjögurra ára.
2.
Skrifstofa umboðsmanns Alþingis að Lágmúla 6 var á árinu opin almenningi frá kl. 9.00 til 15.00 frá mánudegi til föstudags. Auk umboðsmanns voru starfsmenn að jafnaði sex allt árið. Katrín Jónasdóttir, skrifstofustjóri, lét af því starfi 1. desember 1999. Þann sama dag tók Ingibjörg Þóra Sigurjónsdóttir við starfi rekstrarstjóra. Ásmundur Helgason, lögfræðingur, var ráðinn frá 15. janúar 1999, Sverrir Örn Björnsson, lögfræðingur, kom til starfa 19. mars 1999, Ólafur Jóhannes Einarsson, lögfræðingur, starfaði á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 1999, Kristján Gunnar Valdimarsson, lögfræðingur, sem ráðinn hafði verið tímabundið, hvarf til fyrri starfa 15. júlí 1999, Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur, lét af störfum 20. ágúst 1999, Margrét Vala Kristjánsdóttir, lögfræðingur, kom úr barnsburðarleyfi 15. september 1999, og Kristín Benediktsdóttir, lögfræðingur, var ráðin til starfa 27. september 1999. Þeir Hrafnkell Óskarsson, lögfræðingur, og Róbert R. Spanó, lögfræðingur, voru í námsleyfi síðustu fjóra mánuði ársins. Sumarið 1999 störfuðu tveir laganemar á skrifstofu umboðsmanns, Katrín Helga Hallgrímsdóttir og Einar Jónsson, en Einar var síðan í hlutastarfi til áramóta. Ég naut einnig á árinu aðstoðar nokkurra manna vegna einstakra verkefna.
Ég ákvað að víkja sæti í ellefu málum og skipaði forseti Alþingis Friðgeir Björnsson, dómstjóra, til að fara með eitt þeirra, Helga I. Jónsson, héraðsdómara, til að fara með eitt, Stefán Má Stefánsson, prófessor, til að fara með tvö, Pál Hreinsson, dósent, til að fara með þrjú og Þorgeir Inga Njálsson, héraðsdómara, til að fara með fjögur, sbr. 14. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
3.
Á árinu 1999 voru skráð 272 ný mál. Á árinu tók ég níu mál upp að eigin frumkvæði. Skráð mál á grundvelli kvartana, sem bornar voru fram, voru 263. Tekið skal fram, að mál er því aðeins skráð að skriflegt erindi hafi borist, oftast í formi skriflegrar kvörtunar, eða að umboðsmaður taki mál upp að eigin frumkvæði. Einnig er algengt að menn hringi eða komi á skrifstofu umboðsmanns og beri upp mál sín og leiti upplýsinga. Er þá oftast greitt úr málum með skýringum eða með því að koma þeim í réttan farveg innan stjórnsýslunnar án þess að til skráningar komi. Þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur eins og áður.
4.
Í byrjun árs 1999 var hafinn undirbúningur að gerð heimasíðu fyrir umboðsmann Alþingis. Var tekin sú ákvörðun að þar yrði í senn birt það efni sem þegar hefur verið gefið út í prentuðum ársskýrslum umboðsmanns Alþingis og þau nýju álit og aðrar niðurstöður sem umboðsmaður ákveður að birta. Auk þess yrði þar að finna almennar upplýsingar um starfsemi umboðsmanns Alþingis og leiðbeiningar um kvartanir til hans. Var markmiðið með þessu verki að auka og bæta aðgengi bæði almennings og þeirra sem starfa í stjórnsýslunni að niðurstöðum umboðsmanns Alþingis um einstök álitaefni og auðvelda þannig borgurunum að gera sér grein fyrir réttarstöðu sinni og eftir atvikum að leita til umboðsmanns Alþingis ef þeir telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem starfssvið umboðsmanns tekur til. Til þess að gera umrætt efni aðgengilegt og auðvelda leit í því þurfti að fá sérfróða aðila til að setja heimasíðuna upp ásamt tilheyrandi leitarvél. Var samið við fyrirtækið Tölvumyndir hf. um þann þátt verksins. Starfsfólk umboðsmanns Alþingis vann að því verkefni að búa úrlausnir umboðsmanns til birtingar á heimasíðunni og taka saman efni í nauðsynlegar skrár og gagnagrunna. Var þetta öllu umfangsmeira verk en ætlað hafði verið í fyrstu og hafði það nokkur áhrif á afgreiðslutíma þeirra kvartana sem til umfjöllunar voru á árinu. Um leið var líka lagður grunnur að breytingum á formi árlegrar skýrslu umboðsmanns Alþingis. Opnað var fyrir aðgang að heimasíðunni (www.umbodsmaduralthingis.is) í mars 2000 en formlega verður hún tekin í notkun og kynnt í kjölfar umfjöllunar Alþingis um þessa skýrslu umboðsmanns Alþingis.
