Félag flugumferðarstjóra kvartaði yfir úrskurði samgönguráðuneytisins í kjölfar kæru félagsins vegna banns yfirmanns flugumferðarþjónustu flugmálastjórnar við því að einn félagsmanna klæddist bláum gallabuxum við vinnu sína.
Umboðsmaður taldi að hin umdeildu fyrirmæli byggðust á almennum stjórnunarrétti yfirmanns á ríkisstofnun, sbr. 15. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en ekki reglugerð um einkennisbúning starfsmanna flugmálastjórnar. Með fyrirmælunum var stefnt að því markmiði að skapa faglega ásýnd yfir starfsemi flugumferðarstjóra í augum gesta flugmálastjórnar. Taldi umboðsmaður að ekki væru forsendur til þess í málinu að telja að ólögmæt sjónarmið hefðu legið að baki framangreindum fyrirmælum eða að þau hefðu gengið lengra en nauðsynlegt væri til að skapa þá ásýnd sem að væri stefnt.
Umboðsmaður tók fram að samkvæmt framangreindri 15. gr. laga nr. 70/1996 væri starfsmanni skylt að hlýða löglegum fyrirskipunum yfirmanna um starf sitt. Við mat á því hvort fyrirskipun, sem yfirmaður setti fram í skjóli stjórnunarvalds síns, væri lögmæt kynni að hafa þýðingu hvort fyrirskipun hans væri almenns eðlis eða bundin við ákveðin afmörkuð tilvik. Þegar sú aðstæða væri uppi að yfirmaður á vinnustað starfsmanna ríkisins mælti svo fyrir að almennt væri óheimilt að klæðast almennum eða algengum klæðnaði eins og bláum gallabuxum eða bómullarbuxum (nankinsbuxum) við störf taldi umboðsmaður að til þess að slík almenn fyrirmæli gætu verið grundvöllur að löglegri fyrirskipun í merkingu 15. gr. laga nr. 70/1996 þyrftu þau að vera ákveðin fyrirfram með skýrum og glöggum hætti. Aðeins með því móti gæfist starfsmönnum raunhæfur kostur, að teknu tilliti til almennra réttaröryggis- og sanngirnissjónarmiða, að gera sér fyrirfram ljóst hvaða kröfur væru gerðar til þeirra að þessu leyti við rækslu starfs þeirra. Yrði ekki séð að mál þetta hafi snúist um það hvort þær einstöku bláu gallabuxur sem viðkomandi starfsmaður klæddist gætu ekki talist snyrtilegar. Var það niðurstaða umboðsmanns að fyrirskipun yfirmanns þess efnis að ákveðinn algengur daglegur klæðnaður fólks teldist ekki leyfilegur á þeim grundvelli að hann væri ekki snyrtilegur væri því aðeins lögleg í merkingu 15. gr. laga nr. 70/1996 að hún styddist við fyrirfram ákveðin fyrirmæli sem væru skýr og glögg. Taldi umboðsmaður að í því tilviki sem hér væri til umfjöllunar hefði þetta skilyrði ekki verið uppfyllt.
Það var því niðurstaða umboðsmanns að úrskurður samgönguráðuneytisins hefði ekki verið reistur á lögmætum forsendum. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki málið upp að nýju, kæmi fram ósk um það frá Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, og hagaði þá úrlausn málsins í samræmi við þau sjónarmið sem gerð hefðu verið grein fyrir í álitinu.