Umboðsmaður Alþingis hefur unnið að frumkvæðisathugun vegna vegna tímabundinnar setningar ráðuneytisstjóra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis. Tildrög athugunarinnar voru frétt sem birt var á heimasíðu Stjórnarráðs Íslands í lok janúar 2022 þar sem greint var frá setningu A í embætti ráðuneytisstjóra nýs háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytis til þriggja mánaða. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort fullnægjandi lagaheimild hafi staðið til setningar A við þær aðstæður sem voru uppi og þá án undangenginnar auglýsingar. Af hálfu ráðneytisins var m.a. byggt á því að ekki hafi verið unnt að auglýsa umrætt embætti fyrr en með birtingu forsetaúrskurðar sem var hinn formlegi grundvöllur ráðuneytisins og hins nýja embættis. Þær aðstæður hafi m.a. réttlætt tímabundna setningu í embætti ráðuneytisstjóra án auglýsingar.
Umboðsmaður taldi að leggja yrði til grundvallar að með stofnun nýs ráðuneytis hefði orðið til nýtt embætti ráðuneytisstjóra sem hefði verið laust og félli því undir lögbundna auglýsingaskyldu. Umboðsmaður fjallaði því næst um heimildir til að setja í embætti og víkja frá auglýsingaskyldu lausra embætta á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að frátöldum framlengingum á skipunartíma eða flutningi embættismanns úr einu embætti í annað væri eina undantekning frá auglýsingaskyldu lausra embætta sú heimild að setja mann í embætti án auglýsingar í forföllum skipaðs embættismanns. Sú heimild gæti hins vegar, samkvæmt orðalagi sínu og forsögu, ekki átt við um tímabundna setningu í nýtt embætti, eins og ráðuneytið hefði byggt á.
Umboðsmaður benti á að ráðherra hefði við þessar aðstæður borið að grípa til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja starfsemi hins nýja ráðuneytis við stofnun þess eftir atvikum með auglýsingu embætta eða beitingu annarra löglegra úrræða sem tiltæk voru. Ekki væri séð að heimild hafi staðið til þess að byggja tímabundna setningu á ákvæðum laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins um setningu í embætti. Þá væri ljóst að ákvæði um auglýsingaskyldu yrðu ekki skýrð með þeim hætti að veitingarvaldshafa væri heimilt að setja í embætti á þeim lagagrundvelli án auglýsingar til að bregðast við skipulagsbreytingum í stað þess að laga framkvæmdina að þeim lögum og reglum sem gilda við meðferð slíkra mála. Ólögfest sjónarmið um skyldur stjórnvalda til tafarlausra viðbragða gagnvart þessum aðstæðum gátu því ekki réttlætt ákvörðun ráðherra um tímabundna setningu ráðuneytisstjóra án auglýsingar.
Það var niðurstaða umboðsmanns var að ráðherra hafi ekki verið heimilt að setja A til þriggja mánaða í embættið án undangenginnar auglýsingar. Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin eru í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 3. mars 2022.