5.
Umboðsmaður Alþingis hefur það hlutverk að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þetta hlutverk sitt rækir umboðsmaður annars vegar með því að veita viðtöku og fjalla um kvartanir frá þeim sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu einhvers þess aðila sem starfssvið umboðsmanns Alþingis tekur til. Hins vegar getur umboðsmaður Alþingis að eigin frumkvæði ákveðið að taka mál til meðferðar. Niðurstöður sínar birtir umboðsmaður síðan í skriflegum álitum eða bréfum sem send eru hlutaðeigandi stjórnvöldum og þeim sem borið hefur fram kvörtun. Í flestum tilvikum er niðurstaða umboðsmanns einnig birt opinberlega, fyrst á heimasíðu hans en síðan er gerð grein fyrir málinu í árlegri skýrslu til Alþingis. Með þessu er reynt að miðla meðal annars til starfsfólks stjórnsýslunnar upplýsingum um niðurstöður umboðsmanns Alþingis sem hafa almenna þýðingu fyrir starfsemi stjórnsýslunnar.
Við athuganir umboðsmanns Alþingis á einstökum málum ber stundum á því að tilteknir annmarkar á starfsháttum ákveðinna stjórnvalda endurtaka sig. Þetta geta verið atriði sem ástæða er til að vekja athygli fyrirsvarsmanna viðkomandi stjórnvalds á og þá með öðrum og almennari hætti heldur en álit í einstökum málum gefa tilefni til. Þá leiðir það af verkefnum umboðsmanns Alþingis að þar er til staðar ákveðin vitneskja um þær reglur sem stjórnsýslunni ber að fara eftir og yfirsýn um hvernig þeim er fylgt. Umboðsmanni Alþingis er að lögum ætlað að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins og liður í því er að stuðla að umbótum í stjórnsýslunni. Er því stundum farin sú leið að ræða slík atriði á fundi með fulltrúum stjórnvaldsins. Þar gefst einnig oft tækifæri til að ræða almennt um viðfangsefni viðkomandi stjórnvalds og þær reglur stjórnsýsluréttarins sem þar þarf að huga að.
Hinn 22. nóvember 1999 mætti umboðsmaður Alþingis á fund með ráðuneytisstjórum í Stjórnarráði Íslands. Þar var rætt um ýmis atriði í starfsháttum ráðuneytanna sem umboðsmaður Alþingis taldi, í ljósi þeirra mála sem hann hafði fjallað um, rétt að gera að umtalsefni á slíkum sameiginlegum vettvangi. Þessi sameiginlegi fundur var nýjung sem ástæða er til að fylgja eftir og þá einnig gagnvart öðrum hópum sem koma sameiginlega að verki innan stjórnsýslunnar. Þar gefst líka tækifæri til að gera grein fyrir því hvernig umboðsmaður Alþingis starfar.
6.
Þegar farið er yfir efnisyfirlit mála sem birt er í þessari skýrslu umboðsmanns Alþingis og það borið saman við efnisyfirlit í síðustu skýrslum sést að málaflokkar eins og almannatryggingar og skattar og gjöld eru sem áður fyrirferðarmiklir í starfi umboðsmanns.
