Kvartað var yfir ónafngreindum heimilislækni á tiltekinni heilsugæslustöð. Mátti ráða að viðkomandi taldi sig ekki hafa fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
Umboðsmaður benti á að beina mætti formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka í þessum ranni sem og vegna framkomu heilbrigðisstarfsmanna að störfum. Gera yrði slíkt áður en hægt væri að leita til umboðsmanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 15. september 2021, sem hljóðar svo:
Vísað er til kvörtunar yðar sem barst 10. september sl. og beinist að ónafngreindum heimilislækni á heilsugæslustöðinni [...].
Af kvörtun yðar verður ráðið að hún lúti að því að þér hafið ekki fengið fullnægjandi heilbrigðisþjónustu. Af því tilefni vek ég athygli yðar á að samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, er heimilt að beina formlegri kvörtun til landlæknis vegna meintrar vanrækslu og mistaka við veitingu heilbrigðisþjónustu. Þá er notendum heilbrigðisþjónustu jafnframt heimilt að bera fram formlega kvörtun til landlæknis telji þeir að framkoma heilbrigðisstarfsmanna við veitingu heilbrigðisþjónustu hafi verið ótilhlýðileg. Enn fremur skal athugasemdum sjúklings vegna þjónustu á heilbrigðisstofnun beint til yfirstjórnar viðkomandi stofnunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga.
Ástæða þess að ég tek þetta fram er sú að í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er á því byggt að mál skuli ekki tekin til athugunar af hálfu umboðsmanns á grundvelli kvörtunar nema endanleg afgreiðsla þar til bærs stjórnvalds liggi fyrir og þá eftir atvikum ákvörðun æðra stjórnvalds eftir að málinu hefur verið skotið til þess í samræmi við almennar reglur, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða athafnir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Á grundvelli þess hefur verið talið rétt að eftir atvikum hafi verið leitað til þeirra sérhæfðu eftirlitsaðila sem kunna að vera fyrir hendi innan stjórnsýslunnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar á grundvelli kvörtunar. Með hliðsjón af því fjallar umboðsmaður Alþingis almennt ekki um athafnir lækna fyrr en þær hafa komið til umfjöllunar hjá landlækni.
Með vísan til framangreinds tel ég rétt, ef þér teljið tilefni til, að þér leitið til landlæknisembættisins með erindi yðar áður en þér leitið til mín með kvörtun. Ef þér kjósið að fara þá leið bendi ég yður þó á að gera ítarlegri grein fyrir erindinu, s.s. samskiptum yðar við umræddan heimilislækni, en þér gerið í kvörtun yðar til mín. Telji landlæknisembættið, eftir að hafa farið yfir erindið, að það heyri fremur undir yfirstjórn Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, ber því að senda erindið þangað svo fljótt sem unnt er, sbr. 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ef þér teljið tilefni til að leita til landlæknisembættisins en teljið yður enn beittan rangsleitni að fenginni niðurstöðu þess getið þér leitað til mín á ný af því tilefni, eftir atvikum að undangenginni umfjöllun heilbrigðisráðherra um málsmeðferð landlæknis, sbr. 6. mgr. 12. gr. laga nr. 74/1997.
Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.