A kvartaði yfir synjun landlæknis á því að veita honum leyfi til að stunda nálastungumeðferð en hann hafði að loknu námi í Bandaríkjunum haft atvinnu af því þar í landi.
Umboðsmaður rakti efni reglna landlæknis um nálastungumeðferð frá 18. júní 1998 og greinargerð sem fylgdi þeim. Tók hann fram að ekki væri vísað til sérstakrar lagaheimildar að baki reglunum og að ekki væri séð að þær hefðu verið birtar í Stjórnartíðindum. Taldi umboðsmaður að reglurnar hefðu þann tilgang samkvæmt orðalagi sínu að takmarka með almennum hætti möguleika manna til að veita nálastungumeðferð. Umboðsmaður rakti enn fremur 75. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 um atvinnufrelsi og dómaframkvæmd þar um. Benti hann á að af ákvæðinu og lögmætisreglu stjórnsýsluréttar leiddi að til þess að stjórnvöld gætu gert kröfu um að leyfi stjórnvalda þyrfti til að stunda tiltekna atvinnu yrði lagaheimild að vera til staðar. Færi síðan eftir efni þeirrar lagaheimildar hvaða stjórnvald teldist bært til að taka ákvörðun um slíka leyfisveitingu. Tók umboðsmaður fram að væri ráðherra falið þetta vald væri ekki útilokað að honum væri heimilt að framselja það vald lægra settu stjórnvaldi.
Umboðsmaður benti á að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið færi m.a. með mál er vörðuðu embætti landlæknis. Væri hlutverk landlæknis að lögum fyrst og fremst fólgið í því að vera sérstakur ráðunautur ráðherra og annast faglegt eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum og heilbrigðisþjónustu. Benti umboðsmaður á að hvorki yrði ráðið af ákvæðum laga nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, né laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, að þar væri að finna heimild fyrir landlækni til að setja reglur um hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að veita nálastungumeðferð. Lagði hann áherslu á að almenn fyrirmæli laga um markmið heilbrigðisþjónustu eða faglegt eftirlit landlæknis gætu ekki verið taldar fullnægjandi lagaheimildir til skerðingar á réttindavernd samkvæmt 75. gr. stjórnarskrárinnar.
Umboðsmaður rakti ákvæði 22. gr. læknalaga nr. 53/1988 um skottulækningar. Benti hann á að þrátt fyrir að hugtakið lækningar væri ekki skilgreint í lögunum væri að finna ráðagerð í lögskýringargögnum um að afmörkun á því hvaða meðferð læknar megi einir veita skuli ráðast að verulegu leyti af túlkun á lagareglum um skottulækningar. Yrði því ekki fullyrt að sérhver meðhöndlun sjúklinga undir merkjum óhefðbundinna lækninga, t.d. með nálastungumeðferð, félli utan ákvæðis 22. gr. læknalaga. Umboðsmaður tók fram að í 22. gr. læknalaga væri ekki að finna sjálfstæða heimild til að setja reglur líkt og landlæknisembættið hafði gert. Benti hann jafnframt á að lengi hefði tíðkast að beita nálastungumeðferð án þess að það væri liður í lækningum í venjulegum skilningi þess orðs en af reglum landlæknis yrði ekki annað ráðið en að þeim væri ætlað að taka til allra nálastungumeðferða hvort sem þær væru liður í lækningum eða ekki. Var það niðurstaða umboðsmanns að í gildandi lögum væru ekki fullnægjandi valdheimildir fyrir landlækni til að setja reglur um að einungis viðurkenndar heilbrigðisstéttir hefðu heimild til að stunda nálastungumeðferð og að „öllum þeim“ sem hygðust stunda slíka meðferð bæri að sækja um leyfi til landlæknis.
Niðurstaða umboðsmanns varð því sú að landlæknir hefði ekki verið bær að lögum til að fjalla um leyfisumsókn A. Þar sem umboðsmaður taldi sig ekki vera í aðstöðu til að meta hvort sú þjónusta sem A hugðist veita kynni að falla að einhverju leyti undir lækningahugtak læknalaga beindi umboðsmaður þeim tilmælum til heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra að hann tæki upp mál A, kæmi fram beiðni um það frá honum, og tæki þá sjálfstæða afstöðu til erindis hans á grundvelli þeirra atriða sem rakin væru í álitinu.