Mál á sviði almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar hafa þá sérstöðu að í flestum tilvikum hefur fólk þar þurft að leita til hlutaðeigandi stjórnvalds, oftast Tryggingastofnunar ríkisins eða félagsþjónustu sveitarfélags, vegna þess að það hefur orðið fyrir slysi eða veikindi hafa orðið til að raska lífi þess. Oft hefur þessi aðstaða ekki bara haft veruleg áhrif á fjárhag viðkomandi heldur einnig félagslega stöðu hans. Í mörgum tilvikum hefur þessi staða þær afleiðingar að viðkomandi einstaklingar eiga ekki hægt um vik með að kynna sér sjálfir hver réttur þeirra er. Þá kunna þeir af sömu sökum að eiga örðugt með að fylgja málum sínum eftir þegar álitaefni koma upp. Það er því mikilvægara en ella að hlutaðeigandi stjórnvöld gæti vel að framkvæmd þessara mála og hugi í því sambandi sérstaklega að leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu sinni, sbr. 7. og 10. gr. stjórnsýslulaga. Þegar mál af þessu tagi koma til umfjöllunar hjá umboðsmanni Alþingis hafa þau almennt í samræmi við þær reglur sem gilda um störf umboðsmanns hlotið afgreiðslu hjá æðra stjórnvaldi, oftast á grundvelli stjórnsýslukæru. Í fyrsta lið III. kafla skýrslunnar eru birtar niðurstöður tryggingaráðs í nokkrum kærumálum sem í samræmi við þágildandi lög var skotið til ráðsins. Í álitum umboðsmanns í þessum málum er endurtekið fundið að því að meðferð þeirra hafi ekki verið í samræmi við stjórnsýslulög þar sem ekki hafi verið gætt að rannsóknarreglu 10. gr. laganna, auk þess sem rökstuðningur fyrir niðurstöðu hafi ekki verið í samræmi við lög. Þá má hér nefna að fundið var að úrskurði tryggingaráðs með hliðstæðum hætti í dómi Hæstaréttar frá 3. desember 1998 í málinu nr. 108/1998. Nú hefur sú breyting orðið á lögum að úrskurðarvald í þessum málaflokki hefur verið flutt frá tryggingaráði til sérstakrar úrskurðarnefndar almannatrygginga, sbr. lög nr. 60/1999. Það á síðan eftir að koma í ljós hverju sú breyting skilar að þessu leyti. En álit umboðsmanns Alþingis vegna þessa málaflokks gefa ekki bara tilefni til þess að hugað sé að fyrirkomulagi úrskurðarvalds á þessu sviði heldur má í nokkrum þessara álita finna umfjöllun um atriði sem farið hafa úrskeiðis við beitingu stjórnvalda á þeim réttarreglum sem um hann gilda og þess eru einnig dæmi að þar sé bent á að meinbugir séu á ákvæðum laga og reglugerða á þessu sviði, sjá t.d. mál nr. 2125/1997 ( 1.1. í kafla III).
Í málaflokknum skattar og gjöld koma svonefnd þjónustugjöld oft við sögu. Í þeim tilvikum þegar stjórnvöldum er með lögum heimilað að innheimta slík gjöld fyrir veitta þjónustu er stundum farin sú leið að fela ráðuneyti að staðfesta gjaldskrá viðkomandi stjórnvalds. Sem dæmi um mál þar sem fjallað er um slík ákvæði í þessari skýrslu má nefna mál nr. 2584/1998 ( 15.12. í kafla III) um gjaldskrá holræsagjalds og að hluta mál nr. 2324/1997 (15.4. í kafla III) um gjaldskrá hitaveitu. Í báðum tilvikum er um að ræða staðfestingu ráðherra á gjaldskrá vegna starfsemi á vegum sveitarfélags og í fyrrnefndu málunum er fjallað um þá eftirlitsskyldu sem leiðir af því verkefni ráðherra að fara með staðfestingarvaldið.
