Lögreglu- og sakamál. Rannsókn máls. Tafir.

(Mál nr. 12128/2023)

Kvartað var yfir vinnubrögðum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn líkamsárásar,  drætti sem orðið hefði á henni og að hún hefði verið ófullnægjandi.  

Þar sem málsmeðferð lögreglustjórans hafði ekki verið borin undir ríkissaksóknara voru ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið. Hvað lyti starfsháttum lögreglunnar almennt við meðferð og rannsókn málsins minnti umboðsmaður á nefnd um eftirlit með störfum lögreglu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. apríl 2023.

  

  

Vísað er til kvörtunar yðar 27. mars sl., fyrir hönd A, en hún beinist að vinnubrögðum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn líkamsárásar, sem umbjóðandi yðar varð fyrir að kvöldi 14. apríl 2020. Nánar tiltekið beinist kvörtunin að þeim drætti, sem umbjóðandi yðar telur að orðið hafi á rannsókn lögreglu, auk þess sem rannsóknin hafi verið ófullnægjandi og leitt til þess að aðeins einn ætlaðra árásarmanna hafi verið ákærður fyrir brotið.

Vegna athugasemda í kvörtun yðar við tilhögun rannsóknar og ákvörðun um hverjir skyldu sæta ákæru í umræddu máli tek ég fram að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, er ríkissaksóknari æðsti handhafi ákæruvalds en hann hefur jafnframt eftirlit með framkvæmd ákæruvalds hjá öðrum ákærendum, sbr. 1. mgr. 21. gr. sömu laga. Ríkissaksóknari getur og gefið öðrum ákærendum fyrirmæli um einstök mál, sem þeim er skylt að hlíta, en hann getur einnig kveðið á um rannsókn máls, mælt fyrir um framkvæmd hennar og fylgst með henni, sbr. 3. mgr. 21. gr. laganna. Þá skal þess getið til hliðsjónar að samkvæmt 2. mgr. 57. gr. laga nr. 88/2008 getur ákærandi mælt fyrir um frekari rannsóknaraðgerðir af hálfu lögreglu telji hann þess þörf.

Ástæða þess að framan­greint er rakið er sú að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds, fyrr en það hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta er byggt á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en kvartað sé til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvörtun. Í samræmi við þetta sjónarmið hefur umboðsmaður almennt talið rétt að æðra stjórnvaldi sé gefið færi á að fjalla um mál og taka afstöðu til þess hvort tilefni sé til að beita þeim heimildum sem það hefur áður en umboðsmaður tekur mál til athugunar á grundvelli kvörtunar. Það á einnig við í þeim tilvikum þar sem afstaða þess til málsins verður ekki fengin fram á grundvelli stjórnsýslukæru.

Af kvörtun yðar verður ekki ráðið að þér hafið borið framangreindar athugasemdir umbjóðanda yðar varðandi rannsókn lögreglu og ákærumeðferð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu undir ríkissaksóknara sem hefur samkvæmt ofanröktum lagaákvæðum eftirlit með meðferð ákæruvalds. Í ljósi þessa og með vísan til 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 tel ég rétt að þér leitið fyrst með athugasemdir yðar til ríkissaksóknara áður en ég fjalla frekar um kvörtun yðar að þessu leyti.

Að því marki sem kvörtun yðar kann að lúta að starfsháttum lögreglunnar almennt við meðferð og rannsókn umrædds máls minni ég á að samkvæmt 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 starfar sjálfstæð stjórnsýslunefnd, sem hefur eftirlit með störfum lögreglu. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. a sömu laga er hlutverk nefndarinnar meðal annars að taka til meðferðar kvartanir vegna starfsaðferða lögreglu eða framkomu starfsmanns lögreglu sem fer með lögregluvald. Fyrir liggur að þér leituðuð til nefndarinnar 1. júlí 2021 en það erindi laut aðeins að töfum á henni áður en rannsókn hafði endanlega verið til lykta leidd og því að umbjóðandi yðar hefði ekki fengið aðgang að tilgreindum gögnum. Þér getið því freistað þess að leita til nefndarinnar með athugasemdir yðar.

Ef umbjóðandi yðar telur sig enn beittan rangsleitni að fulltæmdum leiðum innan stjórnsýslunnar er yður fært að leita til mín á ný. Með vísan til þess sem rakið er að framan er athugun á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.