Athugun umboðsmanns Alþingis í tilefni af kvörtun sem honum hefur borist leiðir stundum í ljós að almennt hafi framkvæmd stjórnvalda á einhverju tilteknu sviði ekki verið með þeim hætti sem lög mæla fyrir um. Sem dæmi um þetta má nefna mál nr. 2545/1998 (15.11. í kafla III) sem fjallar meðal annars um endurgreiðslu oftekinna skatta og vaxtagreiðslur af því tilefni. Í skýringum fjármálaráðuneytisins til umboðsmanns í því máli kom fram að þrátt fyrir að lög kvæðu á um að innheimtumönnum ríkissjóðs bæri að endurgreiða ofgreidda skatta ásamt vöxtum að eigin frumkvæði hefði verið misbrestur á því af hálfu innheimtumanna. Voru skýringar ráðuneytisins þær að tölvukerfi ríkisins hefði ekki ráðið við að reikna sjálfvirkt inneignarvexti vegna endurákvörðunar skatta og innheimtumenn hefðu ekki haft yfir að ráða starfsfólki til að reikna þá út. Ég taldi að þessar skýringar fjármálaráðuneytisins fælu ekki í sér lögmætar ástæður til þess að innheimtumönnum ríkissjóðs hefði verið heimilt að halda að sér höndum við framkvæmd lagaákvæða um greiðslu vaxta af ofgreiddum skatti. Taldi ég afar brýnt að útreikningi inneignarvaxta yrði komið í lögmætt horf sem allra fyrst og án tillits til þess hvenær nýtt tölvukerfi yrði tekið í notkun. Með tilliti til þess að Alþingi hafði með lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, svo nýlega hnykkt á skyldu innheimtumanna til að hafa frumkvæði að nefndum endurgreiðslum ákvað ég að vekja sérstaka athygli Alþingis á þessu áliti og var það gert með bréfi til forseta Alþingis, dags. 12. júlí 1999. Þar sem niðurstaða í máli þessu hafði líka almenna þýðingu fyrir þá sem voru í sömu stöðu og sá sem borið hafði kvörtunina fram ákvað ég að vekja athygli á niðurstöðu minni með sérstakri fréttatilkynningu til fjölmiðla sem var send út 9. ágúst 1999. Þar var jafnframt gerð grein fyrir viðbrögðum fjármálaráðuneytisins vegna álitsins, en þau voru kynnt mér með bréfi. dags. 20. júlí 1999.
7.
Eins og sjá má í skýrslu minni eru mál er varða opinbera starfsmenn einn stærsti einstaki málaflokkurinn sem til kasta minna kom á árinu. Hefur svo verið frá stofnun embættisins. Greina má nokkra fjölgun mála á þessu sviði á undanförnum árum og á það eflaust að einhverju leyti rætur að rekja til nýrra laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Þau lög miðuðu meðal annars að því að færa ákvörðunarvald í starfsmannamálum stofnana ríkisins í auknum mæli til forstöðumanna þeirra. Við athugun mína á þessum málum hef ég orðið þess var að all algengt er að fyrirmælum stjórnsýslulaga er ekki fylgt við úrlausn þeirra. Því tel ég rétt að minna sérstaklega á að við setningu stjórnsýslulaga var út frá því gengið að ákvarðanir um setningu, skipun og ráðningu opinberra starfsmanna, svo og lausn þeirra frá störfum og brottvikningu, skyldu teljast til stjórnvaldsákvarðana og því ættu stjórnsýslulögin að gilda um slíkar ákvarðanir. Sama á við um ákvarðanir stjórnvalda um að beita opinbera starfsmenn stjórnsýsluviðurlögum. Dæmi um þetta er álit mitt í máli nr. 2475/1998 (13.6. í kafla III) þar sem fjallað er um áminningu sem forstöðumaður veitti starfsmanni. Ég tel mikilvægt að lagafyrirmælum sem færa valdheimildir til ákvarðanatöku í jafn viðamiklum málaflokki til allra forstöðumanna ríkisstofnana sé fylgt eftir með nauðsynlegri fræðslu um þær réttarreglur sem gilda um slíkar ákvarðanir.
8.
Stjórnsýslulögin nr. 37/1993 eru þau lög sem oftast koma við sögu í álitum umboðsmanns Alþingis. Þess gætir nokkuð að stjórnsýslan beiti þeim lögum án þess að huga nægjanlega að því að leysa úr málum að virtum öllum þeim lagasjónarmiðum sem við eiga. Í því efni er þörf á að rifja upp að með stjórnsýslulögunum var verið að lögfesta ýmsar þær reglur sem dómstólar og umboðsmaður Alþingis höfðu talið að hér væru í gildi sem óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins. Með lögunum var því aðeins verið að lögfesta lágmarksreglur sem gilda á því sviði stjórnsýslunnar sem lögin taka til. Stjórnsýslulögunum verður því ekki beitt á þann veg að gagnálykta frá þeim og fullyrða án nánari skoðunar að aðili stjórnsýslumáls eigi ekki meiri eða annan rétt en stjórnsýslulögin kveða á um. Þannig kunna bæði lögfestar og ólögfestar reglur að gilda til viðbótar reglum stjórnsýslulaganna.
Ég læt hér nægja að taka eitt dæmi um framangreint efni en það er heimildin til endurupptöku máls. Kemur þar bæði til að í álitum umboðsmanns Alþingis felast oft tilmæli til stjórnvalds um að taka mál fyrir að nýju, komi fram ósk um það frá þeim sem borið hefur fram kvörtun, og hitt að þess sjást dæmi að stjórnvöld beiti 24. gr. stjórnsýslulaga þannig að hún útiloki að til endurupptöku máls geti komið í öðrum tilvikum en þar er fjallað um. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp að eins og fram kemur í athugasemdum með þessu ákvæði í frumvarpi til stjórnsýslulaga er almennt gengið út frá því í stjórnsýslurétti að stjórnvöld hafi á sumum sviðum nokkuð víðtæka heimild til þess að endurupptaka mál, komi fram beiðni um slíkt frá öllum aðilum að hlutaðeigandi máli. Það var hins vegar mjög undir stjórnvaldi komið hvort orðið var við beiðni aðila um endurupptöku máls. Með stjórnsýslulögunum var því ákveðið að kveða á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt endurupptekið í þeim tveimur tilvikum sem ákvæði 24. gr. fjallar um. Þar er annars vegar um að ræða að ákvörðun hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og hins vegar þegar íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því ákvörðun var tekin. Í athugasemdum með frumvarpi til stjórnsýslulaganna er hins vegar tekið fram að aðili máls geti „að sjálfsögðu átt rétt til endurupptöku máls í fleiri tilvikum en þessum tveimur, ýmist á grundvelli lögfestra reglna eða óskráðra.“ Þarna kemur því skýrt fram að ekki megi túlka endurupptökuákvæði 24. gr. stjórnsýslulaga þannig að sé skilyrðum hennar ekki fullnægt komi endurupptaka máls ekki til greina.
Það leiðir af meginreglunni um lögbundna stjórnsýslu sem byggt er á hér á landi að stjórnsýslan þarf að hafa heimild í lögum til að taka ákvarðanir um málefni borgaranna og þær ákvarðanir verða að vera í samræmi við lög. Í samræmi við þetta er umboðsmanni Alþingis í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, falið það hlutverk að gæta þess að stjórnsýslan fari fram í samræmi við lög. En hver er þá staðan ef nánari skoðun máls eða athugun umboðsmanns Alþingis leiðir til þeirrar niðurstöðu að ákvörðun stjórnvalds hafi ekki verið reist á réttum lagagrundvelli. Ákvæði 24. gr. stjórnsýslulaganna fjalla ekki um þessa aðstöðu. Í bréfi sem ég ritaði vegna niðurstöðu minnar í máli nr. 2591/1998 (13.7. í kafla III) gerði ég meðal annars grein fyrir efni 24. gr. stjórnsýslulaga og rakti í því sambandi það sem fram kemur í athugasemdum með frumvarpi til laganna og vitnað er til hér að framan. Var það niðurstaða mín að af því leiddi að stjórnvöldum kynni að vera skylt að taka upp mál að nýju á grundvelli ólögfestra reglna. Það gæti meðal annars átt við þegar upplýst væri að ákvörðun hefði byggst á röngum lagagrundvelli eða verulegt misræmi væri milli úrlausna stjórnvalds í sambærilegum málum.
Í mörgum þeirra mála sem fjallað er um í þessari skýrslu hefur álitum í þeim lokið með tilmælum um að viðkomandi stjórnvald taki þá ákvörðun sem kvörtunin hefur beinst að til skoðunar að nýju. Sem dæmi um mál þar sem slíkum tilmælum hefur verið beint til stjórnvalds vegna þess að ákvörðun var ekki reist á réttum lagagrundvelli er mál nr. 2123/1997 (16.1. í kafla III). Þar var um að ræða úrskurð ráðuneytis sem æðra stjórnvalds. Sá sem borið hafði fram kvörtunina leitaði í framhaldi af álitinu eftir því að málið yrði endurupptekið og þá af þeirri úrskurðarnefnd sem tekið hafði við úrskurðarvaldi ráðuneytisins í þessum málaflokki. Nefndin leitaði af því tilefni eftir afstöðu ráðuneytisins. Í svari sínu taldi það ekki forsendu til að málið yrði tekið upp að nýju þar sem ekki væri fundið að málsmeðferð ráðuneytisins „heldur efnislegri niðurstöðu, þ.e. túlkun ráðuneytisins á réttarreglum og skilyrði 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væru ekki fyrir hendi.“ Eins og lesa má í þeim upplýsingum sem fram koma í lok umfjöllunar um þetta mál í skýrslunni hafnaði úrskurðarnefndin því vegna þessarar afstöðu ráðuneytisins að endurupptaka málið.
9.
Í fyrri skýrslum umboðsmanns Alþingis hefur eftirlit með stjórnsýslu sveitarfélaga og hlutverk félagsmálaráðuneytisins í því efni verið til umfjöllunar. Á árinu 1999 voru nokkur mál til athugunar hjá mér er vörðuðu ákvarðanir sveitarfélaga og stofnana þeirra er snertu starfsmenn sveitarfélaga og ákvarðanir um ráðningar í störf á þeirra vegum. Áttu þau það sammerkt að þeim hafði ekki verið skotið til úrskurðar félagsmálaráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.
Af framangreindu tilefni ritaði ég félagsmálaráðuneytinu bréf, dags. 2. júlí 1999, þar sem óskað var upplýsinga um afstöðu ráðuneytisins til endurskoðunarvalds þess að því er tekur til þeirra ákvarðana sveitarfélaga sem að framan greinir. Í því sambandi rakti ég ákvæði 78. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 16. gr. stjórnarskipunarlaga nr. 97/1995, og l. mgr. 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 sem snýr að úrskurðarvaldi félagsmálaráðuneytisins um ýmis vafaatriði sem upp kunna að koma við framkvæmd sveitarstjórnarmálefna. Í bréfi mínu vék ég ennfremur að ummælum í skýrslu umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1989 (SUA 1989:117) um 119. gr. eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, en það ákvæði er samhljóða 103. gr. núgildandi sveitarstjórnarlaga. Þar sagði að ákvæðið væri ekki svo skýrt sem skyldi hvorki varðandi það hvaða úrskurðarvald ráðuneytinu væri falið, hverjir gætu borið mál undir ráðuneytið né hvernig meðferð slíkra mála skyldi hagað. Engu að síður væri það skoðun umboðsmanns að ráðuneytinu væri með ákvæði þessu falið vald til að úrskurða um lögmæti ákvarðana sveitarstjórna í málefnum sem teldust til sveitarstjórnarmálefna samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Taldi hann jafnframt að skýra þyrfti ákvæðið svo að þeir sem nægilegra hagsmuna ættu að gæta, þá ekki síst einstaklingar sem ákvörðun beindist að, gætu borið lögmæti ákvörðunar undir ráðuneytið. Þá kom fram í bréfi mínu að í skýrslu umboðsmanns Alþingis yfir störf hans árið 1994 (SUA 1994:11-12) hefði verið minnt á þá réttaróvissu sem gilti um það hvort ákvarðanir sveitarfélaga væru kæranlegar. Í bréfinu segir síðan svo:
„Með setningu laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, var starfssvið umboðsmanns fært út gagnvart sveitarfélögum og tekur það nú jafnt til stjórnsýslu sveitarfélaga og ríkis, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 kemur fram að ef skjóta megi máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Er ákvæði þetta byggt á því sjónarmiði að gefa skuli stjórnvöldum kost á að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfisins. Á þessum forsendum hefur verið talið rétt í nokkrum tilvikum að umsækjendur um störf hjá sveitarfélögum, sem sveitarstjórn eða stjórn byggðasamlags hefur tekið ákvörðun um hverjum skuli veita, leituðu fyrst til félagsmálaráðuneytisins með kæru samkvæmt 119. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1998 og nú 103. gr. laga nr. 45/1998 áður en leitað er til umboðsmanns Alþingis. Meðal annars í ljósi þessa er því mikilvægt að ljóst sé hvaða ákvarðanir sveitarfélaga í starfsmannamálum heimilt er að kæra til félagsmálaráðuneytisins samkvæmt 103. gr. sveitarstjórnarlaga.“
Gerði ég grein fyrir því að tilgangur bréfsins væri fyrst og fremst að varpa ljósi á það hvaða ákvarðanir í starfsmannamálum væri heimilt að kæra til félagsmálaráðuneytisins og á hvaða grundvelli endurskoðun ráðuneytisins færi fram. Því óskaði ég eftir því að ráðuneytið svaraði ákveðnum spurningum er lutu að endurskoðunarvaldi þess í málum af þessu tagi. Svar ráðuneytisins barst mér 14. júlí 1999. Af því mátti ráða að allar ákvarðanir sveitarfélaga er lúta að veitingu starfa, uppsögnum, áminningum og öðrum viðbrögðum þeirra vegna athafna eða athafnaleysis starfsmanna sveitarfélags væri unnt að kæra til ráðuneytisins. Tæki endurskoðun ráðuneytisins til þess hvort lagareglur, jafnt lögfestar sem ólögfestar hefðu verið virtar við afgreiðslu máls. Undir það kynnu að falla mál er vörðuðu meint brot gegn andmælarétti, jafnræðisreglu, hvort ómálefnaleg sjónarmið hefðu ráðið niðurstöðu o.s.frv. Vald ráðuneytisins næði ekki til þess að breyta ákvörðun sveitarstjórnar heldur væri því einungis heimilt að ógilda eða staðfesta ákvörðun.
Í kjölfar svars ráðuneytisins ritaði ég þeim bréf sem kvartað höfðu til umboðsmanns yfir ákvörðunum sveitarfélaga um ráðningar eða vegna þess að þeir töldu sig rangindum beitta sem starfsmenn sveitarfélaga. Þar kom fram að ég teldi rétt með hliðsjón af þeim sjónarmiðum er lægju að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að þeir kærðu viðkomandi ákvörðun til félagsmálaráðuneytisins. Myndi frekari umfjöllun mín um kvartanir þeirra bíða uns afstaða ráðuneytisins lægi fyrir. Það var síðan ýmist hvort þessi mál komu til frekari umfjöllunar hjá mér eða ekki. Í nokkrum tilvikum var fallið frá kvörtun til umboðsmanns eftir að ráðuneytið hafði úrskurðað í málunum. Önnur komu á ný til athugunar hjá mér á árinu 2000.
Ég hef valið að gera hér grein fyrir framangreindum bréfaskiptum og afstöðu félagsmálaráðuneytisins þar sem ég tel að hún hafi almenna þýðingum um afstöðu ráðuneytisins til úrskurðarvalds þess um ákvarðanir sveitarstjórna og þar með hvenær þarf að leita til ráðuneytisins áður en kvörtun vegna ákvörðunar sveitarstjórnar verður borin fram við umboðsmann Alþingis, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.